Hugmynd um hjólastíg umhverfis Mývatn er ekki ný og þó hún hljómi sem nokkuð einföld er nauðsynlegt að tengja saman marga aðila til að halda velvilja og fá nauðsynleg leyfi til verkefnisins. Tekin var saman listi yfir hagsmunaaðila og hlutverk þeirra skilgreint. Í samráði við helstu hagsmunaaðila var einnig skilgreint hverju beri að vinna að í tengslum við áframhaldandi skipulag og framkvæmd hjólastígs.
Tillagan gerir ráð fyrir að þar sem aðstæður leyfa verði hjólaleiðin á sérstökum hjólastíg, sem er aðskilinn frá þjóðvegi. Samkvæmt skilgreiningu í skipulagsviðmiðum á yfirborð hjólastígs að vera slétt, greiðfært og án hindrana. Frá hjólastíg á sjónlína að vora opin og mikilvægt er að vanda frágang við allar þveranir yfir þjóðveg. Þar sem þess er kostur og ef það rýrir ekki upplifun eða veldur slysahættu er gert ráð fyrir að lega hjólaleiðar fylgi núverandi slóðum og stígum s.s. á milli Skútustaða og Garðs. Á hringleiðinni eru einnig víða smá bútar þar sem reiknað er með að hægt verði að nota gamla vegstæðið.
Með verkefninu hefur Skútustaðahreppur fengið leiðbeiningar um hvernig skipulag hjólastígs geti verið háttað við Mývatn. Aðstæður eru frábærar, vegalengdir eru viðráðanlegar og náttúran fjölbreytt og eftirsóknarverð. Tillagan hefur verið færð inn í aðalskipulagstillögu Skútustaðahrepps og verður kynnt og rædd þar í athugasemdaferli.
Gera má ráð fyrir að þeim verkefnum fari fjölgandi sem Vegagerð og sveitarfélög þurfa að sinna varðandi uppbyggingu öruggra og greiðra leiða fyrir hjólreiðafólk. Það módel og sú hugmyndavinna sem er sett saman í þessu verkefni á að geta nýst í skipulagi hjólastíga í dreifbýli fyrir fleiri sveitarfélög.
Árangur af góðum hjólaleiðum verður að meta í ánægju þeirra sem um þá ferðast og hvernig hjólreiðamaðurinn upplifir öryggi.
Verkefni um hjólaleiðir í Mývatnssveit er styrkt af Ferðamálastofu og er samstarfsverkefni VSÓ Ráðgjafar, Skútustaðahrepps og Vegagerðarinnar.
Hjólastígur umhverfis Mývatn, tillaga og hagsmunir - Skýrsla
Uppruni: VSÓ Ráðgjöf vso.is/frettir/Frettir-2011/2011-12-15-Hjolastigar.html