Bréfið:
Ívilnun fyrir reiðhjól og rafmagnsreiðhjól.
Landssamtök hjólreiðamanna fram á það við ríkistjórnina að hún hlutist til um að breyta lögum og reglum þannig að reiðhjól og rafmagnsreiðhjól njóti ekki minni ívilnunar en rafmagnsbílar á hverjum tíma. Efnislega felur það í sér að fella þarf niður virðisaukaskatt af reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum. Eins viljum við benda á nauðsyn þess að bjóða aðgengi að hleðslu fyrir rafmagnshjól.
Greinargerð:
Rafmagnsbílar njóta sérstakrar ívilnunar í skattlagningu umfram önnur ökutæki og mun ekki vera greidd vörugjöld af þeim, né virðisaukaskattur upp að ákveðnu marki. Það er gert til að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Sem kunnugt er er reiðhjólið umhverfisvænsta og orkunýtnasta samgöngutækið á landi sem mannkynið hefur fundið upp. Kolefnisspor við framleiðslu reiðhjóla er auk þess aðeins brotabrot af kolefnisspori rafmagnsbíla. Reiðhjól hafa líka margvísleg önnur góð áhrif á umhverfi og samfélag umfram rafmagnsbílana. Má þar nefna minni loftmengun í þéttbýli, betri lýðheilsu, aukið umferðaröryggi, bættan bæjarbrag, ódýrari umferðarmannvirki, betri nýtingu á plássi og bætt gæði umhverfis í þéttbýli, minni fjarvistir frá vinnu, aukin félagsleg samskipti og lengri og betri lífdaga. Fjöldi úttekta hafa komist að því að auknar hjólreiðar fela í sér hreinan sparnað fyrir samfélagið en bílaumferð aftur á móti kostar samfélagið peninga þrátt fyrir skatta og gjöld sem eru innheimt. Það skýtur því skökku við að meiri ívilnanir skuli vera með rafmagnsbílum heldur en reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum þegar umhverfisáhrif þessarra ökutækja eru tekin með í reikninginn.