Framkvæmdir fyrri áfanga fóru fram á síðasta ári en þá voru endurnýjaðar lagnir frá gatnamótum Höfðabakka og Strengs, í gegnum byggð á Ártúnsholtinu og að Silunga- og Urriðakvísl.
Reykjaæðar eru flutningsæðar hitaveitu frá borholum í Mosfellsbæ að hitaveitugeymum í Öskjuhlíð. Tilgangur endurnýjunarinnar er að auka rekstraröryggi hitaveitunnar. Þessar meginflutningsæðar hitaveitunnar sjá um 40% alls höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni og eru komnar til ára sinna en þær voru lagðar á árunum 1974-1985.
Eldri lagnirnar sem fjarlægja á eru stálpípur, einangraðar með steinull í steyptum stokkum. Í stað stokkanna, en eftir svipaðri leið, verða lagðar tvær foreinangraðar stálpípur og nýr göngustígur verður lagður að nokkru ofan á æðunum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í október á þessu ári. Nokkuð rask verður við þessa nauðsynlegu framkvæmd og eru íbúar beðnir um að sýna því skilning.
Þeir sem hafa hjólað hitaveitustokkinn í Ártúnsbrekkunni vita að hann er frekar brattur, mjór og ósléttur og oft klakabrynjaður að vetrarlagi. Því ætti nýr stígur um Ártúnsbrekkuna að vera fagnaðarefni fyrir þá sem hjóla þessa leið.