Uppgangur í hjólaleigum

Það hefur verið mikill uppgangur í hjólaleigum líkt og öðru tengdu hjólreiðum. Í nýja hjólaþjónustukortinu má sjá fjölda aðila en þessar tvær fréttir vöktu athygli okkar.

Fjórtán ára og rekur hjólaleigu

Eydís Sól Steinarrsdóttir, fjórtán ára, rekur hjólaleiguna Sunny Bikes við Klapparstíg.

„Þetta er mjög gaman, fólk er hresst og það er mikið stuð á svæðinu við Hjartagarðinn. Leigan hefur gengið rosalega vel og ég hef meira að segja þurft að leigja út hjólið mitt og hans pabba,“ segir Eydís Sól Steinarrsdóttir sem rekur hjólaleiguna Sunny Bikes við Klapparstíg 30. Eydís keypti tíu borgarhjól fyrir sumarið og leigir þau út til ferðamanna.

„Hjólin voru flutt inn fyrir álverið í Straumsvík, en svo seld því vegna öryggisástæðna var bannað að nota þau í álverinu. Það gekk illa að selja þau því þetta eru einsgíra borgarhjól og ég fékk þau því öll á lægra verði,“ útskýrir Eydís.
Hjólaleiguna rekur hún í sama húsnæði og hýsir bílaleiguna Kúkú Campers sem faðir hennar, Steinarr Lár, rekur. Eydís segist hafa fengið ýmis góð ráð frá föður sínum enda sé hann reynslunni ríkari.

„Hann hefur sagt mér til og gefið mér ráð. Það er að mörgu að huga og ég sé um flestallt sjálf, líka bókhaldið og pappírsvinnuna. En þetta kemur mestallt með reynslunni,“ segir hún.
Eydís lætur ekki nægja að reka hjólaleiguna, því hún hannaði einnig lógó fyrirtækisins sjálf. „Ég var vön að skrifa nafnið mitt, Eydís, og svo sól fyrir aftan og ákvað að nota það í lógóið,“ útskýrir hún.

Eydís byrjar í 10. bekk í Garðaskóla í haust og kveðst hlakka mikið til. Í frítíma sínum iðkar hún bæði snjó- og brimbrettaíþróttina með föður sínum. „Ég held ég sé eina stelpan á mínum aldri sem fer á brimbretti, yfirleitt fer ég bara ein með pabba og vinum hans. Við fórum líka saman til Austurríkis á snjóbretti í vetur og það var rosalega gaman. Pabbi hefur orðið Íslandsmeistari á snjóbretti og ég stefni á að verða betri en hann,“ segir hún að lokum.

Uppruni: Fréttablaðið 06. júlí 2013 | Visir.is

 

Hjóla um götur bæjarins

„Við byrjuðum með hjólaleiguna í vor og þetta fer vel af stað,“ segir Matthías Þór Hákonarson framkvæmdastjóri Icelandic Adventure á Akureyri. Ferðamönnum gefst nú tækifæri á að leigja reiðhjól og upplifa Akureyri og nágrenni á nýjan hátt.

Hjólin sem eru í boði eru góð gírahjól, þannig að það ætti ekki að vefjast fyrir fólki að takast á við brekkurnar.

„Ég held samt að flestir einbeiti sér að flatlendinu en það eru eflaust einhverjir sem reyna við brekkurnar.

Þetta eru einskonar götu-fjallahjól og henta því vel við flestar aðstæður. Fólk er að hjóla vítt og breitt um svæðið og dæmi um að menn hjóli t.d. í Jólahúsið og fram í Hrafnagil.“

Uppruni: vikudagur.is 03. júlí 2013 | vikudagur.is

 

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.