Hlutfallið er í sjálfu sér ekki hátt en hafa verður í huga að talningarstaðirnir eru einkum við umferðaræðar og bílagötur. Björg Helgadóttir, verkefnisstjóri samgönguskrifstofu á umhverfis- og samgöngusviði, segir að hjólreiðamönnum hafi augljóslega fjölgað mjög frá árinu 2009, þegar þessar talningar hófust. Alltaf er talið á sama tíma, í lok september eða byrjun október, frá kl. 7 til 19 að kvöldi.
Hlutfallið er afar misjafnt eftir götum. Við Faxagötu sem liggur að Hörpu var tiltölulega lítil bílaumferð á þessum tíma og þar voru bílarnir 231 en hjólin 182. Um Skothúsveg fóru 3.636 bílar en 203 fóru hjólandi. Neðst í Suðurhlíð fóru aðeins 222 bílar en 655 hjól.