LHM sendi Vegamálastjóra bréf þann 27. september 2010 um endurgerð vegaxla á þjóðvegum út frá höfuðborgarsvæðinu. (pdf 60 kb) Svar hefur ekki borist frá Vegamálastjóra.
Efni bréfsins er hér að neðan:
Mál: Endurgerð vegaxla á þjóðvegum út frá höfuðborgarsvæðinu.
Undirritaður er formaður Landssamtaka hjólreiðamanna. Ég hef tekið
eftir því að nú er verið að vinna að viðgerð á vegöxlum á nokkrum
stöðum í grennd við höfuðborgarsvæðið. Ég vil fagna þessu framtaki og
lýsa yfir ánægju Landssamtaka hjólreiðamanna með þessa vinnu. Sléttar,
breiðar og góðar vegaxlir eru mikilvægar fyrir öryggi allrar umferðar um
þjóðvegi hvort sem hún er vélknúin, hjólandi eða gangandi. Endurgerð
vegaxla er eitt af þeim atriðum sem Landssamtök hjólreiðmanna hefur
lagt áherslu á í sínum stefnumálum: http://www.lhm.is/stefnumal. Þar
segir um þetta atriði:
"Vegir í dreifbýli og stofnbrautir í þéttbýli
Vegagerðin endurbyggi núverandi vegi þannig að þeir uppfylli
núverandi veghönnunarreglur varðandi vegaxlir og öryggisræmur þar
sem er kantsteinn. Vegaxlir og öryggisræmur eru hjólreiðafólki afar
mikilvægar, sér í lagi þar sem umferð er þung og hröð. Í þéttbýli er
ákjósanlegt að byggja sérstakar hjólreiðabrautir sem valkost
hjólreiðamanna við stofnbrautir. Góðar vegaxlir eru mjög mikilvægar
fyrir öryggi allra vegfarenda eins og rannsókn sýnir."
Í framhaldi langar mig til að spyrja hvort að þarna sé unnið eftir
ákveðinni áætlun og hvort hægt sé að fá sendar upplýsingar eða kort yfir
þær vegaxlir sem verður gert við á þessu ári.
Þá langar mig til að benda á að einar verstu vegaxlirnar fyrir
hjólreiðafólk eru þær sem Vegagerðin sjálf lét fræsa raufar í til að vekja
sofandi ökumenn. Það er á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og á
Suðurlandsvegi á kafla. Þessar vegaxlir eru ekki nógu breiðar utan við
fræsta svæðið og er ekki hægt að segja annað en að þessi fræsing hafi
skapað hættu fyrir hjólreiðafólk. Benda verður á að engin sambærileg
leið er út frá höfuðborgarsvæðinu um Suðurland og Vesturland en um
hinar fræstu leiðir. Fjöldi ferðamanna hjólar þessar leiðir á hverju ári.
Landssamtök hjólreiðamanna óskar eftir því að þessar leiðir verði
lagfærðar sem fyrst og vegaxlir endurbyggðar í samræmi við
veghönnunarreglur Vegagerðarinnar.
Landssamtökin er ávallt reiðubúinn til samstarfs og til að veita ráðgjöf
um útfærslur sem best henta hjólreiðafólki.
Myndir af vegöxlum á Stekkjarbakka í Breiðholti og á Vesturlandsvegi vð Höfðabakkabrú (ekki með í bréfinu):