Almenningshjólaleigur

Gangverk-Des-2011-webVinsældir og áhugi fólks á almenningshjólaleigum hefur aukist hratt á síðustu árum þar sem borgaryfirvöld í flestum borgum Evrópu leita nýrra leiða til þess að auka hlutdeild vistvænna og sjálfbærra samgangna. Í því felst meðal annars að auka hjólreiðar og notkun almenningssamgangna. Almenningshjólaleigur bjóða upp á skammtímaleigu á hjólum í gegnum sjálfsafgreiðslukerfi sem er staðsett á fjölförnum stöðum.

Hugmyndin að baki almenningshjólaleigum er einföld. Fólk greiðir fyrir þjónustuna og nýtur allra þeirra fríðinda sem fylgja því að eiga reiðhjól, án þess að þurfa að kaupa hjólið, annast geymslu þess og viðhald. Munurinn á hefðbundnum hjólaleigum eins og þekkjast í Reykjavík og almenningshjólaleigum erlendis liggur helst í því að hefðbundnar hjólaleigur eru hugsaðar fyrir frístundahjólreiðar en almenningshjólaleigur eru hugsaðar sem hluti af eða viðbót við almenningssamgöngukerfi.

Til marks um vinsældir almenningshjólaleiga er vert að geta þess að árið 2000 voru slík kerfi starfrækt í fimm löndum með um 4.000 hjól. Í dag eru hjólaleigukerfi í 33 löndum með um 236.000 hjól. Á milli áranna 2008 og 2010 hefur fjöldi almenningshjólaleiga í heiminum aukist um 76% og eru flestar í Evrópu.

 

Þróun

Almenningshjólaleigur hafa þróast hratt frá því fyrsta slíka kerfið var sett á fót í Amsterdam á sjöunda áratugnum. Þá voru venjuleg hjól máluð hvít og þeim dreift víðsvegar um borgina. Kerfið var gjaldfrjálst með öllu en engir lásar eða annar búnaður til eftirlits var notaður. Fljótlega fór þó að bera á því að hjólin enduðu í síkjum borgarinnar. Í kringum 1995 var Bycykel kerfið í Kaupmannahöfn sett af stað. Hjólin í kerfinu eru framleidd sérstaklega sem leiguhjól, varahlutir ganga ekki í önnur hjól og þau eru útbúin gjaldtökubúnaði.

Í þeim hjólaleigum sem eru vinsælastar í dag skráir notandinn sig í gegnum síma, heimasíðu eða á þjónustustöð. Hjólin eru staðsett á sjálfsafgreiðslustöndum víðsvegar um borgina og gerir leigutaki grein fyrir sér með snjallkorti, farsíma eða sérstöku númeri. Mismunandi form eru á leiguskilmálum en algengast er að leyfilegt sé að nota hjól í allt að þrjár klukku stundir og oftast er fyrsti hálftíminn gjaldfrjáls. Þar sem notandinn er skráður í kerfið er hægt að fylgjast með því hver leigir hvaða hjól og hefur það komið í veg fyrir þjófnaði og skemmdarverk.

 

Rekstur

Rekstrarform almenningshjólaleiga eru mjög mismunandi en algengasta fyrirkomulagið felst í samstarfi borgaryfirvalda og auglýsingafyrirtækis. Samstarfið gengur út á að auglýsinga fyrirtækið rekur hjólaleiguna og sér yfirleitt um uppsetningu, rekstur og viðhald á hjólum og öðrum búnaði gegn því að fá afnot af opinberum svæðum í eigu borgaryfirvalda, t.d. hús veggjum, skiltum og strætisvagnaskýlum.

Annað rekstrarform sem verður sífellt vinsælla er að rekstrar aðili almenningssamgangana reki einnig almenningshjólaleigur og leitast með því við að hámarka þjónustu sína. Fyrirtækið hefur yfirsýn yfir samgönguleiðir almennings og reynslu af þjónustu við notendur, auk þess að búa yfir mikilli reynslu á sviði reksturs innan samgöngukerfis. Með því að sameina reynslu sína og þarfir neytenda getur hjólið orðið hluti af almenningssamgöngukerfinu. Með slíku rekstrarformi gefst einnig kostur á að bjóða upp á eitt kort sem gildir í allar almenningssamgöngur og hjólin nýtast sem eins konar brú á milli samgöngumáta innan kerfisins, fyrst og fremst við upphaf og enda ferðalaga.

 

Ávinningur

Reiðhjól eru kjörin farartæki í borgarumhverfi. Sá sem hjólar kemst tiltölulega hratt yfir á umhverfisvænan, heilbrigðan og hljóðlausan hátt. Almenningshjól eru ekki aðeins sveigjan legur og þægilegur ferðamáti, heldur fylgir þeim margvíslegur ávinningur og fjölmargir kostir, bæði fyrir þann sem hjólar og samfélagið almennt. Má þar helst nefna jákvæð áhrif hjólreiða á heilsufar, umhverfi og fjárhag.

Reynslan sýnir að í þeim borgum þar sem almenningshjóla leigur eru starfræktar hafa hjólreiðar aukist til muna, dregið hefur úr umferð og loftgæði aukist í kjölfarið. Auk þess að vera umhverfisvænn samgöngumáti hefur hreyfingin góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Áhrifin af auknum hjólreiðum og bættum almenningssamgöngum eru einnig þau að borgin glæðist lífi og borgarbragurinn dafnar undir beru lofti.

 

Heilsufarslegur ávinningur

Hreyfing er forvörn gegn algengum lífstílssjúkdómum eins og offitu og sykursýki og leiða má líkum að ef fólk kýs að hjóla til vinnu eða skóla í stað þess að keyra muni líkur á kyrrsetu tengdum sjúkdómum minnka og yrði samfélagslegur ávinningur töluverður þar sem veikindadögum myndi fækka og kostnaður heilbrigðiskerfisins minnka.

 

Umhverfislegur ávinningur

Samkvæmt kynningarriti loftlags og loftgæðastefnu Reykja víkur er málum þannig háttað á höfuðborgarsvæðinu að samgöngur eru mesti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Á milli áranna 1990 og 2007 jókst bílaeign í borginni um 70% og um síðustu áramót var bílaeign á höfuðborgarsvæðinu um 692 bílar á hverja 1000 íbúa. Samkvæmt hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar er heildarlosun meðalstórs einkabíls 2,8 tonn af CO2 á ári og má ætla að magn útblásturs bílaflota Reykjavíkur sé um 392.073 tonn af CO2 á ári. Í samgöngustefnu Reykjavíkurborgar frá 2006 er fjallað um nauðsyn þess að draga úr neikvæðum áhrifum samgangna á umhverfið, efla hjólreiðar og hvetja fólk til að ganga. Þar sem almenningshjólaleigum hefur verið komið fyrir í borgum Evrópu hafa hjólreiðar meðal almennings nær undantekningarlaust aukist. Í ljósi þess gæti uppsetning almenningshjólaleigukerfis verið einn áfangi í því að auka hjólreiðar í Reykjavík og stuðla um leið að bættum loftgæðum.

 

Krafa almennings

Ef sett yrði á fót almenningshjólaleiga í Reykjavík gæti hún meðal annars átt stóran þátt í að efla og bæta þann borgarbrag sem yfirvöld og almenningur virðast vilja upplifa. Aukin krafa er frá almenningi um að gerðar verði úrbætur í almennings samgöngum í Reykjavík eins og sjá má þegar borin eru saman svör þátttakenda í tveimur ferðavenjukönnunum 2007 og 2010 um hverjar séu mikilvægustu samgönguframkvæmdir fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar kemur bersýnilega í ljós sú hugarfars breyting sem orðið hefur meðal almennings um mikilvægi almenningssamgangna.

Mikilvægustu framkvæmdir
2007 2010
Sundabraut 39% 8%
Bæta almenningssamgöngur 6% 29%
Bæta hjóla- og göngustíga 4% 9%
Minnka umferð einkabíla 3% 12%

 

Í kjölfar efnahagskreppunnar hefur eldsneytisverð hækkað mikið og má því leiða líkum að margir vilji draga úr notkun einkabíla eftir getu og notfæra sér almenningssamgöngur eða aðra ferðamáta í auknum mæli. Í Reykjavík eru vega lengdir almennt stuttar, um 60% allra ferða sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu eru styttri en þrír kílómetrar og um 50% eru styttri en tveir, en þessar vegalengdir eru mjög ákjósan legar og hentugar fyrir flesta til að hjóla.

Forsendur þess að almenningshjólaleigukerfi nái fótfestu og dafni eru vilji og skuldbinding yfirvalda til að stuðla að sjálf bærum samgöngum og efla hjólreiðar en einnig er æskilegt að innviðir, s.s. hjólareinar og hjólastígar, séu til staðar.

Ef ákveðið yrði að setja á fót almenningshjólaleigu þyrfti að gera það að vel ígrunduðu og skipulögðu máli og þurfa nokkrir þættir að vera skýrir áður en kerfið er sett á laggirnar:

  • Kostnaður og rekstarfyrirkomulag verður að vera skýrt
  • Staðsetningar hjólastanda þarf að velja út frá rannsóknarvinnu
  • Yfirvöld þurfa að fylgja eftir gangsetningu


Í Reykjavík, þar sem vegalengdir eru almennt stuttar, er vel hægt að sjá fyrir sér að almenningshjólaleigur gætu gefið góða raun. Ef til innkomu þeirra kæmi í samgöngukerfi Reykjavíkur er líklegt að fyrstu stöðvarnar yrðu staðsettar miðsvæðis þar sem byggð er hvað þéttust og vegalengdir stystar. Heppilegt væri að staðsetja fyrstu leigustandana við fjölmenna vinnu staði og fjölfarna staði og samtvinna við leiðarkerfi Strætó, t.d. við Hlemm, Lækjartorg, Landsspítala, Háskólana og Borgartún. Í framhaldinu yrði það svo látið ráðast af viðtökum hvort stöndunum yrði fjölgað og hvar þeim yrði bætt við. Eins og áður hefur komið fram er æskilegra að innviðir til hjólreiða séu til staðar en bæði Reykjavíkurborg og ríkisstjórn Íslands hafa mótað sér stefnu og áætlanir sem miða að því að bæta hag hjólreiða og annarra sjálfbærra samgangna. Almenningshjólaleiga sem samtvinnuð væri kerfi almennings samgangna í Reykjavík ætti því að stuðla að auknum hjólreiðum og svara kröfum almennings um bættar almenningssamgöngur auk þess að stuðla að bættri lýðheilsu og auka borgarbrag.

Daði Hall


Uppruni: Gangverk | Fréttabréf Verkís, 2.tbl 10.árgangur, haust 2011

http://www.verkis.is/media/frettabref/Gangverk-Des-2011-web.pdf

Sjá einnig blogg um greinina:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/01/07/reidhjolaleiga-i-reykjavik/

dadi-hall