Bjuggu til hljóðfæri úr reiðhjóli

Í frétt á vef Mbl.is og vef Reykjavíkurborgar  er sagt frá því að nemendur í Fossvogsskóla hafi búið til hjóðfæri úr reiðhjóli í Biophiliu menntaverkefninu en uppskeruhátíð verkefnisins stendur nú yfir í Ráðhúsinu fram yfir næstu helgi (4.-5. júní).

Leikið á reiðhjól

Ellefu nemendur úr 7. bekk í Fossvogsskóla bjuggu til hljóðfæri úr reiðhjóli en það verður til sýnis í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina ásamt öðrum verkum sem unnin voru í Biophiliu verkefninu.

„Við erum hjólaskóli og eigum fullt af hjólum svo við fengum að nota eitt hjólanna og bjuggum til hljóðfæri úr því,“ segir Mira Esther, sem er á meðal nemendanna í hópnum. Dögg, sem einnig er í hópnum, segir hugmyndina hafa komið þegar Ragna Skinner, tónmenntakennari í skólanum, sýndi bekknum myndband af sænsku hljómsveitinni Vintergatan. „Þar bjó maðurinn í myndbandinu til sitt eigið hljóðfæri og okkur langaði að vera sköpunarglöð og gera eins,“ segja þær stöllur, en hópurinn spilaði á hjólið fyrir fullum sal í Ráðhúsinu í dag. Aðspurðar segja þær báðar að Bi­ophiliu-verkefnið hafi verið einstaklega skemmtilegt.
 
Guðrún María Ólafsdóttir, náttúrufræðikennari við skólann, segir að það hafi sífellt komið á óvart hversu frumleg og skapandi börnin og ungmennin í skólanum hafi verið þegar þau unnu Biophiliuverkefnið.
 
Uppskeruhátíðin fer fram bæði á sviði, á sýningartjaldi og í fjölmörgum sköpunarverkum barna í tveimur leikskólum, einni frístundamiðstöð og fimm grunnskólum. Þar má m.a. skoða himinhnettina, hólógrömm af frumum og himingeimnum, hlustunarpíur til að nema hljóðin í líkamanum, spilandi reiðhjól og mánasteina.  
 
Biophilia-menntaverkefnið byggir á listaverki og hugmyndafræði Bjarkar Guðmundsdóttur, þar sem sköpunargáfan er virkjuð sem kennslu- og rannsóknarverkfæri og tónlist, tækni og náttúruvísindi eru tengd saman á nýstárlegan hátt.
 
Þátttakendur í uppskeruhátíðinni eru Austurbæjarskóli, Dalskóli, Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Fossvogsskóli, leikskólinn Miðborg, leikskólinn Kvistaborg, Sæmundarskóli, Vogaskóli.
 
Síðastliðin þrjú ár hafa skólar frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi, Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi tekið þátt í Biophilia menntaverkefninu undir stjórn Mennta- og menningamálaráðuneytisins með veglegum styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Ísland hefur verið leiðandi í því samstarfi sem frumkvöðull í verkefninu.
 
Biophilia-menntaverkefnið er samstarfsverkefni Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Norrænu ráðuherranefndarinnar, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur.
 

Fréttin á vef Morgunblaðsins.

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.