Í greinargerðinni segir m.a.
"Forhönnun stofnstígs vestan Hafnarfjarðarvegar yfir Arnarneshæð er í samræmi við deiliskipulag Arnarness sem tók gildi í maí 2014. Þar er gert ráð fyrir stíg og hljóðvörnum milli lóða við Hegranes / Súlunes og Hafnarfjarðarvegar og að stígurinn verði lóðarmegin við hljóðvarnir. Gert er ráð fyrir að undirgöng verði byggð undir Arnarnesveg, en að tengingar stígsins með römpum við gatnamót Arnarnesvegar og Hafnarfjarðarvegar verði þannig að hægt verði að koma á samfelldri leið í plani við gatnamót, þó undirgöngin verði byggð síðar. Auk hljóðvarna vegarmegin við stíg er jafnframt gert ráð fyrir lóðargirðingum til að skerða innsýn og tryggja næði í aðliggjandi görðum. Leitast er við að stígurinn njóti skjóls og góðrar hljóðvistar eftir því sem aðstæður leyfa."
Hérna má finna greinargerðina og forhönunarteikningarnar (pdf 6,8 mb).
LHM kom á framfæri athugasemdum og ábendingum við tillögu að stofnstíg og hljóðvörnum við Hafnarfjarðarveg yfir Arnarneshæð. Landssamtökin vona að hægt verði að taka tillit til þessara athugasemda við lokahönnun stígsins og við gerð hans. LHM höfðu áður gert athugasemdir og komið með ábendingar við deiliskipulag Arnarness í bréfi dagsett 27. ágúst 2013. Enn vilja Landssamtökin minna á leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól, sem Efla verkfræðistofa vann fyrir Reykjavíkurborg en það eru bestu leiðbeiningar á íslensku, sem eru til um hönnun fyrir reiðhjól. Jafnframt vilja samtökin minna á veghönnunarreglur Vegagerðarinnar sem fjalla m.a. um gerð stíga fyrir gangandi og hjólandi. Ennfremur minna samtökin á reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995.
Athugasemdir LHM eru í þessu skjali.