Samgönguáætlun 2015-2018 umsögn LHM

Landssamtök hjólreiðamanna gerðu umsögn um til­lögu til þingsálykt­un­ar um fjög­urra ára sam­göng­uáætl­un fyr­ir árin 2015–2018.

Í upphafi ályktunarinnar segir, Alþingi ályktar, sbr. lög um sam­gönguáætlun, nr. 33/2008, að á árunum 2015–2018 skuli unnið að sam­göngumálum í samræmi við eftirfarandi verkefnaáætlun sem er hluti af og innan ramma sam­gönguáætlunar fyrir árin 2011–2022 þar sem mörkuð er stefna og markmið sett fyrir allar greinar samgangna á gildistíma áætlunarinnar.

Hér má sjá alla umsögn LHM.
 
Í umsögninni leggja LHM til, að framlag til gerðar hjólastíga verði aukið um 200 millónir á ári þau fjögur ár sem samgönguáætlunin nær til og að því verði varið 400, 400, 500 og 500 milljónir eða samtals 1,8 milljarðar króna á tímabilinu. Það væri hækkun um 800 milljónir frá tillögum í þingsályktuninni þar sem gert er ráð fyrir um 1 milljarði króna yfir tímabilið. Til að setja þessar tölur í samhengi þá ætlar ríkisvaldið að eyða 46 milljörðum í allan stofnkostnað við vegi og jarðgöng 2015-2018. Um 1 milljarður af því á að fara í hjóla- og göngustíga á þessum fjórum árum, þ.e. 1/46 hluti eða 2,2%. Ef gengið yrði að tillögu LHM myndi hlutur hjólreiða- og göngustíga hækka í 3,9%.
Önnur útgjöld á áætlunartímabilinu eru, viðhald 26 milljarðar, þjónusta, styrkir og rannsóknir 30 milljarðar, rekstur Vegagerðarinnar 3,7 milljarðar. 
 
Rökstuðningur LHM fyrir auknu framlagi er m.a. þörfin á auknum framkvæmdum í dreifbýli þar sem öryggi hjólandi er stefnt í voða á umferðarmiklum og þröngum þjóðvegum þar sem vegaxlir vantar nær algerlega. Því óska samtökin eftir því að hluti aukins framlags verði notað til stígagerðar í dreifbýli. Í forgangi í dreifbýli verði stígar meðfram umferðarmestu þjóðvegunum einkum þar sem engar vegaxlir eru. Til dæmis meðfram Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss, meðfram Vesturlandsvegi frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðarvegi, meðfram Suðurlandsvegi frá Selfossi að Hellu og meðfram Reykjanesbraut frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Umferð hjólandi um þjóðvegi í dreifbýli hefur vaxið mikið hin síðari ár og eru það einkum ferðamenn og fólk sem hjólar sér til ánægju og æfinga sem nýta þjóðvegi í dreifbýli. Til að auka öryggi og koma í veg fyrir slys er nauðsynlegt að bregðast við þessu og leggja hjóla- og göngustíga milli helstu þéttbýlisstaða þar sem umferð er mikil og vegir eru án vegaxla.
 
Þess má geta að LHM stóð að óformlegri skoðanakönnun í hópnum Samgönguhjólreiðar á Facebook í tilefni af þessari umsögn þar sem spurt var: „Hvað finnst mönnum vera eðlilegt árlegt framlag ríkisins í samgönguáætlun til gerðar hjóla- og göngustíga?“ Niðurstaðan var að 42 svarendur vildu yfir 1 milljarð króna, 2 svarendur minna en 200 milljónir , 1 svarandi 600-800 milljónir , 1 svarandi 800-1000 milljónir , 0 svarendur 0 kr og 0 svarendur 200-400 milljónir . Um 96% svarenda vildu því að framlag ríkisins væri mun hærra en lagt er til í samgönguáætlun en aðeins 4% svarenda vildu að það væri minna. Vilji þessa hóps stóð greinilega til að framlög væru aukin og því m.a. varð úr að LHM lagði til þessa hóflegu aukningu á framlögum, sem ekki er útilokað að hljóti framgang innan umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
 
Þetta fé í samgönguáætlun notar Vegagerðin til að greiða 50% af kostnaði við stíga meðfram umferðarmiklum stofnbrautum samkvæmt ákvæði 27. gr. vegalaga. Vegagerðin hefur gert samkomulag við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um ákveðna stíga sem eru undir þessu framlagi og er nú flest sveitarfélögin að vinna að því að leggja þessa stíga. Hér að neðan er mynd af þessum stígum sem er í samgönguáætluninni. Menn hafa haft áhyggjur af þessu hugtaki "umferðarmiklum stofnbrautum" þar sem menn vilja síður hjóla í þeirri mengun og þeim hávaða sem fylgir bílaumferð. Í reynd hafa Vegagerðin og sveitarfélögin þó sýnt sveigjanleika með þetta ákvæði 27. gr. vegalaga og Vegagerðin samþykkt stíga sem gegna hlutverki samgöngustíga, sem liggja fjarri stofnbrautum. LHM bendir þó á þetta ákvæði í umsögninni og leggur til að orðalag 27. gr. vegalaga verði breytt.
 
 
 
Myndin sýnir framkvæmdir við hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu sem fjármagnaðar eru af Vegagerðinni að hluta og sveitarfélögum að hluta. Stofnleiðirnar byggjast á sameiginlegri sýn frá haustinu 2012 og er vinna langt komin.

Umsögning í heild:

Tillögur við samgönguáætlun.
 
Aukin framlög til hjóla- og göngustíga.
Á bls. 3, Stofnkostnaður, vegir, Stofn- og tengivegakerfi, leggja LHM til að framlög til hjóla- og göngustíga (liður 4) verði hækkaður um 200 milljónir króna á ári þessi fjögur ár. Framlög til hjóla- og göngustíga árin 2015-2018 verði því 400, 400, 500 og 500 milljónir. Aukningin sem hér er lögð til verði m.a. notuð til stígagerðar í dreifbýli. Í forgangi í dreifbýli verði stígar meðfram umferðarmestu þjóðvegunum einkum þar sem engar vegaxlir eru. Til dæmis meðfram Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss, meðfram Vesturlandsvegi frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðarvegi, meðfram Suðurlandsvegi frá Selfossi að Hellu og meðfram Reykjanesbraut frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. 
 
Umferð hjólandi um þjóðvegi í dreifbýli hefur vaxið mikið hin síðari ár og eru það einkum ferðamenn og fólk sem hjólar sér til ánægju og æfinga sem nýta þjóðvegi í dreifbýli. Til að auka öryggi og koma í veg fyrir slys er nauðsynlegt að bregðast við þessu og leggja hjóla- og göngustíga milli helstu þéttbýlisstaða þar sem umferð er mikil og vegir eru án vegaxla.
 
Þess má geta að LHM stóð að óformlegri skoðanakönnun í hópnum Samgönguhjólreiðar á Facebook þar sem spurt var: „Hvað finnst mönnum vera eðlilegt árlegt framlag ríkisins í samgönguáætlun til gerðar hjóla- og göngustíga?“ Niðurstaðan var að 42 svarendur vildu yfir 1 milljarð króna, 2 svarendur minna en 200 milljónir , 1 svarandi 600-800 milljónir , 1 svarandi 800-1000 milljónir , 0 svarendur 0 kr og 0 svarendur 200-400 milljónir . Um 96% svarenda vildu því að framlag ríkisins væri mun hærra en lagt er til í samgönguáætlun en aðeins 4% svarenda vildu að það væri minna.
 
Markmið um hagkvæmar samgöngur.
LHM leggja til að nýjum lið verði bætt við áherslur til að ná markmiði um hagkvæmar samgöngur bls. 24. Það geti hljómi svona: „Lagt verði mat á heildarkostnað samfélagsins af vegasamgöngum og rekstri bílaflotans. Taka ætti tillit til bæði beins og óbeins kostnaðar bíleiganda og samfélagsins alls“. 
Í því mati mætti m.a. vísa í útreikninga á því hversu mikið samfélagið borgi með hverjum eknum kílómeter á einkabíl, og hversu mikið samfélagið spari fyrir hvern kílómeter sem hjólaður er. Kaupmannahöfn hefur birt svoleiðis tölur í „Bicycle Account“.
 
 
Tillögur við athugasemdakafla.
 
Kaflinn „Hjólreiða og göngustígar“ bls. 50.
1. LHM leggja til að síðasta setning fyrstu efnisgreinar kaflans verði felld niður: „Með stígagerðinni er stefnt að því að umferð hjólandi ökumanna verði ekki leyfð á viðkomandi vegum.“ Í hennar stað komi setningin: "Með stígagerðinni er stefnt að því að umferð hjólandi ökumanna færist af viðkomandi vegum." Það gerist sjálfkrafa að hjólreiðamenn leita á vel hannaða, og vel við haldna stíga, svo lengi sem merkingar eru um tilvist stígsins og hvert hann liggur. Það á ekki að þurfa að banna hjólandi umferð á vegum ef stígar eru vel hannaðir, vel merktir og vel við haldið.
2. LHM taka undir það sjónarmið að í dreifbýli þarf framlag Vegagerðarinnar að vera hærra en 50% þar sem leiðin liggur um fámenn sveitarfelög með langa vegakafla og má gera ráð fyrir að þessi sveitarfélög hafi lítið bolmagn til þessara framkvæmda. T.d. mætti miða við 75-90% framlag Vegagerðarinnar.
3. LHM leggja áherslu á að stígar verði líka gerðir um atvinnuhverfi höfuðborgarsvæðisins samanber að stíga um þau hverfi vantar á mynd af hjólastígum á áætlun, á bls. 51. Það gæti verið með breikkun stíga/gangstétta, öruggum þverunum og leiðarmerkingum. T.d. vantar betri leið í gegnum Ártúnsholt og Höfða og Hálsahverfið í Reykjavík en einnig hverfi í öðrum sveitarfélögum.
4. LHM leggja áherslu á að hjólað verði í sem heilnæmustu umhverfi og eins hreinu lofti og hægt er sem fjærst umferðarmestu götunum og því er orðalagið í 27. gr. vegalaga óheppilegt. Í framkvæmd hefur Vegagerðin þó sýnt því skilning að stofnstígar þurfi ekki að liggja meðfram umferðarmestu stofnbrautunaum enda mun merkingin vera sú að hjólreiða- og göngustígarnir séu stofnstígar ætlaðir til samgangna. Æskilegt væri að skerpa á þessum skilningi með því að breyta orðalagi í 27. gr. vegalaga. Til dæmis mætti orða hana svona: „Í samgönguáætlun er heimilt að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga. Miðað skal við að veita fé til aðalstíga samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög.“
 
Kaflinn „Öryggi óvarinna vegfarenda“.
Á bls. 69 vilja LHM taka undir að bæta þurfi öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda.
 
LHM leggja til að ríkisvaldið grípi til eftirtalinna ráðstafana til að betur verði haldið utanum öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda: 
1. Ríkið í samvinnu við sveitarfélög geri ferðavenjukannanir sem ná yfir landið allt a.m.k á tveggja ára fresti. Með því verði aflað upplýsinga um hversu mikið er hjólað og gengið. 
2. Vegagerðin gangist fyrir samstarf við sveitarfélög um mælingar á fjölda þeirra sem ganga og hjóla með teljurum sem skynja gangandi og hjólandi. 
3. Vegagerðin geri öryggisskoðanir á hönnun þeirra stíga sem hún styrkir af samgönguáætlun og verði hönnun þeirra miðuð við leiðbeiningar Reykjavíkur um hönnun fyrir reiðhjól. 
4. Til að bæta öryggi á stígum og útrýma svartblettum verði gerðar öryggisúttektir á göngu- og hjólreiðastígum sem verði miðaðar við leiðbeiningar Reykjavíkurborgar um hönnun fyrir reiðhjól. Rannsóknarverkefni sem unnið var árið 2014 með styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar leiddi í ljós að margir svartblettir eru á stígum og má gera ráð fyrir að mörg slys verði á þeim stöðum.
5. Bætt verði skráning slysa á heilbrigðisstofnunum og fjármagn útvegað til þess. Aðgreining verði gerð á umferðarslysum hjólandi vegfarenda og slysum hjólandi sem verða við leik eða íþróttir.
6. Bætt verði skráning slysa hjá lögreglu og áverkar metnir með samræmdum hætti af heilbrigðisstarfsfólki, t.d. með AIS abreviated injury score.
7. Föll gangandi vegfarenda í samgönguskyni verði skráð sem umferðarslys.
8. Samgöngustofa og/eða Vegagerð gangist fyrir gerð apps í síma og spjaldtölvur, í samstarfi við sveitarfélögin, þar sem notendur geta skráð athugasemdir, sem fara til viðkomandi veg- eða stíghaldara, Vegagerðar eða sveitarfélags. Athugasemdir geta sem dæmi verið tillaga um framkvæmd til úrbóta, ábending um hættu eða ábending um skort á viðhaldi.
 
(Þingskjal 1061  —  638. mál.)(Lögð fyr­ir Alþingi á 145. löggjaf­arþingi 2015–2016.)