Hugtök yfir orsakir umferðarslysa

LHM sendi umferðardeild Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrispurn um hugtök yfir orsakir umferðaslysa og óskaði eftir breyttri hugtakanotkun.

Nánar tiltekið var óskað eftir því að sambærileg hugtök væru notuð yfir slys hjá hjólandi og slys hjá öðrum ökumönnum í umferðinni. Erindinu var vel tekið af lögreglunni og vonandi verður þessari hugtakanotkun breytt til samræmis.


Sæll Guðbrandur
 
Við hjá Landssamtökum hjólreiðamanna höfum velt fyrir okkur hugtakanotkun um orsakir umferðarslysa sem kemur fram í umferðarslysaskýrslu Samgöngustofu sbr. meðfylgjandi töflu. Þar er t.d. sagt "Reiðhjólamaður fellur" en sambærileg slys bifhjólamanna heitir "Fall af bifhjóli". Reiðhjólamaðurinn er sem sagt gerandi en bifhjólamaðurinn  kemur varla við sögu. Samskonar hugtök eru notuð yfir önnur slys í þessari töflu þar sem gerandi er ekki tilgreindur.
 
Við mundum mjög gjarnan vilja að sambærileg notkun hugtaka væru yfir orsakir allra slysa. "Reiðhjólamaður fellur" yrði þá "Fall af reiðhjóli". Þótt þetta virðist vera tittlingaskítur getur þetta skipt máli því oft er umfjöllun fjölmiðla villandi og þarf ekki mikið til að þeir fari útaf sporinu sbr. þessa frétt: 
 
Starfsfólk Samgöngustofu vill meina að þessi hugtakanotkun séu ekki upprunnin í þeirra ranni. Getur verið að þessi hugtakanotkun sé ættuð úr eyðublöðum eða formum lögreglunnar? Ef svo er væri hægt að breyta þessari hugtakanotkun og gera hana hlutlausari og sambærileg við slys ökumanna annarra ökutækja en reiðhjóla?
 
Ég sný mér til þín með þetta mál en ef það á betur heima á öðrum vettvangi skaltu endilega láta mig vita og eins ef þessi hugtök eiga ekki uppruna sinn hjá lögreglunni.
 
með bestu kveðju
Árni Davíðsson
formaður
Landssamtök hjólreiðamanna

Sæll Árni.
 
Þau hugtök sem lögreglan notar eru mér vitanlega samþykkt af embætti Ríkislögreglustjóra og sett inn í lögreglukerfið LÖKE af þeim. Áður en til þess kemur hafa heiti flokka verið rædd af starfsmönnum lögregluembætta landsins og í samvinnu við lykil starfsmenn Samgöngustofu er varðar flokkun umferðarslysa.
 
Svo ég viti til þá hefur oft verið farið að tillögu Samgöngustofu er varðar flokkun umferðarslysa.
 
Ég bæti inn í svar mitt okkar lykil fólki er varðar hugtaka notkun flokka í lögreglukerfinu og samantekt tölfræði upplýsinga sem eru Árni Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá RLS og Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri Stoðþjónustu og greiningar LRH ef að þau gætu orðið þér að liði eða skýrt frekar afstöðu lögreglu vegna fyrirspurnar þinnar.
 
Guðbrandur Sigurðsson
Aðstoðaryfirlögregluþjónn
Umferðardeild

Bréf LHM. 

Svar bréf lögreglunnar. 

Umferðarslysaskýrslur Samgöngustofu