Starfsfólkið taki upp nýja siði

Fyrirtæki og stofnanir eru í nýrri áætlun hvött til að móta samgönguáætlun og hvetja starfsfólk til að tileinka sér vistvænar samgöngur. Landspítalinn og fleiri stór fyrirtæki og stofnanir hafa gert samning við Strætó bs. og starfsfólk getur í krafti þeirra keypt sér árskort með talsverðum afslætti. Samningarnir eru víðtækir. Í þeim felst að fyrirtækin skuldbinda sig til að móta sér sína eigin samgöngustefnu, þar sem starfsfólkið er hvatt til að nýta sér aðra kosti en einkabílinn til að komast á milli staða.

 

Vilja hjóla og taka strætó

Langflestir starfsmenn Landspítalans nota einkabíl til að komast til og frá vinnu, skv. könnun sem gerð var í haust. Flestir nota einkabíl vegna þess að þeim finnst þeir búa of langt frá spítalanum til að ganga eða hjóla ellegar henta almenningssamgöngur þeim ekki.

Í könnuninni kemur fram að starfsfólkið telur ekki raunhæft að nota aðra samgöngumáta en einkabílinn því koma þurfi börnum í og úr skóla, tómstundastarfi og fleiru. Flestir segjast geta hugsað sé að fara öðruvísi milli staða en þeir gera nú, en telja of mikla fjarlægð frá vinnustað vera fyrirstöðu.
 

Byrja snemma og hætta seint

Birna Helgadóttir sinnir umhverfis- og samgöngumálum hjá Landspítalanum. Hún segir að könnunin hafi verið liður í stefnu stofnunarinnar í umhverfis- og samgöngumálum.

„Þessi könnun er góður grunnur til að móta enn frekar stefnu Landspítalans í þessum málaflokki. Fram komu fjölmargar góðar hugmyndir frá starfsfólkinu sem vert er að skoða gaumgæfilega,“ segir Birna. Hún telur leiðakerfi Strætó hindrun í vegi því vagnar hreinlega gangi ekki á þeim tímum sem slíkt henti starfsfólki.

„Margir sem byrja snemma að vinna á morgnana geta ekki tekið strætó vegna þess að vagnarnir eru ekki á ferðinni alveg í bítið og vandamálið er hið sama seint á kvöldin. Skv. könnuninni munu ódýrari fargjöld leiða til þess að fleiri geta hugsað sér að nýta almenningssamgöngur
og því höfum við nú gert þennan samning við Strætó bs. og ég vona að sem flestir kynni sér hvað er í boði,“ segir Birna.
 

Hjólageymsla með vorinu

Viðleitni stjórnenda Landspítalans í þá átt að starfsfólk taki upp nýja háttu í samgöngumálum er ekki bara orðin tóm. Með vorinu verður tekin í notkun hjólageymsla við sjúkrahúsið, þar með verður aðstaða til að geyma hjólin. Þar verður ýmis þjónusta í boði, til dæmis aðstaða til að pumpa lofti í dekkin, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er vissulega hluti af okkar samgöngustefnu og ég er viss um að starfsfólkið kemur til með að nýta sér þessa nýju aðstöðu,“ segir Birna.

 


 

Hjólafólkið er vestan Kringlumýrarbrautar, segir í hjólreiðaáætlun Reykjavíkur

Styttri vegalengdir hvetja til hjólreiða

Mikilvægt er að stytta vegalengdir ef fjölga á hjólandi vegfarendum, segir í hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík sem samþykkt var í borgarstjórn á síðasta ári. Borgaryfirvöld telja að það markmið náist fyrst og fremst með þéttingu byggðar, eins og kveðið er á um í aðalskipulagi Reykjavíkur. Í ferðavenjukönnun sem gerð var 2009, kemur fram að mest notkun reiðhjóla er í hverfum vestan Kringlumýrarbrautar sem aftur rímar við þá staðreynd að fólk hjólar tæplega lengri leiðir – það er úr úthverfunum til vinnu t.d. í miðborginni.

Eknar ferðir Reykvíkinga eru um það bil 500 þús- und kílómetrar á dag á dag. Meðallengd allra ferða er 3,23 km og eru 76% þessara ferða farin akandi. Flytjist 10% ökuferða yfir á hjól fækkar eknum ferðum í borginni um 50 þúsund kílómetra á dag. Miðað við að meðallengd hjólaferðar sé 2 km. sparast um 100 þúsund eknir km á dag á götum borgarinnar. Sparnaður í útblæstri koltvísýrings væri með þessu
20 tonn á dag eða 730 tonn á ári.

---
Myndatexti: Birna Helgadóttir hjólar gjarnan milli staða. Hennar starf á Landspítalanum felst meðal annars í að fá starfsfólkið til að fylgja sínu fordæmi.

Uppruni: Finnur / Morgunblaðið 29. desember 2011 - Karl Eskil Pálsson

mbl-111229