Sigtún 38-40 breytt deiliskipulag – athugasemdir LHM

Teikning af stíg yfir Engjateig

LHM gerði athugasemdir við við tillögur að breytingu á deiliskipulagi við Sigtún 38 og 40 vegna þess að stígurinn meðfram Kringlumýrarbraut liggur inni á deiliskipulagsreitnum fyrir þessar lóðir.

Tillagan var auglýst frá 29. maí 2015 til og með 10. júlí 2015. Lýsingin á henni var svona:

"Tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 38 og 40 við Sigtún. Í breytingunni felst m.a. að lóð nr. 38 er stækkuð og heimiluð er aukin uppbygging hótels. Lóð númer 40 er minnkuð og þar er heimiluð uppbygging íbúðarhúsa, allt að 120 íbúðir í sex byggingum, í stað gróðurskála. Skrifaðir eru nýir sérskilmálar fyrir báðar lóðirnar miðað við breytta uppbyggingu. Nánar um tillöguna vísast til kynningargagna."

Hér er uppdráttur af deiliskipulagstillögunni.

Landssamtökin einskorðuðu athugasemdir sínar við fyrirkomulag göngu- og hjólastígs sem liggur samsíða Kringlumýrarbraut fram hjá hverfinu því stígurinn er inni á deiliskipulagssvæðinu. LHM leggja til að öryggi gangandi og hjólandi verði bætt með því að laga þveranir gatna og innkeyrslna yfir stíginn.

Athugasemdir LHM eru í þessu skjali.


Með bréfi dagsettu 18. nóvember 2015 svarar Reykjavíkurborg öllum sem gerðu athugasemdir og greinir þar frá bókun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. október 2015 og afgreiðslu borgarráðs á fundi 5. nóvember 2015

Efnislega er athugasemdum svarað í umsögn skipulagsfulltrúa dagsett 15. október.

Þar eru þrjú svör við athugasemdum vegna hjólastígs og er svar við athugasemd LHM þar á meðal. Þessi svör eru hér að neðan.

í Kafla 5. Umferð

D. Ekki þykir hugað nægilega vel að þörfum hjólreiðamanna tengt inn/útkeyrslum frá Kringlumýrarbraut, bent er á að nyrðri innkeyrslan inn á lóðina Sigtún 38 sé slysagildra.

svar: Lagt er til að bæta úr þessu með því að:

  • gera upphækkanir á inn- og útkeyrsluna þannig að stígurinn sé í plani.

E. Bent er á að eðlilegt væri að Engjateigsinnkeyrslan væri aðalinnkeyrslan fyrir hótelið og hinni innkeyrslunni breytt í einstefnu (út). Þannig að þverun hjólreiðastíga sé fækkað.

svar: Þegar gegnumakstur hættir um lóð hótelsins lagast ástandið (þ.e. 800 bílar á sólarhring hverfa). Að öðru leyti er vísað til svars við liðum B og D í þessum kafla.

N. Óskað er eftir að frágangur inn- og útkeyrslu frá Kringlumýrarbraut inn á Sigtún 38 verði skoðaður með tilliti til góðra lausna og öryggis göngu- og hjólreiðamanna sem leið eiga um stíginn, bent er á að T gatnamót eins og eru við Engjateig væri lausn, einnig er bent á að reikna þurfi með afrein frá Kringlumýrarbraut inn á lóðina.

svar: Lagt er til að:

  • setja upphækkun á göngustíg meðfram Kringlumýrarbraut yfir inn- og útkeyrslu frá Kringlumýrarbraut að lóðinni Sigtún 38. Þegar gegnumakstur hættir um lóð hótelsins lagast ástandið (þ.e. 800 bílar á sólarhring hverfa).