Landslag ehf. hannar stíginn. Eftirfarandi kom fram í kynningu á framkvæmdinni:
Stígurinn í Garðahrauni er stofnstígur samkvæmt aðalskipulagi bæjarins og er u.þ.b. 900 metra langur. Hann á að verður mikilvægur hlekkur í samfelldum stíg á austurjaðri byggðar í Garðabæ á milli Hafnarfjarðar og Kópavogs. Hann tengist jafnframt núverandi stíg yfir Garðahraun að Flatahverfi og við stígakerfi í Urriðaholti og Vífilsstaðahlíð austan Reykjanesbrautar um mislæg gatnamót við Urriðaholt. Skv. greinargerð gildandi aðalskipulags er almennt gert ráð fyrir að stofnstígar sem þessi séu allt að 3ja metra breiðir og upplýstir.
Eftir vandlega skoðun á loftmyndum, vettvangsathuganir og innmælingar var lagt til að stígurinn víki lítillega frá legu sem sýnd er í aðalskipulagi. Staðhættir hafa verið skoðaðir vandlega m.t.t. þess að fella stíginn sem best inn í landslag hraunsins. Stígurinn þverar „Hagakotsstíg“ þar sem hann er í tiltölulega grunnri rás.
Framkvæmd stígsins er samvinnuverkefni Garðabæjar og Vegagerðarinnar. Honum er ætlað að verða samgönguleið hjólreiðamanna og því áhersla lögð á að forðast krappar beygjur og bratta kafla. Við hönnun stígsins er stuðst við leiðbeiningar sem Efla vann fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðina. Þar er miðað við að radíusar fari að jafnaði ekki niður fyrir 40 m, en þó í undantekningum niður í 15 metra. Halli sé að jafnaði ekki meiri en 3% en í undantekningartilfellum allt að 10%. Í þeim tilvikum verði lengd stígs með halla takmörkuð við 15-30 metra fyrir 10% halla, 30-100 metra fyrir 7% halla og 100-200 metra fyrir 5% halla. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði lýstur upp á sama hátt og stígurinn sem er til staðar yfir Garðahraun, þ.e. með 4ja metra háum ljósastólpum með ca. 40 metra millibili eða rúmlega 20 stólpum. Áætlað er að týna grjót og mosa úr stígstæðinu og nota til lagfæringa á jöðrum þessa stígs og annarra stíga við álíka aðstæður. Viðkvæmasti kaflinn er nyrsti hlutinn þar sem stígurinn fer yfir hraunkambinn. Þar er lagt til að stígurinn skerist allt að 1 metra niður fyrir núverandi yfirborð til að lágmarka fyllingar og fláa út frá stígnum. Reynslan hefur sýnt að slík skering í úfnu hrauni sé mun fljótari að samlagast með mosagróðri en fyllingar og fláar.
Í umsögn LHM um framkvæmdina kom fram að ánægja með lega stígsins sem samræmist tillögum LHM um stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Þessi stígur er hluti af leið sem er kölluð Reykjanesbraut í tillögum LHM og nær frá Vallahverfi í Hafnarfirði að Mjódd í Reykjavík. Hún er önnur af tveimur stofnleiðum norður—suður á höfuðborgarsvæðinu við núverandi þróun byggðarinnar.
Ekki var gerð athugasemd við legu stígsins um Garðahraun en bent á að forðast óþarfa sveigjur.
Ekki var heldur gerð athugasemd við legu stígsins meðfram Austurhrauni en ekki er ljóst hvenær verður ráðist í þá framkvæmd. Fjallað var nokkuð um hugsanlegt fyrirkomulag leiðarinnar áður en til framkvæmda kemur og þegar hún verður loks lögð og um þveranir og öryggi þeirra. Einnig var bent á mögulegar og nauðsynlegar tengingar útfrá þessum fyrirhugaða stíg.
Uppdráttur af norðurhlutanum um Garðarhaun.
Uppdráttur af suðurhlutanum meðfram götunni Austurhrauni.