Ábendingar LHM við deiliskipulag fyrir Vogabyggð 2

Í tillögunni felst endurskipulagning á svæðinu, þar sem iðnaðarstarfsemi víkur fyrir blandaðri byggð íbúða, atvinnu, skrifstofu, verslana og þjónustu. Í skipulaginu er lögð áhersla á 3-5 hæða byggð, heildstæðar götumyndir og borgarmiðað gatnakerfi. Lagt er upp með fjölbreyttar lausnir almenningsrýma með áherslu á sólríka og skjólmyndandi staði. Nálgast má tillöguna ásamt fylgigögnum hér.
 
Hér er svo:

Ábendingar LHM við deiliskipulag fyrir Vogabyggð 2

Landssamtök hjólreiðamanna eru fylgjandi framkomnu deiliskipulagi í öllum meginatriðum og stjórn samtakanna telur að það sé í góðu samræmi við áherslur og markmið samtakanna um að bæta jafnræði samgöngumáta og auka hlutdeild hjólreiða og göngu.

 
Við viljum þó vekja athygli á fyrirkomulagi hjólaleiðar meðfram Dugguvogi í tillögunni. Þar er gert ráð fyrir hjólarein í götu með bílastæðum samsíða götunni utan við hjólareinina. Fyrirkomulagið er akrein - hjólarein - bílastæði (tré) - gangstétt - byggingar. Þó þarna sé vel að verki staðið við hönnun leiðarinnar teljum við að líklega sé heppilegra að hafa hjólaleiðina þarna sem hjólastíg milli gangstéttar og bílastæða. Fyrirkomulagið sem við leggjum til er akrein - bílastæði (tré) - hjólastígur - gangstétt - byggingar. 
 
Sennilega er öryggistilfinning flestra hjólandi vegfarenda og einkum þeirra sem smeykir eru betri á hjólastíg en hjólarein. Nýir hjólreiðamenn, eldri borgarar, sumar konur og börn eru gjarnan talin í þeim hópi. Í borgum þar sem öryggistilfinning hjólreiðamanna er mikil eru sem dæmi ívið fleiri konur en karlar sem hjóla, og bæði börn og gamalmenni fara ferða sinna á reiðhjólum.
 
Hjólarein gæti stutt minna við markmið aðalskipulags um að bæta aðgengi til hjólreiða. Hjólastígur aftur á móti stuðlar sennilega frekar að því að breikka þann hóp sem hjólar. Erlendis virðast æ fleiri borgir fara í þessa átt, að leggja frekar "protected bike paths", heldur en hjólareinar.
 
Rök með hjólarein eru þau að hjólandi verða sennilega fljótari í förum og sýnilegri fyrir umferð í Dugguvogi og öryggistilfinning vanra hjólreiðamanna er viðunandi eða góð. Ókosturinn við hjólarein er sennilega lakari öryggistilfinning flestra nýrra notenda, hætta af bílstjórum sem opna bílhurð útá hjólarein og hætta af umferð bíla úr og í stæði. Mögulega verða hjólandi á rein minna sýnilegir fyrir umferð úr hliðargötum þó það geti farið eftir útfærslu við gatnamót.
 
Rök með hjólastíg er sennilega betri öryggistilfinning notenda, sennilega minni hætta af bílhurðum sem opnaðar eru úr bílastæðum og að hjólandi geta verið sýnilegri fyrir umferð úr hliðargötum. Ókosturinn er sennilega hægari ferð, minni sýnileiki frá akandi í Dugguvogi sem beygja inn í hliðargötur og hugsanlega meiri núningur við gangandi vegfarendur. 
 
Óvísst er hvort stígur eða rein verði heppilegri upp á snjómokstur en það fer auðvitað líka eftir þjónustu við mokstur á götu og gangstétt. Yrði akrein og hjólarein rudd saman og snjór settur í bílastæði eða sitt í hvoru lagi þannig að snjór af akrein verður rutt upp á hjólarein? Yrði gangstétt og hjólastígur rudd saman eða sitt í hvoru lagi eða jafnvel einföld leið rudd eftir gangstétt/hjólastíg? 
 
Landssamtök hjólreiðamanna leggja því til að það verði skoðað vandlega hvort ekki sé heppilegra að hafa hjólastíg í Dugguvogi frekar en hjólarein. 
 
Samtökin eru auðvitað tilbúin til að koma að slíkri rýni.
 
kveðja
f.h. stjórnar LHM
Árni Davíðsson
formaður umsagnarnefndar LHM

Uppdráttur af deiliskipulaginu og hjólarein (blá lína) í Dugguvogi.

 

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.