Deiliskipulag fyrir stíg á Bæjarhrauni - Athugasemdir LHM

Núna í vor auglýsti Hafnarfjörður tillögu að deiliskipulagi fyrir hjólastíg á Bæjarhrauni í samræmi við 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

LHM gerði athugasemdir við deiliskipulagið og benti á mögulegar tengingar við þennan nýja stíg.

Í athugasemdum LHM var vísað í leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól sem Efla verkfræðistofa gaf út og eins veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Samtökin minntu á reglur um umferðarmerki. Lagst var alfarið gegn því að merktur væri sérstígur fyrir hjólandi á göngustíg sem ekki uppfyllir kröfur hönnunarleiðbeininga.

Landssamtökin lögðu til að legu stígsins verði breytt í deiliskipulaginu á þann hátt að hann liggi í beinu framhaldi, án hlykkja, yfir Hólshraun og gatnamótin verði útfærð í samræmi við það. Einnig að gatnamótunum (hringtorg) við Bæjarhraun, Fjarðarhraun og Flatahraun verði breytt á þann hátt að 5 armurinn verði tekin af og í stað þess verði ekið inn í Bæjarhraun frá Flatahrauni með T-gatnamótum. Þverunin verði útfærð með ljósastýringu eða á upphækkun með gangbraut. Bent var á að m.t.t. öryggis væri almennt talið betra að hafa einstefnu hjólastígs í aksturstefnu umferðar á vegi sitt hvoru megin götu, spurt var hvort að það hafi komið til greina að skoða þá lausn. Æskilegt væri að hafa 30 km/klst ökuhraða. á Bæjarhrauni. Huga þarf vel að þverunum og þarf sýn milli stígs og gatna á gatnamótum að vera fullnægjandi og ekki má skerða sýn með gróðri eða skiltum. Einnig kemur fram að huga þurfi betur að tengingu við Kaplahrauni til suðurs og einnig að gera ætti ráð fyrir nýjum aðalstíg frá Kaplakrika meðfram Reykjanesbraut að bæjarmörkum við Góu. Huga þarf að tengingum austur að stíg í Garðabæ við Miðhraun og eins til vestur yfir Fjarðarhruni með ljósastýrðum þverunum eða gangbrautum. Bent var á möguleikann á göngubrú yfir Fjarðarhraun í Engidal yfir i Garðabæ. Einnig þarf að gera stíg vestan megin við Fjarðarhraunið í N-S stefnu.

Í svari Hafnarfjarðar kemur fram að við gerð þessa deiliskipulags hafa þessar viðmiðunarreglur verið hafðar til hliðsjónar og var Vegagerðinni sent málið til umsagnar og voru viðbrögð þeirra jákvæð. Hér væri ekki um að ræða göngustíg sem merktur væri hjólastígur heldur væri þetta 3.5 m breiður hjóla- og göngustígur. Ekki væri hægt að færa til ljós á gatnamótum Reykjanesbrautar/Hólshrauns og þar með taka hlykk af stígnum þar sem ljósastýrð umferðarljós vega stóran þátt í stjórnun á akandi umferð um þessi gatnamót. Hvað varðar að taka af 5. arminn af hringtorgi við Flatahraun/Reykjanesbraut og hafa innkomu frá Flatahrauni að þá standi til að gera heildrænt deiliskipulag fyrir allan reitinn og munu allar ábendingar varðandi þetta mál skila sér þangað inn. Ekki standi til að skerða sýn með frekari gróðursetningum en hins vegar munu verða sett upp skilti skv. þeim reglum sem gilda um þær staðsetningar. Ef Bæjarhraunið á að vera 30 km gata þarf allt hverfið að verða það líka. Á þessu stigi máls stendur ekki til að breyta því. Aðrar ábendingar eru utan deiliskipulagmarka og verða teknar til greina við vinnu við endurgerð aðalskipulags og eins nánara deiliskipulags.

Deiliskipulagið var samþykkt af Skipulags og byggingarráð á 323. fundi ráðsins:

Skipulags- og byggingarráð samþykkir að ljúka deiliskipulagi við Bæjarhraun, hjólastíg með vísan til 41. gr. laga nr. 123/2010.
Skipulags- og byggingarráð gerir eftirfarandi tillögu til Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir deiliskipulag fyrir Bæjarhraun, hjólastíg og að deiliskipulaginu verði lokið með vísan til 41. gr. laga nr. 123/2010."

Auglýsing um afgreiðslu bæjarins birtist í stjórnartíðindum.

Á heimasíðu Hafnarfjarðar er Lýsing á deiliskipulagsverkefninu og auglýsingin á deiliskipulaginu.

Lýsing á deiliskipulagsverkefninu.

Auglýst deiliskipulag.

Athugasemdir LHM.

Svar Hafnarfjarðabæjar við athugasemdum.