Í hjólafærni æfa börnin sig einnig í hjólaleikni í þrautabrautum, taka þátt í hjólaleikjum, æfa hluti eins og að líta aftur fyrir sig, senda skilaboð og eiga í samstarfi við ökumenn og vegfarendur.
»Við skoðum líka hvernig hjólreiðamenn eiga að haga sér á stígum og gangstéttum þar sem við erum gestir,« segir Sesselja og kveðst sjálf þeirrar skoðunar að hjólreiðamenn eigi að nota göturnar í meira mæli. »Bílstjórar eru almennt tilbúnir að taka tillit til hjólandi umferðar og fæstir íbúar vilja mikinn ökuhraða í sinni götu.« Rólegar umferðargötur eru enda meðal kennsluefnis í hjólafærni barna frá 12 ára aldri og nemendum kennt að taka sér pláss á götunni, því það borgi sér ekki að vera alveg upp við gangstétt. »Hjólareiðafólk á að vera á rúmgóðu svæði á götunum og flestar götur í Reykjavík eru svo breiðar að þar er gott að vera,« segir Sesselja.
Ekki gert ráð fyrir hjólum við skóla
Hjólafærni var þróunarverkefni í Álftamýrarskóla veturinn 2008-2009 og nýttu 50% nemenda í 6.-7. bekk þennan valkost og 75% barna í 4. og 5. bekk. »Börn eru móttækileg, þeim finnst gaman að fá þessar upplýsingar og eru ánægð með að einhver sé að tala við þau um það sem þau eru að gera.«
Í vetur hefur Sesselja síðan unnið með börnum í Fossvogsskóla.
»Óskar S. Einarsson skólastjóri er mikill hjólaskólamaður og hvetur nemendur sína til að koma á hjóli í skólann,« segir Sesselja og bendir á að ekki sé gert ráð fyrir hjólastæðum við skóla borgarinnar. Því þurfi skólastjórar að taka af innra rekstrarfé skólans eigi að vera hjólastæði við skólann. »Það þarf ekki að hugsa um bílastæði, en það virðist alveg gleymast að gera ráð fyrir þessu ökutæki í samfélagsmynd okkar. Þetta er nokkuð sem ég held að foreldrar ættu að hafa í huga næst þegar að þeir gagnrýna skólastjóra fyrir að hvetja ekki börnin til að koma á hjólinu í skólann.«
Í HNOTSKURN
# Hjólafærni kviknaði upp úr kynningu Bretans Johns Franklins á samgönguviku 2007 á áætlun breskra yfirvalda um að kenna ungmennum samgönguhjólreiðar.
# Sex Íslendingar lærðu í framhaldinu að kenna hjólafærni.
# Hjólað í vinnuna hefst á morgun, 5. maí, og er þetta í áttunda sinn sem efnt er til þessa átaks.
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur
Morgunblaðið 4. maí 2010