Vinsældir og áhugi fólks á almenningshjólaleigum hefur aukist hratt á síðustu árum þar sem borgaryfirvöld í flestum borgum Evrópu leita nýrra leiða til þess að auka hlutdeild vistvænna og sjálfbærra samgangna. Í því felst meðal annars að auka hjólreiðar og notkun almenningssamgangna. Almenningshjólaleigur bjóða upp á skammtímaleigu á hjólum í gegnum sjálfsafgreiðslukerfi sem er staðsett á fjölförnum stöðum.
Fyrirtæki og stofnanir eru í nýrri áætlun hvött til að móta samgönguáætlun og hvetja starfsfólk til að tileinka sér vistvænar samgöngur. Landspítalinn og fleiri stór fyrirtæki og stofnanir hafa gert samning við Strætó bs. og starfsfólk getur í krafti þeirra keypt sér árskort með talsverðum afslætti. Samningarnir eru víðtækir. Í þeim felst að fyrirtækin skuldbinda sig til að móta sér sína eigin samgöngustefnu, þar sem starfsfólkið er hvatt til að nýta sér aðra kosti en einkabílinn til að komast á milli staða.
Nýlagður göngustígur í Garðahrauni opnar leið fólks uppí Urriðaholt, þar með talið í Kauptúnið og í Heiðmörkina. Göngustígurinn er malbikaður og með lýsingu.
Skipulags- og umhverfisnefnd Grindavíkur leggur til að gerð verði verkáætlun um lagningu göngu- og hjólreiðastíga meðfram Grindavíkurveginum, að Reykjanesbraut. Vilhjálmur Árnason, formaður skipulags- og umhverfisnefndar, lagði fyrir nefndin drög og var samþykkt að leggja til við bæjarráð að gerð verði áætlun um lagningu göngu- og hjólreiðastíga. Í tillögunni felst að samráð verði haft við hagsmunaaðila innan ferðaþjónustunnar og síðan leitað samstarfs við Vegagerðina um lagningu stíganna. Nefndin leggur til að notast verði við vegstæði gamla Grindavíkurvegarins, þar sem því verður við komið.
Talning á bílum og hjólum í umferðinni í Reykjavík í haust leiddi í ljós að hlutfall þeirra sem ferðast á reiðhjólum í stað bíla hefur meira en tvöfaldast, eða farið úr 0,49% í 1,26%, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu umhverfis- og samgöngusviðs. Árið 2009 voru talin 1.432 hjól en 3.561 árið 2011.
Nokkur gatnamót í Reykjavík og víðar á höfuðborgarsvæðinu eru óhentug og varasöm fyrir hjólreiðamenn en í mörgum tilvikum væri hægt að laga þau verulega, oft með litlum tilkostnaði. Gallana í hönnun þessara gatnamóta má oftar en ekki rekja til þess að þau voru gerð fyrir bíla og að hluta til fyrir gangandi vegfarendur. Ekkert virðist hafa verið hugsað um að einhverjum kynni að detta í hug að hjóla.
Page 5 of 13