Grensásvegur sunnan Miklubrautar, þ.e. á milli Bústaðavegar og Miklubrautar, er fjórar akreinar fyrir bíla, þ.e. tvær akreinar í hvora átt. Samþykkt hefur verið að þeim verði fækkað í eina akrein í hvora átt. Markmiðið með breytingunum er að draga úr umferðarhraða og gera götuna að aðlaðandi borgargötu með nægu rými fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í samræmi við áherslur Aðalskipulags Reykjavíkur 2010 – 2030 og Hjólreiðaáætlunar.
Eftirfarandi breytingar eru fyrirhugaðar á Grensásvegi og verður hafist handa við framkvæmdirnar að útboði loknu.
- Í stað akreina sem hverfa verður gerður tveggja metra breiður hjólastígur beggja vegna á milli götu og gangstéttar. Gangstétt austan megin götunnar verður 2.1-2.4 m breið en gangstétt vestan megin götunnar verður 2,5 m að breidd. Á milli gangstéttar og hjólastígs verður hellulögð 0.5 m breið ræma. Hellulagða ræman og hjóla- og göngustígurinn eru samtals 4.6 til 4.9 m að austanverðu en 5.0 m að vestanverðu.
- Umferðarljós sem eru á gatnamótum við Hæðargarð verða þar áfram og einnig gangbrautarljós sem eru við Breiðagerði en stjórnbúnaður þeirra verður endurnýjaður.
- Ný gangbrautarljós verða sett norðan við Heiðargerði
- Biðstöðvar strætó eru á þremur stöðum, þ.e. þrjár hvoru megin götunnar. Gert er ráð fyrir að biðstöð strætó rjúfi hjólastíginn þannig að strætó leggi að gangstétt. Þetta er gert með tilliti til aksturs neyðarbíla en hætta er talinn á of mikilli töf þeirra ef vagn stoppar í götunni. Það fyrirkomulag má endurskoða þegar bráðamóttaka flyst frá Borgarspítala í Landspítala við Hringbraut.
- Sex til sjö sentimetra hæðarmunur verður á milli götu og hjólastígs þannig að almenn umferð geti auðveldlega vikið upp á hjólastíginn ef neyðarbíll er á ferð.
- Gangstéttar sem eru ónýtar verða endurnýjaðar.
- Götulýsing verður endurnýjuð. Núverandi ljósastaurar í gangstétt verða fjarlægðir og nýjum lægri ljósastaurum, 6.3 m háum, verður komið fyrir í hellulagðri ræmu á milli hjólastígs og gangstéttar beggja vegna götunnar.
- Framhjáakstur á umferðarljósum við gatnamót Grensásvegar og Bústaðavegar verður aflagður til að tryggja sem best öryggi hjólreiðamanna.
- Gróður verður í miðeyjunni á stöðum sem ekki er hætta á að vegfarendum verði byrgð sýn.
Á fjölmennum íbúafundi sem haldinn var í Breiðagerðisskóla í mars í fyrra lýstu formenn íbúasamtaka og hverfisráðs því yfir að breytingarnar væru æskilegar og í samræmi við óskir meirhluta íbúa.
Útboðið verður auglýst á næstunni og munu framkvæmdir hefjast í mars ef tíðarfar leyfir.
Hér má nálgast lýsingu á framkvæmdinni eins og hún var kynnt á íbúafundinum.
Mynd af Grensásvegi við Heiðagerði fyrir endurnýjun.
Mynd af Grensásvegi við Heiðagerði eftir endurnýjun.