Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, fagnar þessari aðgerðaáætlun og þeirri yfirlýstu stefnu stjórnvalda að efla hjólreiðar sem valkost í samgöngum. „Reiðhjól eru einu farartækin sem segja má að séu raunverulega umhverfisvæn. Hjólreiðar draga úr óhagkvæmri einkabílaumferð og stuðla í leiðinni að sparnaði í heilbrigðiskerfinu.“
Hann bendir á að við framleiðslu á hefðbundnum fólksbíl þurfi gríðarlega mikla orku og hráefni. Slíkur bíll vigtar um eitt og hálft tonn, á meðan reiðhjól eru tíu til fimmtán kg. Því koma hjólreiðar ekki aðeins í veg fyrir útblástur frá ökutækjum, heldur einnig í veg fyrir þá mengun sem fylgir bílaframleiðslu.
Unnið að hagsmunum allra hjólreiðamanna
Hér á landi stendur margt til boða fyrir þá hjólreiðamenn sem hafa áhuga á að ganga í hjólreiðafélag. „Stærsta félagið innan Landssamtakanna er Íslenski fjallahjólaklúbburinn, en hann er með tvenns konar aðild, einstaklingsaðild og fjölskylduaðild. Gróflega eru um 800 félagar í þeim klúbbi, en margir af þeim eru jafnvel skráðir fyrir heilli fjölskyldu. Því má bæta töluverðum hópi hjólreiðamanna við hinn hefðbundna félagalista. Fjallahjólaklúbburinn er með opið hús á fimmtudögum kl. 8. og þar geta allir mætt og litið í kaffi og spjallað.“ Árni segir nafn klúbbsins geta verið misvísandi þar sem hann sé fyrst og fremst hefðbundinn hjólaklúbbur, en ekki fjallahjólaklúbbur. „Síðan eru líka keppnishjólreiðafélög, eins og Hjólreiðafélag Reykjavíkur, þar sem menn hugsa um hjólreiðar sem keppni og æfingu. Í þeim klúbbi eru 150-200 virkir félagar.“
Hann segir Landssamtök hjólreiðamanna vinna að hagsmunum allra hjólreiðamanna, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Allir sem eiga reiðhjól njóta góðs af starfsemi samtakanna. „Að auki eru samtökin þáttakandi í ýmsum nefndum og ráðum og þar komum við með tillögur og hugmyndir, í von um að móta opinbera stefnu. Við eigum sæti í umferðarráði og sitjum í samráðsnefnd í verkefninu Hjólað í vinnuna. Einnig tökum við virkan þátt í Samgönguviku, en henni lauk nú í september. Og nú þegar Landspítalinn er mikið í umræðunni höfum við komið með tillögur tengdar tilvonandi framkvæmdum.“
Innflutningur á reiðhjólum.
Aðspurður um heildarfjölda hjólreiðamanna hér á landi segir Árni engar slíkar tölur að fá, þar sem ekki sé markvisst haldið utan um slíkar upplýsingar. Hins vegar er annað mál með tölur um innflutning á reiðhjólum, en þær má meðal annars nálgast á heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna. Þegar þær eru skoðaðar sést að innflutningurinn var mestur árið 2008, en þá voru flutt inn 28.034 hjól. Minnst var flutt inn árið 2002, en þá voru 12.783 hjól flutt til landsins. Að meðaltali eru flutt hingað til lands um 19.000 reiðhjól á ári. Innflutningur reiðhjóla var í blóma á árunum sem kennd eru við hið svokallaða góðæri, en minnkaði síðan í kjölfar efnahagshrunsins. Árni bendir þó á að innflutningur á reiðhjólum hafi á þeim tíma ekki séð jafn mikinn skell og til að mynda bílainnflutningur.
Hvað þarf að hafa í huga fyrir veturinn?
„Þegar hjólað er í góðu veðri og engri hálku þarf raunverulega ekki að gera neinar ráðstafanir. En ef fólk vill geta hjólað allan veturinn þá borgar sig í fyrsta lagi að fá sér nagladekk. Margir eiga erfitt með að trúa því hversu öflug nagladekkin eru áður en þau eru prófuð. Þau veita mikinn stöðugleika við sleipar aðstæður, en það segir sig sjálft að ekki má taka krappa beygju í glerhálku.
Í öðru lagi mæli ég með því að fólk fái sér ljós að framan og aftan. Ódýru ljósin geta í raun verið ágæt, og mun betri en ekkert, en best er auðvitað að kaupa góð ljós. Mikilvægt er að foreldrar kaupi ljós á hjólin hjá börnunum, því það á ekki að spara við þau í ljósabúnaði. Önnur atriði sem ber að hafa í huga fyrir komandi vetur er að fara vel yfir bremsur, smyrja keðjuna og klæða sig eftir aðstæðum. Hlýir vettlingar og húfur skipta miklu máli.“
Til gamans má geta að Landssamtök hjólreiðamanna verða í vetur með hjólaferðir á laugardagsmorgnum kl. 10. Lagt er af stað frá Hlemmi og þaðan farið í rólega ferð um borgina. „Tilgangur þessara ferða er að sýna mönnum hversu auðvelt er að hjóla í borginni. Þær taka að jafnaði um einn til tvo tíma og í þær mætir fólk á öllum aldri. Við munum byrja í þessum mánuði, taka pásu í desember, og halda síðan áfram eftir áramót.“
Nánari upplýsingar um starfsemi íslenskra hjólreiðafélaga má nálgast á heimasíðunum: www.LHM.is, www.fjallahjolaklubburinn. is, www.hfr.is