Frumskógur gönguleiða

Fréttablaðið gerði úttekt á gangbrautamálum Reykjavíkur og fann þar "frumskóg gönguleiða". Í samantektinni kemur fram að af því að bílstjórar fara ekki alltaf eftir umferðarreglum og stöðva við gangbrautir var ákveðið að fjarlægja gangbrautirnar og láta frumskógarlögmálin gilda.

Bílunum var gefinn forgangur í stað þess að ráðast að rótum vandans. Það eru jú bílar sem valda alvarlegustu slysunum í umferðinni og þar er vandamálið. Það dynur á okkur stöðugur áróður um að það sé hættulegt að hjóla og ganga og reynt að varpa ábyrgðinni á aðra en bílstjóra, t.d. með því að fjarlægja gangbrautir og láta gangandi fara yfir götur á eigin ábyrgð í stað þess að styrkja þær í sessi með löggæslu. Það er verið að "hættuvæða" öruggustu fararmátana með ýmsum hætti. Reiðhjólið er með öruggustu farartækjum sem völ er á og ef það á að teljast hættulegt að ganga um Reykjavíkurborg þarf að uppræta þær hættur.


Í borginni er engin almenn skilgreining á því hvar skuli vera gangbraut og hvar ekki. Það virðast heldur ekki vera skilgreint hvernig þær eiga að vera því á einum klukkutíma fundu blaðamennirnir 19 mismunandi útfærslur.

Lesið þessa fróðlegu samantekt sem birtist í Fréttablaðinu 21 ágúst 2010.

 


Nítján leiðir til að forðast bílana

Nú þegar skólar byrja er brýnt fyrir foreldrum að kenna börnum sínum að fara með öruggum hætti yfir götuna. Borgin hefur markvisst fækkað gangbrautum síðan 1986, því þær veiti „falskt öryggi“. Þær má þó helst finna í kringum barnaskóla. Klemens Ólafur Þrastarson og Stefán Karlsson ljósmyndari fundu á klukkustund nítján mismunandi og kannski misvísandi leiðir yfir götuna.

frettabladid-100821-b

LITIÐ TIL BEGGJA ÁTTA Reykjavíkurborg hefur síðan 1986 talið gangbrautir veita „falskt öryggi“ því sumir ökumenn virða ekki rétt gangandi vegfarenda þar. Þær er helst að finna í kringum barnaskóla þar sem yngstu vegfarendurnir eiga leið um, en svo er á litið að þær henti betur við rólegar götur. Stelpurnar á leikskólanum Öldukoti fengu leyfi hjá fóstrum sínum til að skjótast fyrir blaðið yfir Öldugötuna hjá Gamla Stýrimannaskólanum vestur í bæ.

Haustið er að byrja og með því fjölgar gangandi vegfarendum í yngri aldurshópum. Auglýsingar brýna fyrir foreldrum að kenna börnum sínum að fara yfir götuna á réttan hátt. Enginn er öfundsverður af því hlutverki í ljósi þess hve fjölbreytilegar leiðir eru í boði fyrir gangandi  vegfarendur.

Blaðamaður og ljósmyndari blaðsins eyddu rúmum klukkutíma, mest í Vesturbæ og Hlíðum, og fundu nítján gerðir af gönguleiðum fyrir fólk yfir götuna. Gangbrautir, hraðahindranir, gönguljós, rendur í malbiki, niðurlækkuð umferðareyja og jafnvel bara reitir sem marka upphaf og endi leiðarinnar. Allt þetta telst til réttra leiða yfir götuna, en réttur vegfarenda og bílstjóra mismunandi.

Kveikjan að þessari skoðun var heimsókn til Noregs. Þar í höfuðborginni eru fjórar gangbrautir við gatnamót og enginn velkist í vafa um reglurnar. Í Reykjavík eru gangbrautir vandfundnari. Miklu meira er af hraðahindrunum sem erfitt er að sjá hvort veita gangandi vegfarendum einhvern forgang eða ekki.

Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar, segir að borgarstarfsmenn hafi lítið gert af því að setja niður gangbrautir síðustu ár. Sú þróun hafi byrjað upp úr 1986.

„Við teljum gangbrautir gefa falskt öryggi og viljum frekar setja hraðahindranir,“ segir hann. Þetta sé vegna þess að á gangbraut eigi gangandi vegfarandi réttinn en ökumenn virði það ekki alltaf, sem geti haft slæmar afleiðingar.

„Við viljum frekar ná niður hraðanum en að treysta á að ökumenn virði þennan rétt,“ segir hann og vísar í erlendar rannsóknir.

Stefán er ekki með tölur á takteinum um hversu margar tegundir fyrirfinnast af gangbrautum og hraðahindrunum í borginni og segir að ekki sé til nein almenn skilgreining á því hvar skuli vera gangbraut og hvar ekki. Hann viti ekki til þess að ruglingur hafi skapast af fjölbreytilegri flóru gönguleiða í Reykjavík.

Samkvæmt ítarlegri skýrslu um slys á gangandi vegfarendum, gerð af verkfræðistofunni Línuhönnun árið 2007 var fækkun sebragangbrauta hjá borginni dæmi um „vel heppnaða umferðaröryggisaðgerð“.

Spurður um norsku leiðina, að merkja gangbrautir við hver gatnamót, segir Stefán það tíðkast víða, en hún hafi ekki verið farin hjá Reykjavíkurborg. Hann segir að gangbrautir í borginni eigi að vera merktar með bæði sebralínum og bláum gangbrautarskiltum.

Lögreglan vill skýrar merkingar

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að alltaf skuli tekið tillit til gangandi vegfaranda, hvort sem hann er á gangbraut eður ei. Gangandi séu ekki í minni rétti, ef keyrt er á þá á hraðahindrun en á gangbraut.

Hins vegar sé hægt að sekta ökumenn fyrir að stoppa ekki fyrir gangandi á gangbrautum. Þetta er helsti munurinn á gangbraut og hraðahindrun: ökumanni er skylt að stöðva bifreiðina fyrir gangandi vegfaranda við gangbraut.

„Við viljum auðvitað að gönguleiðir séu skýrt merktar. Það eru sannarlega ekki margar gangbrautir í Reykjavík og það hefur verið rætt um það hjá lögreglunni að það væri gott að fá fleiri skýrar gangbrautir í íbúðahverfi og þar sem það á við,“ segir hann.

Merkja skuli gangbrautir með bæði sebraröndum og gangbrautarskilti, en sé aðeins annað þessa til staðar sé samt um gangbraut að ræða. Litið sé á hraðahindranir við vegamót sem gönguleið. Komi ökumaður að slíkri hraðahindrun og sé að beygja skuli hann stöðva bílinn og hleypa gangandi vegfaranda yfir hraðahindrunina, rétt eins og um gangbraut væri að ræða.

„Við höfum rætt um að hafa gangbrautir alls staðar þar sem er bara ein akrein í hvora átt og þrjátíu kílómetra hámarkshraði og jafnvel þar sem er fimmtíu kílómetra hraði. En það verður að taka fram í þessu samhengi að slysum á gangandi vegfarendum hefur fækkað á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár,“ segir Guðbrandur. Almennt sé góð reynsla af hraðahindrununum, til að draga úr hraða. Þó séu þær auðvitað ekki allar jafn góðar.

Spurður hvort ekki geti verið að laga mætti merkingar gönguleiða og gangbrauta í borginni, segir aðalvarðstjórinn að lögreglan óski alltaf eftir því að merkingar og leiðir séu eins skýrar og leiðbeinandi og hægt er.

Bílar alltaf í forgangi

Ásbjörn Ólafsson hjá Samtökum um bíllausan lífsstíl, segir að „í raun virðist okkur með nánast allar tegundir gönguleiða að það sé verið að tryggja leið bílanna frekar en gangandi vegfarenda.“ Göngustígar séu til dæmis ekki lagðir af sama metnaði og bílagötur.

Um kenningu borgarinnar um að gangbrautir veiti „falskt öryggi“ segir Ásbjörn:

„Gangandi vegfarandi ætti að geta reiknað með að farið sé eftir umferðarlögum og á gangbraut er hann í forgangi en ekki á hraðahindrun. Þetta er skrýtið orðalag sem segir okkur að það eru í raun bílarnir sem eru í forgangi,“ segir hann.

Þó virðist sem svo að þessi hugsun sé eitthvað að breytast í rétta átt með nýju fólki, segir Ásbjörn í lokin. Honum lítist best á sameiginlegt rými allrar umferðar, án bílastæða og gangbrauta.

Breyta þarf menningunni

Fulltrúi nýs fólks í umhverfis- og samgönguráði er Karl Sigurðsson úr Besta flokki og honum líst einnig vel á hið sameiginlega rými. Samkvæmt stefnuskrá Besta flokks og Samfylkingar á að bæta aðstöðu gangandi vegfarenda í borginni.

Karl segir að sú stefna hafi einhvern tíma verið sett að gera Reykjavík að bílaborg. Ekki sé alltaf tekið fyllilegt tillit til gangandi vegfarenda.

„Og þess vegna erum við öll að kaupa okkur bíla og enginn þorir að labba. En um þetta falska öryggi hef ég reyndar heyrt að of mikið af merkingum og boðum og bönnum verði til þess að fólk stóli á að aðrir fylgi merkingunum. Mér finnst áhugaverðar hugmyndir um að götur og gatnamót verði minna merktar og fólk þurfi bara að bera virðingu fyrir annarri tegund af umferð en þeirra eigin.“

Þetta kristallist í sam- eða deilirýminu (sem Ásbjörn vísaði til hér fyrir framan) þar sem fólk þurfi að virða aðra í umferðinni. Gangandi vegfarendur og hjólandi og bílstjórar þurfa að vera vakandi fyrir öðrum. Þetta ætti að virka til dæmis í minni götum, þar sem er þrjátíu kílómetra hámarkshraði.

„Þetta snýst um menningu og að fólk geri sér grein fyrir að það er til önnur umferð en bílar og að þeir séu ekki alltaf rétthæstir í umferðinni,“ segir Karl.

Hann segir það kunna að vera að gamlar og góðar gangbrautir gætu einnig komið að notum í samrýminu, þó með þeim fyrirvara að það gangi í raun gegn grunnhugmyndinni. Sé gangbraut á einum stað gætu bílstjórar talið sig hafa frítt spil alls staðar annars staðar.

Borgarfulltrúinn tekur undir að hraðahindranir virðist ekki virka sem skyldi en telur til dæmis blikkljós, sem minna fólk á hversu hratt það keyrir, hafa gefið góða raun. Gangbrautir virki aftur best þar sem lítil umferð er.

„Þetta þarf að gerast í smáskrefum en við þurfum að breyta menningunni okkar.“ segir Karl.

 


Frumskógur gönguleiða

Blaðamaður og ljósmyndari þeyttust um borgina í vikunni í leit að dæmum um fjölbreytni gönguleiða. Meðal gatna sem urðu fyrir valinu eru Háaleitisbraut, Skipholt, Suðurgata, við Skothúsveg og við Túngötu og við Aðalstræti. Einnig Ægisgata við Túngötu, Öldugötu og Ránargötu þar sem hún mætir Hofsvallagötu og Hrannarstíg. Þá var litið á Bræðraborgarstíg, Tjarnargötu við Vonarstræti og að síðustu Sóleyjargötu við Njarðargötu. Stefán Karlsson ljósmyndari tók allar myndirnar.

frettabladid-100821-01

Gamaldags gangbraut með gangbrautarskilti.

frettabladid-100821-02

Gangbraut. Hellulögð, ekki upphækkuð og án gangbrautarskiltis.

frettabladid-100821-03

Hellulögð gangbraut en án gangbrautarskiltis, ekki upphækkuð og nær ósýnileg akandi vegfarendum.

frettabladid-100821-04

Upphækkuð gangbraut með gangbrautarskilti.

frettabladid-100821-05

Hellulögð upphækkuð hraðahindrun, ljósari á litinn í miðjunni eins og til að gefa til kynna gönguleið, með köflóttu mynstri í jöðrum.

frettabladid-100821-06
Hellulögð upphækkuð gangbraut án skiltis, með þríhyrningsmynstri í jöðrum.

frettabladid-100821-07
Hellulögð upphækkuð hálfgangbraut án skiltis, með köflóttu mynstri í jöðrum.
frettabladid-100821-08

Hellulögð upphækkuð hraðahindrun, án merkinga í jöðrum.
frettabladid-100821-09

Hellulögð upphækkuð hraðahindrun, með köflóttu mynstri í jöðrum.

frettabladid-100821-10

Hellulögð upphækkuð hraðahindrun með gangbrautarskilti og köflóttu mynstri í jöðrum.

frettabladid-100821-11

Hellulögð upphækkuð rauðlituð hraðahindrun með gangbrautarskilti og þríhyrningsmynstri í jöðrum. Rauði liturinn afmarkar 30 km. hámarkshraða.

frettabladid-100821-12
Hellulögð upphækkuð rauðlituð hraðahindrun. Þríhyrningsmynstur í jöðrum.

frettabladid-100821-13
Hellulögð lítillega upphækkuð rönd þar sem gangstétt endar öðrum megin Suðurgötunnar.

frettabladid-100821-14
Rendur tvískipta þessari gönguleið, innan í mun víðfeðmari „hraðahindrun“ við Hallgrímskirkju.

frettabladid-100821-15
Viðmiðunarpláss fyrir gönguleið, ómerkt annars.

frettabladid-100821-16
Gönguleið yfir umferðargötu, tvískipt, ómerkt og löng. Umferð úr tveimur áttum.

frettabladid-100821-17
Gönguleið yfir stærri götu, tvískipt og með hnappi.

frettabladid-100821-18
Gönguleið yfir stærri götu, tvískipt og án hnapps.

frettabladid-100821-19
Gangbrautarljós með hnappi.

frettabladid-100821-a

FJÓRAR GÖTUR, FJÓRAR GANGBRAUTIR
Þessi mynd er tekin í Noregi, í Frogner-hverfinu í Ósló. Þar má sjá norsku leiðina yfir götu. Gangandi vegfarendur eru í forgangi á hverju horni. Á þriggja vikna rölti um borgina tók blaðamaður ekki eftir því að nokkur bílstjóri vanvirti þennan rétt. Fátítt var líka að sjá gangandi vegfarendur fara yfir götur á öðrum stöðum. MYND/GUGGA

{jathumbnail off}

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl