Úlpan í bílskúrnum

Úrsúla JünemannÉg var á leiðinni út í búð í gær. Veðrið var fallegt, snjór yfir öllu og 8 stiga frost. Ég var vel búin, klædd í kuldagalla og gönguskó og naut þess að vera úti. Þá stoppaði bíll við hliðina á mér og bílstjórinn ávarpaði mig: „Hei, talar þú íslensku?“ Og svo spurði hann mig til vegar. Þegar ég var búin að leiðbeina honum varð ég hugsi. Af hverju hélt hann að ég talaði ekki landsmálið?

Svo runnu upp fyrir mér fleiri svona atvik. Ég lendi stundum í því að afgreiðslufólkið í einhverjum búðum byrjar að tala við mig á ensku og spyr: „Can I help you?“ Þá kem ég kannski inn í búðina úr vondu veðri, klædd í blautan regngalla af því að ég er hjólandi. Svona manneskja hlýtur að vera útendingur!

Það er þá ekki „íslenskt“ að fara sinna ferðir gangandi eða hjólandi í öllum veðrum og vera klæddur í samræmi við veðrið. Já, er það ekki bara þannig? Síðustu dagana í köldu veðri hef ég til dæmis ekki hitt eitt einasta barn sem fór gangandi á leið minni í skólann. En bílalestin í kringum skólann á morgnana líkist því sem gerist í erlendri stórborg.

Er það þá „íslenskt“ að skutla börnunum sínum alltaf í staðinn fyrir að láta þau ganga eða nota almenningssamgöngur? Út úr húsi – inn í bíl, sem er að sjálfsögðu vel upphitaður – og inn í hús aftur. Þannig er það hjá mörgum. Fólk á sem sagt sínar úlpur og kuldagalla í bílskúrnum og „skjólfötin“ eru úr blikki.

Og börnin sem hoppa út úr bíl fyrir framan skólann eru oft illa klædd og ekki tilbúin til útiveru, vælandi úr kulda í frímínútunum. Getur það ekki verið að þessi börn næli sér fyrst allra í alls konar kvefpestir af því að líkaminn hefur ekki þróað nógu góða mótstöðu gegn veikindum?

Er það þá „íslenskt“ að vera klæddur eftir nýjasta tískublaði en ekki eftir veðri? Vera jafnvel sokkalaus með bera leggi í frosti og snjó? Taka áhættuna á því að fá blöðrubólgu bara til þess að vera smart? Láta bílinn hita sig upp í lausagangi til þess að þurfa ekki að klæða sig í einhverja ljóta úlpu? Og fara helst alveg inn í búð á bíl til þess að þurfa ekki að stíga skref út í snjóinn á fínu háhæla skónum sínum?

Hvernig væri nú að jólafötin í ár yrðu góð skjólföt í staðinn fyrir enn einn prinsessukjóllinn? Sennilega hanga nógu mörg slík föt í fataskápnum eins og er.


Uppruni: Fréttablaðið 16. des. 2011

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.