Lagning stígsins var kynnt í fundargerð bæjarráðs Seltjarnarness 21. ágúst 2015. Þar segir:
Málsnúmer 2015060187.
Hjólastígar.
Bæjarstjóri kynnti tillögur af tvöföldun hjólastíga frá Norðurströnd að Suðurströnd.Lagt er til að farið verði í undirbúning á 1. áfanga Norðurströnd að Snoppu, bæjarstjóra falið að vinna áfram með málið og kynna á næsta fundi kostnaðaráætlun.
LHM óskaði í framhaldinu eftir því að fá að gera athugasemdir við stiginn.
Teikning af stígnum er hér í heild á loftmynd og hlutateikningar eru á mynd 1, mynd 2, mynd 3, mynd 4 og mynd 5.
Athugasemdir LHM eru settar fram í þessu skjali.
Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi LHM 8. október s.l.
Almennt séð eru Landssamtökin mjög ánægð með þessa framkvæmd. Umferð gangandi og hjólandi fyrir Seltjarnarnes er orðin mikil og er á sumum tímum þétt umferð. Líklegt er að umferð sé komin upp fyrir þau mörk að kalli á aðskilinn hjólastíg eftir þessari leið, samanber leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól, sem Efla verkfræðistofa vann fyrir Reykjavíkurborg . Núverandi stígur er líka of mjór. Þessi leið er líka mjög vinsæl meðal þeirra sem nota reiðhjólið til æfinga og þar sem þeir fara gjarnan um í hóp er þörfin enn brýnni.
Lega stígsins meðfram Norðurströnd að Gróttu er í öllum megindráttum góð og er ekki gerð athugasemd við hana. Af uppdrætti virðist mega ætlar að þetta verði tvístefnustígur og að hann verði merktur með brotinni miðlínu. Athugasemdirnar snúa fyrst og fremst að smáatriðum í útfærslu og settir eru fram punktar til áminningar við nánari útfærslu og við lagningu stígsins.
Tækifærið var líka notað til að koma á framfæri ýmsum öðrum athugasemdum. Þar má nefna stíg meðfram Suðurströnd, stíg meðfram Nesvegi, stíg eftir miðju Seltjarnarnesi frá miðsvæði við Eiðistorg og vesturúrog og útkeyrslu úr bílakjallara frá Hrólfskálamel.