Brú yfir Fossvog góð samgöngubót

Ný brú yfir Fossvog yrði góð samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Aðeins tæki fimm mínútur að ganga yfir brúna en núna leggja vegfarendur lykkju á leið sína fyrir Fossvoginn en umferð gangandi og hjólandi vegfarenda um botn Fossvogs er um 500 til 1000 á dag og fer vaxandi.

Í greinargerð starfshóps Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um brú yfir Fossvog er mælt með því að brúin verði byggð frá vesturhluta Kársness til móts við flaugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar. Þar eru 340 metrar á milli bakka. Sú leið er líklegust þeirra kosta sem skoðaðir voru til að hafa minnst áhrif á lífríki í Fossvogi og raskar ekki friðlýstu svæði við Fossvogsbakka í Reykjavík. Þá tengist hún betur stofnstígakerfi sveitarfélaganna.

Greinargerðin var til umfjöllunar í bæjarráði og borgarráði fyrir hádegi í dag en bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, og borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, hafa báðir verið talsmenn þess að kostir við byggingu brúarinnar verði kannaðir til hlítar.

Í greinargerðinni er farið yfir mögulega staðsetningu brúarinnar, kostnað, byggingartíma og áhrif hennar á siglingafélög í Fossvogi, umhverfið og fleira. Fjallað er um kosti þess að hafa brúna eingöngu fyrir gangandi og hjólandi umferð eða að leyfa jafnframt akstur strætisvagna yfir brúna. Þá eru skoðaðir möguleikar á því að hafa brúna opnanlega snúningsbrú með 20 metra breiðu siglingaopi.

Áætlaður kostnaður við gerð 270 metra göngu- og hjólabrúar er 950 milljónir króna. Ef strætisvagnar eiga að geta ekið yfir brúna er kostnaður við brúna áætlaður1,250 milljónir króna. Ódýrasti möguleikinn, 100 metra göngu- og hjólabrú, er metinn á 640 milljónir króna. Sá möguleiki að geta opnað brúna fyrir bátaumferð  kostar 150 milljónir króna til viðbótar.

Gert er ráð fyrir að bygging brúarinnar taki um það bil eitt ár. Annar undirbúningur, svo sem umhverfismat og skipulagsvinna, gæti tekið um eitt til tvö ár til viðbótar.

Nú stendur yfir vinna við gerð aðalskipulags í Kópavogi og í Reykjavík og verður þessi hugmynd lögð inn í þá vinnu, en ekki er gert ráð fyrir brú á þessum stað í eldra aðalskipulagi.

Í greinargerð starfshópsins segir að brúin yrði mikil samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega mun hún þó bæta samgöngur fyrir íbúa Kársness. Hún félli vel að þeim markmiðum Kópavogs og Reykjavíkur að stuðla að vistvænum samgöngum og breyttum ferðavenjum. Talning sem Reykjavíkurborg og Kópavogsbær létu gera á umferð hjólandi og gangandi vegfarenda við botn Fossvogs árið 2011 gefur til kynna að um 500 til 1000 manns séu á ferðinni þar á degi hverjum. Um fimm til sjö mínútur tæki að ganga yfir brúna.

Sjá greinargerð starfshóps (PDF 15MB)

Uppruni texta: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-35218

Myndir eru úr greinargerðinni

fossvogsbru2

fossvogsbru4

fossvogsbru1

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.