Nokkrar hugmyndir fyrir vinnustaði til að efla hjólreiðar

1. Stofnun hjólaráðs
Stofnaðu hjólaráð til að móta þá stefnu og þær hugmyndir sem fyrirtækið/stofnunin gæti unnið eftir og væru líklegar til árangurs.

Markmið ráðsins væri einnig að koma hugmyndunum í framkvæmd og það með vilja stjórnar. Myndun samgöngustefnu gæti verið hluti af aðgerðunum.

2. Skipun tengiliðs hjólarráðs
Nauðsynlegt er að hafa tengilið sem ber ábyrgð á að vinna eftir tillögum hjólaráðsins

3. Könnun meðal starfsmanna
Gott er að kanna áhuga starfsmanna á hjólreiðum og leita e.t..v. að ástæðum þess að þeir kjósi bíl umfram hjól. 

4. Hjólreiðakort
Gott er prenta kort sem sýnir helstu hjólreiðaleiðir í nágrenni vinnustaðarins. Ekki er verra ef upplýsingar um ferðir almenningsvagna eru á sama korti ef starfsmenn vilja sameina hjólreiðar og notkun almenningsvagna.

5. Bæklingur um hjólreiðar
Bæklingurinn ætti að innihalda upplýsingar frá hjólaráði, samgöngustefnu, mynd af aðstöðu hjólreiðafólks o.s.frv. 

6. Hvati  til hjólreiða
Hvettu til hjólreiða með veggspjöldum, fréttum um hjólreiðar, fræðslufundum o.fl. þ.h.. Útvegaðu lesefni fyrir starfsmenn sem hvetur til hjólreiða. 

7. Fréttatilkynningar
Kynntu hvað vinnustaðurinn er að gera í hjólreiðumálum. Bjóddu fjölmiðlum í heimsókn.

8. Hjólreiðastæði
Bjóddu starfsmönnum upp á hentug hjólreiðastæði. Hafðu þau helst yfirbyggð og þannig að tryggt sé að hjólum verði ekki stolið þó svo að þau séu skilin eftir yfir nótt. Huga þarf einnig að lýsingu.

Hugsaðu einnig um stæði fyrir viðskiptavini. Hafðu stæðin þannig að ekki sé hætta að gjarðir beyglist í vindi og reyndu að hafa þau eins nærri inngöngum og hægt er.

Fækkaðu e.t.v. bílastæðum til að fjölga hjólreiðastæðum og hugsaðu um nýtingu fyrir það pláss sem gæti sparast með færri lögðum bílum. Ókeypis bílastæði letja til hjólreiða.

9. Flutningar
Ef fyrirtækið er að flytja er mikilvægt að horfa til möguleika hjólreiða við val á nýrri staðsetningu. 

10. Sturtur og skápar
Skilgreindu þörfina fyrir skápa og sturtur. Er núverandi aðstaða nægilega góð, vita starfsmenn af henni? Henta skáparnir fyrir jakkaföt og kjóla? Eru sturtur fyrir bæði kyn?

11. Fjárhagslegir hvatar
Reiknaðu út virði hvers bílastæðis og bjóddu starfsmönnum andvirði þess ef þeir kjósa að nýta það ekki. Í því gæti t.d. falist að starfsmaður fengi andvirði Græna kortsins, styrk til hjólreiðakaupa eða. styttri vinnutíma. Gefðu starfsmönnum val um samgöngumáta. Bjóddu starfsmönnum að nota íþróttastyrk til kaupa á hjóli og hjólreiðabúnaði.

12. Aðstaða til viðgerða
Finndu út hvar næsta viðgerðaverkstæði er eða skipulegðu ákveðið svæði til viðgerða.

13. Kennsla um hjólreiðar
Haltu reglulega fundi og/eða fræðsluerindi um hjólreiðar. Kenndu fólki að velja bestu leiðirnir, um samgönguhjólreiðar, hvernig fatnaði eigi að klæðast, hvernig koma megi í veg fyrir þjófnað, um samnýtingu hjóla og almenningsvagna,  um heilsufarslegan ávinning þess að hjóla, um hjólaferðir o.s.frv.

14. Taktu þátt í Hjólað í vinnuna
Hvettu starsfmenn til að taka þátt í hjólað í vinnuna sem fer fram í maí á hverju ári.

15. Varnaglar
Bjóddu hjólreiðamönumm að fá lánsbíl eða taka leigubíl í neyðartilvikum.

16. Viðurkenning til starfsmanna
Veittu framúrskarandi starfmönnum, viðskiptavinum, nemendum o.s.frv. hjól í verðlaun eða annað sem tengist hjólreiðum. Gefðu endurskinsvesti, ljós, spegla eða hjálma sem e.t.v. er merkt vinnustaðnum og starfsmanninum. Sýndu fólkinu að þér þyki vænt um það og að þú berð öryggi þess fyrir brjósti. 

17. Kveddu mýturnar niður
Fólk segist gjarnan ekki hjóla „af því það er of langt, ég þarf að skutla barninu mínu, ég er í of lélegu formi, of mikil rigning, of mikill vindur, of bratt, of hættulegt, ég vil ekki skipta um föt, það tekur of langan tíma”. Stundum eru þetta alvöru orsakir en stundum eru þetta ímyndaðar hindranir í huga fólks sem eiga ekki við.

18. Hjólafloti
Bjóddu upp á hjólabanka á líkan hátt og mörg fyrirtæki reka bílabanka.

19. Hjólaleiga
Lánaðu hjól í ákveðinn tíma t.d. frá 30 til 90 daga. Þannig gefst fólki kostir á að prófa hjólreiðar án þess að kaupa sér hjól. E.t.v. mætti bjóða fólki að kaupa hjól í kjölfar leigu. 

20. Skipulegðu hjólaferðir
Styrktu hjólaferðir í hádeginu eða fyrir/eftir vinnu. Slíkar hjólreiðaferðir efla starfsandann og eru góður hvati til hjólreiða.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl