Ályktun stjórnar LHM um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2015-2020

Ályktun stjórnar LHM um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015- 2020 - Reykjavík 10. ágúst 2015

Beinist til Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar:  Sent til: Kristinn Jón Eysteinsson <This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.>

Í hjólreiðaáætlunin er talað um skipun starfshóp og helstu verkefnin skv. erindisbréfi tilgreind.

  • 1.      Aðstæður til hjólreiða, kortlagning aðstöðu í og við skólabyggingur og úrbótatillögur.
  • 2.      Kynningarátak
  • 3.      Fjölgun hjólastæða, hjólamerkinga og skiltun
  • 4.      Staða í stjórnkerfi
  • 5.      Samvinna við atvinnulífið
  • 6.      Mælanleg markmið

Það er vel að áætlunin sé endurskoðuð og þetta er góð áætlun sem stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna tekur heils hugar undir. Lítið er þó fjallað um stöðu hjólreiða í stjórnkerfinu, ekkert er fjallað um hjólreiðar barna á skólatíma (t.d. í sund) og ekkert er fjallað um hjólreiðaferðamennsku.

Það vantar að gefa hjólreiðum aukið vægi í stjórnkerfi borgarinnar með því að þar sé sérstakt embætti með nauðsynlegt vægi til að vera leiðandi í málefnum hjólandi umferðar. Slíkt þekkist í nágrannalöndum og víðar s.s. Portland og New York.

Hér koma okkar athugasemdir.„rauður  skáletraður texti er úr hjólreiðaáætluninni“

 

Kafli um markmið:

„meginmarkmið Hjólreiðaáætlunar 2015-2020 [er] að auka hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í borginni.“

Ferðavenjukannanir sem eru gerðar í miðjum haustlægðum í október og nóvember gefa ekki endilega rétta sýn á hlutdeild hjólreiða yfir árið og það væri æskilegt að bæta aðferðirnar. Að fjölga könnunum og dreifa þeim betur yfir árið, gæfi haldbærari upplýsingar. Markið um hlutdeild ætti að setja mun hærra en gert er í Aðalskipulagi (sem miðar þá væntanlega við þennan gallaða mælikvarða) og miða frekar við það sem best gerist í svipuðum borgum í nágrannalöndum.

„Hjólreiðakerfið skal vera byggt upp af vönduðum og fjölbreyttum lausnum sem henta við ólíkar aðstæður“

Betra væri að segja

Hjólreiðakerfið skal byggt upp af vönduðum lausnum sem taka mið af bestu fáanlegu þekkingu og miða að fjölbreytileika fólks sem hjóla og tilgangi hjólreiða.

Því ber að fagna að áfram verði unnið eftir hönnunarleiðbeiningum Reykjavíkurborgar.  Stjórn LHM telur að full þörf sé  á því að yfirfara núverandi stíga með hliðsjón af þeim og laga þá þannig að þeir standist þær lágmarkskröfur sem þar eru settar fram.

Einnig þarf átak í að hreinsa upp leifarnar af hinum svokölluðu 1+2 merkingum en þær eru  slysagildrur. Þar er skilið á milli gangandi og hjólandi með óbrotinni línu þar sem hjólandi umferð í báðar áttir er ætlað að deila rými sem dugar varla fyrir aðra áttina.

Áhyggjur vekja ummæli sem höfð voru eftir Hjálmari Sveinssyni á mbl.is 4. ágúst 2015 og virðast geta boðið endurvakningu þessa vonda fyrirbæris: 

„Fótgangandi og hjólandi fólk á alveg að geta deilt sama stíg, sem aðskilinn er með áberandi línu, ef farið er varlega,“ sagði Hjálmar.

Enn fremur er þörf á átaki við að lagfæra sjálfvirknibúnað í umferðarstýringum þannig að hann þjóni þeim fjölbreyttu farartækjum sem nota götur borgarinnar. Það er löngu þekkt að skynjarar við umferðarstýrð ljós skynja víðast ekkert nema bifreiðar og hjólandi er ekki boðinn neinn annar valkostur en að fara yfir á rauðu.

Sumstaðar er þetta viðurkennt vandamál eins og í Idaho þar sem umferðarreglur leyfa hjólandi að fara yfir á rauðu ljósi meti hjólandi vegfarandi það öruggt og ekki til óþæginda fyrir aðra og París er að prófa sig áfram með svipað á völdum stöðum. Hér er regluverkið annað og klárlega brotið á rétti hjólandi með núverandi fyrirkomulagi og úrbóta þörf áður en fleiri ákveða að hunsa reglur sem ekki virðist hægt að fylgja. Ef þetta skyldi þykja of stór og þung verkefni, þá væri eitt skref í áttina að funda um málið, búa til yfirlit umferðarstýringa og setja upp lítil upplýsingaskilti eða merkingar á malbikið sem sýna hvar stýringarnar eru.

Mikið hefur breyst frá því hjólreiðar voru leyfðar á gangstéttum, stærri og hraðskreiðari vélknúin tæki eru komin til sögunnar og fara illa saman með gangandi umferð á öllum gangstéttum. Það mætti skoða að í stað þess að setja þau undir þau ákvæði sem annars gilda um reiðhjól væru þau í sér flokki. Þeim væri líkt og reiðhjólum aðallega ætlað að ferðast um á akbrautum en leyft að nota stærri stíga meðfram þungu umferðargötunum þar sem hönnun þeirra bíður upp á það með tilliti til hraða þessara farartækja og væru þeir stígar þá sérstaklega merktir með skiltum. Klárlega eiga þessi farartæki ekki heima á öllum gangstéttum s.s. þröngum gangstéttum eldri hverfa. 

„Ásamt því verður farið í fjölbreyttar aðgerðir aðrar en framkvæmdir sem kalla má mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla.“

Það mun vera mörgum óljóst hvaða skilning ber að leggja í mjúkar, þó það komi fram í samhenginu. Kannski er til betra orð.  En það væri hvort sem er mikilvægt að setja strax fram nokkur dæmi, eða vísa í aðgerðir „III  -Auknar hjólreiðar barna og unglinga“  og „IV - Fjölgun þeirra sem hjóla til vinnu“..

Það má benda á kennslu í Hjólafærni (Bikability) sem álitlegan kost líkt og gert er í Bretlandi og víðar. Bæði til ákveðinna árganga í skólum og regluleg opin námskeið fyrir fullorðna sem vilja læra hvernig best er að bera sig að og öðlast það sjálfsöryggi í umferðinni til að það nái að tileinka sér þennan fararmáta.

„3-5% af árlegu fjármagni Reykjavíkurborgar til eflingar hjólreiða verði varið í þessar mjúku aðgerðir.“

Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé nægilegt fjármagn til að standa fyrir kynningarátaki, efla samvinnu við atvinnulífið, standa fyrir fræðslustarfsemi, t.d. opin námskeið í Hjólafærni og e.t.v. stofna embætti umboðsmanns virkra samgangna í ljósi þess mikla sparnaðar sem hver sem gengur eða hjólar hefur fyrir samfélagið.

Það má líka gefa ljós, bjöllur, endurskin á ökkla, gefa út leiðbeiningar, fræðsluefni, birta auglýsingar o.fl.ofl.

Af þessu má líka skilja að 95-97% af öllu fjármagni fari í framkvæmdir. Kostnaður við framkvæmdir sem eru blandaðar, þ.e. þar sem gatan, stokkar og lagnir sem henni tengjast eru endurnýjaðir auk lagningar hjólreiðastíga má ekki skrifast alfarið sem hjólreiðaframkvæmdir! Það er þó vissulega fagnaðarefni að hjólreiðastígar séu lagðir samfara endurnýju stokka og lagna.

„Hlutfall hjólaleiða af heildar stígakefinu sem eru aðgreindar frá bílum og gangandi verði 6% árið 2017 og 8% árið 2020.“

Það eru margar leiðir til að fjölga þeim sem hjóla til samgangna. Það er hægt að fjölga hjólreiðamönnum með lækkuðum umferðarhraða (t.d. með þrengingum), göngugötum og samrými (e. shared space) en slíkar aðgerðir væru þvert gegn þessu markmiði.  Aðskilnaður er góð leið til að auka öryggistilfinningu hjólreiðamanna einkum yngri hjólreiðamanna, fólks í eldra kantinum og kvenna. Það er þó ekki víst að hann sé alltaf besta lausnin t.d. þar sem um margar þveranir er að ræða. Aðskilnaður getur verið leið að markmiði en þarf ekki endilega að vera markmið í sjálfu sér.

„hjólastæði við alla grunnskóla fyrir 20% af nemendum og starfsfólki“.

Það er frábært að fjölga hjólreiðastæðum og  gott ef  helmingur þeirra verði yfirbyggður. Stæðin þurfa að vera stellvæn. Þá eiga stæðin að vera  örugg, þ.e. að þau séu falin þannig að þjófar og skemmdarvargar geta stundað sína iðju í friði. Það væri einnig athugandi að hafa eftirlitsmyndavélar á stærri hjólreiðastæðum til að koma í veg fyrir stuld og skemmdarverk.

Kannski er rétt að meta þörfina fyrir hjólreiðastæði á hverjum skóla fyrir sig og ætla mætti að þörf væri á fleiri stæðum í gagnfræðiskólum eins og Hagaskóla, Laugalækjarskóla og Réttarholtsskóla eða í miðbæjarskólum eins og Austurbæjarskóla.

Minnum á leiðbeiningar borgarinnar um hjólastæði sem voru í fyrstu hjólreiðaáætluninni. Þær eru í ágæti samræmi við á þessa staðla frá Sustrans á Bretlandi um hvernig hjólreiðastæði eigi að vera :

http://www.tfw.org.uk/documents/SustransCycleparkingsheetFF37_000.pdf

 

Framkvæmdir og aðgerðir 2015 - 2020

Við fögnum þeirri uppbyggingu sem áætluð er og erum boðin og búin til að veita umsögn við einstaka framkvæmdir. E.t.v. ætti framkvæmdaáætlunin að vera sjálfstæð áætlun og að hún væri endurskoðuð á tveggja ára fresti enda hröð þróun í öllu sem nú tengist hjólreiðum og öðrum vistvænum samgöngum. Þar má einkum horfa til aukinnar notkunar rafmagnshjóla og hugsanleg aukning í rafmagnsvespum.

Rétt væri að halda opna kynningarfundi um einstaka framkvæmdir og gefa sem flestum færi á að tjá sig um þær.

Við teljum mikla þörf á betri þverunum við stór gatnamót. Þar eru hlykkjur, lengri bið til að komast yfir en fyrir bílaumferðina, og stundum þvottabretti, sökum þess að malbíkið og undirlagið sé of deigt undir bílunum.

Við gefum okkur betri tíma til að rýna í fyrirhugaðar framkvæmdir en möguleg önnur verkefni væru:

·         sérstakar þveranir fyrir hjól meðfram Miklubraut yfir Kringlumýrarbraut og Lönguhlíð og meðfram Kringlumýrarbraut yfir Miklubraut

·         hjólastígur meðfram Suðurlandsbraut frá Engjavegi að Langholtsvegi

·         betri tenging stígs (brú/undirgöng/hjólaljós) meðfram Bústaðavegi yfir Hringbraut/Miklubraut við stíg á Snorrabraut og/eða við Rauðarárstíg

 

"Lögð verður sérstök áhersla á góðar og betrumbættar þveranir hjólaleiða yfir gatnamót. Í því tilliti verður gerð greining á mögulegum valkostum þverana, þ.e. undirgöng, brú eða í plani, meðal annars m.t.t. öryggistilfinningar notenda á stígum. Greiningin tengist markmiðinu um aukna öryggistilfinningu og jákvætt viðhorf fólks til hjólreiða"

Við viljum gjarna hafa tækifæri til að koma með athugasemdir þegar þessi greining verður gerð.

 

Auknar hjólreiðar barna og unglinga

Það virðist oft undir skólastjórnendum sjálfum háð hvort stefnt sé að auknum hjólreiðum. Hjólreiðar (yngri barna) eru bannaðar á skólalóðinni og ákveðin hræðsluvæðing virðist vera í gangi um að hjólreiðar sé hættulegar. Yngstu börnunum er ekki leyft að hjóla á frístundaheimili. Stórum fjárhæðum kann að vera eytt í skólaakstur t.d. í sund og menningarferðir sem væri nánast örugglega betur varið í eflingu hjólreiða.

Það er lykilatriði að foreldrar taka þátt í þessari vinnu.

 

Fjölgun þeirra sem hjóla til vinnu

LHM og sérstaklega aðildarfélag þess Hjólafærni fagna því að leitað verði samstarfs við ASÍ, þar sem Hjólafærni hafa líka séð að ASÍ ætti að vera ákjósanlegur samstarfsaðili. Festa vinnur nú þegar með framsækin fyrirtæki frá stjórnunarhliðinu og virðist ná góðri tengingu.

Ofar í skjalinu er sett fram : "Mikilvægt er að skapa hjólreiðum þannig umhverfi að allir telji ákjósanlegt að fara ferða sinna hjólandi, óháð kyni og aldri."   LHM tekur heilshugar undir þetta og telur jafnframt að rétt sé að leggja áherslu á mannvirki og hvatningu sem getur gert það að verki að fleiri og fjölbreyttari hópar sjá hjólreiðar til samgangna sem valkost. En það heyrast til dæmis raddir um að hjólareinar sem hluti af akbraut, frekar en stígar við hliðina á gangstétt væri æskilegt. Við gerð nýja hjólreiðaáætluninnar og þegar er unnið eftir henni ber að hafa líka í huga þann stækkandi hóp sem vill og getur hjólað hratt og höndlar samvistina við bílaumferð ágætlega, nema þar sem umferð og hraði er mjög mikill. Menn kunna að halda að  MAMIL (Middle-aged men in Lycra) passa bara við lýsinguna en þetta er stærri hópur en svo. Hópurinn kann einnig að vera þeir sem hjóla hratt í vinnuna en hjóla hægt til baka og vilja góða, græna upplifun. Þetta gætu líka verði þeir sem sækja barn í leikskóla eða vilja hjóla í góðum félagsskap. Hver einstaklingur getur verið margari „týpur“ sama daginn.
Það mætti leita til LHM og e.t.v. keppnisfélaganna um hvar skóinn kreppir hvað mest fyrir þá sem hjóla hratt. Hvað þarf til að æfingar geti færst af stígum með blindhornum og mörgum gangandi og/eða hægfara hjólreiðamönnumi. Kannski er endurnýjun malbiks efst á Rafstöðvarvegi meðal þess sem gæti hentað slíkum hópi. Stígurinn sem þar kemur mun ekki nýtast þeim sem eru vanir að bruna niður veginn.

 

Litaðar lykilleiðir og merkingar við hnútpunkta

Þar sem formaður LHM er aðili að þessari vinnu í gegnum starf sitt hjá Vegagerðinni verða ekki gerðar athugasemdir í þessari umsögn. Það er gott að þessi vinna er komin í gang.

 

Hjólreiðar og almenningssamgöngur

Hjólreiðamenn ættu að geta fengið að samnýta sumar sérreinar almenningssamgangna. Yfirbyggð hjólreiðastæði munu fjölga þeim sem samtvinna hjólreiðar og almenningssamgöngur. Hjólaleigur munu einnig gera það. 

Það er ekki nóg að huga að samvinnu hjólreiða og almenningsamgangna. Það þarf að ákveða hvernig eigi að gera það og hver eigi að gera það.

 

Viðhald og vetrarþjónusta

„Gerð verði úttekt á ástandi hjólaleiða til að meta þörf á viðhaldi.“

Mætti vera:

Gerð verði úttekt á ástandi hjólaleiða með hliðsjón af hönnunarleiðbeiningum Reykjavíkurborgar til að meta þörf á viðhaldi.“

Í þessari úttekt mætti meta núverandi hjólaleiðir með tilliti til hönnunarleiðbeininganna og bæta leiðir þannig að þær standist þau viðmið sem þar eru sett fram.

Það þarf að hreinsa stíga árið um kring. Ekki dugar að sópa sandinn einu sinni á vorin heldur í hvert skipti sem snjóa léttir því þá verður sandurinn að slysagildrum.

Það væri athugandi að innleiða færðarskráningu stofnstíga.

Rétt væri að búa til viðhaldsáætlun t.d. varðandi holótta stíga og þar sem djúp hjólför myndast þvert á hjólaleiðir.

 

Samstarf um lög og reglugerðir

Þær reglur og umferðarstýringar sem setja þarf hættulegum ökutækjum líkt og bifreiðum til að halda í skefjum og lágmarka þann gríðarlega skaða sem umferð þeirra fylgir, í slysum og eignatjóni ár hvert, þurfa ekki endilega að vera nákvæmlega þær sömu fyrir t.d. reiðhjól. Fleiri dæmi má nefna eins og borgir þar sem almennt má hjóla á í báðar áttir þó einstefna sé á akstri bifreiða, regla sem hefur gefist vel þar sem hún hefur verið prófuð.

 

Hjólaleigur

Á Íslandi er rafmagn ódýrt og því líklegt að hér gæti byggst upp rafmagnshjólaleiga sem yrði einstök á veraldarvísu. Hér mætti e.t.v. kalla eftir samvinnu við Háskólasamfélagið, Verkfræðingafélagið, ON og okkur í stjórn LHM.

 

Vinnustaðurinn Reykjavíkurborg

Frábært en það vantar samt markmið um fjölda þeirra sem ættu að nýta sér slíkan styrk.

 

Kafli sem vantar : Samstarf

LHM hefur mikinn hug á að fjölga þeim sem hjóla til vinnu, í ræktina, í búðina, til frístunda, til ferðalaga og jafnvel til keppni. Í störfum okkar höfum við lagt margt til málanna, rekum myndarlegar heimasíður, gefum út bæklinga, stöndum fyrir ráðstefnum og sækjum þær sjálf. Þetta er allt meira og minna gert í sjálfboðaliðavinnu og við myndum fagna því að geta ráðið starfsmann til að sinna þessari vinnu að einhverju leyti.  Velvilji og fjármögnun Reykjavíkurborgar, Ferðamálastofu (m.a. í tengslum við hjólreiðaferðamennsku), hjólreiðaklasans á Íslandi og félagsmanna aðildarsamtaka LHM  gæti hér skipt sköpum. Þegar fyrrverandi umhverfisborgarstjóri Kaupmannhafnar heimsótti borgarstjóra Reykjavíkur, Dag B. Eggertsson í Evrópskri samgönguvikunni haustið 2014, var eitt af áhersluatriðum hjá honum auk þess að bæta vegvísun með skiltum að efla samstarfið við Landssamtök hjólreiðamann og aðildarfélög þess. Ein leið væri að bjóða hjólreiðasamtökunum að sinna borgandi verkefnum og þar væri æskilegt að einnig kæmi til framlag frá ríkisvaldi. Með þessum hætti hefur Landvernd fengið verkefni s.s. utanumhald um Grænfána-, og Bláfánaverkefnin.

Undir „Aðgerð IX: Samstarf um lög og reglugerðir“  væri ekki úr vegi að skuldbinda sig til samstarfs við hagsmuna- og þekkingaraðila, eins og LHM og helstu sérfræðinga eins og þá sem borgin hefur leitað til hjá verkfræðistofum/ráðgjafafyritækjum.  Við hjá LHM teljum líka að við höfum eitthvað til brunns að bera varðandi hjólaleigurnar (eins og sagði ofar), aðgerðum III, IV og fleiru.

Af öðrum sem væri hugsanlegt að stofna til samstarfs við má nefna Krabbameinsfélagið, Hjartavernd, Landlækni, stærri og minni búðir (sem vanta stæði), hjólreiðaverslanir, Ferðamálastofu, Farfugla (sem fá mikið af hjólandi gestum), Innanríkisráðuneytið, Samgöngustofu, Vegagerðina og erlendar vinaborgir og samtök eins og European Cyclists‘ Federation og Now We Move.

 

Kafli sem vantar : Fræðsla um bæði aðalskipulag, svæðisskipulag og hjólreiðaáætlun

Það hefur borið á því að mótstaða gegn þeim breytingum sem til stendur að fara í komi fram í blöðum, af hálfu hagsmunaaðila, frjálsra félagasamtaka, stjórnmálamanna og einstaklinga. Oft er vitnað í rök sem eru byggð á misskilningi.  Á meðan ekki er hægt að ná til allra, er það von okkar að borgin setji sér sem markmið að svara enn betur, og skipuleggja sig fyrir fram, en ekki láta gagnrýni koma fólki sem er til svara á óvart. Samskiptaáætlun gæti verið lausn á því!

Virðingarfyllst,
fyrir hönd stjórnar LHM

Ásbjörn Ólafsson – formaður LHM

Árni Davíðsson – formaður umsagnarnefndar

Morten Lange – varamaður í stjórn

Páll Guðjónsson – ritstjóri og vefstjóri