Bréf út af lagningu bíla á hjólastígum

Á samfélagsmiðlum hefur verið nokkur umræða um það að bílum sé lagt á nýjum hjólastígum sem liggja meðfram götum en þessi ósíður hindrar umferð hjólandi og gangandi um stíga og gangstéttir.

Þetta hefur verið sérstaklega áberandi vandamál á Hverfisgötu en í minna mæli við Borgartún. Umræðan hefur verið mest á Facebook í hópunum Samgönguhjólreiðar og Samtök um bíllausan lífsstíl. Í ummælum þar hefur komið fram óvissa um hvernig Bílastæðasjóður og Lögreglan taki á þessum málum.

Af þessu tilefni sendi LHM bréf á Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og á bréf á Bílastæðasjóð og óskaði eftir svörum um það hvernig tekið væri á bílum sem lagt væri ólöglega á hjólastígum.

Svörin eru nú komin í  bréfi Lögreglunnar og bréfi Bílastæðasjóðs. Skemmst er frá því að segja að báðir aðilar segja að þetta sé ólöglegt og að þeir leggi stöðubrotsgjald (það sem almennt er kallað stöðumælasekt) á þá bíla sem er lagt upp á hjólastíginn á Hverfisgötu.

Lögreglan bendir líka á í sínu svari að það vanti umferðarmerki við hjólastíginn á Hverfisgötunni, sem sýni að um hjólastíg sé að ræða. Það er þá væntanlega átt við að vanti boðmerkið fyrir reiðhjól C13.11. Þangað til úr verður bætt  hefur lögreglan reynt að skilgreina þetta sem gangstétt og hefur lagt stöðubrotsgjald á þær bifreiðir, sem þeir hafa séð lagt upp á "gangstéttir" við Hverfisgötu. Stígurinn við Borgartún sé merktur með umferðarmerkjum sem slíkur.

Það er mat Bílastæðasjóðs að ekki þurfi frekari umferðarmerki við Hverfisgötu, að þau séu til staðar.

Næst þegar menn verða varir við bíl á hjólastíg er rétt að koma ábendingu á Bílastæðasjóð eða Lögregluna.