Brýrnar og stígarnir eru rétt við Rafveituhúsið og fyrir ofan Toppstöðina og tengjast stígakerfinu í Elliðaárdalnum og Fossvogi. Brúin yfir eystri ána er 23 metra stálbrú en brúin yfir vesturána er 12 metra trébrú. Stígarnir eru 350 metra langir og aðskildir fyrir umferð gangandi vegfarenda og hjólandi. Lýsing á stígunum verður LED með hreyfiskynjurum til að valda sem minnstri ljósmengun.
Landslag ehf hannaði legu stígs og staðsetningu brúa og annaðist landslagshönnun. VSÓ sá um verkfræðihönnun og hönnun brúnna.
Verktaki sem sá um framkvæmdir var Gleipnir ehf. Kostnaður við þessi mannvirki er á bilinu 80 – 85 milljónir.
Við brúna yfir vestari ána hjá undirgöngunum undir Reykjanesbraut við Blesugróf hefur verið komið upp viðgerðastandi fyrir hjól þar sem hjólreiðamenn geta m.a. pumpað í dekk og lagfært fáka sína. Það er fyrirtækið Fossberg sem hefur sett um tvo slíka standa í tilraunaskyni og mun þjónusta þá í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Hinn viðgerðastandurinn er við hjólastíginn í Nauthólsvík.
Allt er þetta gert til að þjónusta hjólreiðafólk vel og gera stíga borgarinnar öruggari fyrir gangandi og hjólandi samkvæmt stefnu Aðalskipulags 2010 – 2030 og hjólreiðaáætlunar borgarinnar 2015 – 2020. Hér er Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015 - 2020.
Hjólað yfir brúna eftir að klippt var á borðann.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri prófaði að pumpa í dekkin á nýjum viðgerðastandi sem er hjá undirgöngum undir Reykjanesbraut við brúna yfir vestari ána.