Um bann við hjólreiðum í Heiðmörk

5. nóvember 2017

Til forsvarsmanna hjólreiðafélaga og tengdra samtaka.

Eins og mörgum mun vera kunnugt var í ofanverðum ágústmánuði sett upp skilti í Heiðmörku sem bönnuðu hjólreiðar á vissum hluta stígakerfisins, þ.e.a.s. á efsta hluta hrings sem hjólreiðamenn hafa hjólað áratugum saman. Uppgefnar ástæður bannsins voru mikill hraði vaxandi fjölda hjólreiðamanna og tillitsleysi við aðra notendur stíganna, svo sem gangandi umferð.

Gagnrýni á þessum nótum er ekki bara bundin við Heiðmörku og á því miður nokkurn rétt á sér. Hröð umferð hjólreiðamanna á útivistastígum, er vaxandi vandamál sem krefst þess að hjólreiðasamfélagið fari í ákveðna naflaskoðun, ef að önnur sambærileg dæmi og atvik eigi ekki að fylgja í kjölfarið. Hjólreiðafólk verður að virða stöðu annarra á stígunum, við erum ábyrg fyrir því að árekstrar verði ekki við gangandi, og fólk með börn á leik verður að geta upplifað sig örugg á útvistarstígum. Ef ekki, þá hefst atburðarás sem getur endað með verulegri réttindaskerðingu allra hjólreiðamanna, líka þeirra sem hjóla með gát.

Ein af ástæðum þessara kvartana er af mörgum talin vera tengd svokallaðri strava notkun, þegar „keppnisleiðir“ hafa verið skilgreindar á fjölskyldusvæðum. Við nánari skoðun hlýtur jafnvel kappsömu fólki að vera ljóst að slíkt fer ekki saman. Stravaleiðir eiga fyrst og fremst heima á götum, sérstökum hjólastígum, eða þá þar sem lítil von er á öðrum vegfarendum.

Brugðist var við þessu banni á þann hátt að óskað var eftir fundi með Skógræktinni. Tveir fundur voru haldnir og komu að þeim, af hálfu hjólreiðasamfélagsins, fulltrúar frá Landssamtökum hjólreiðamanna (LHM), Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Hjólamönnum, Tindi, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Fjallahjólabandalaginu og stígagerðarmönnum Jaðars. Úr varð að hjólreiðafélögin myndu brýna fyrir félagsmönnum sínum að fara um Heiðmörk með nægjanlegri gát og að standa fyrir því að „keppnisleiðum“ væri eytt út í strava. Jafnframt að framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur muni beina því til stjórnar sama félags að banninu verði aflétt. Er það niðurstaða sem allir ættu vonandi að geta verið sáttir við.

Hér með er því skorað á þig og þann félagskap sem að baki þínu stendur að taka þátt í því að breyta menningu hjólreiðamanna á útivistarstígum til hins betra, með eigin fordæmi, hvatningu til félagsamanna og annarra, sem og að þeir félagsmenn sem hafa skilgreint „keppnisleiðir“ á fyrrnefndum svæðum taki þær út.

Slíkt útiokar að sjálfsögðu ekki keppnishald á slíkum stígum, en að slíkt sé ávallt gert í samráð við rétta aðila, og að með skiltum eða öðrum sambærilegum gjörningi sé almenningi haldið upplýstum.

Að lokum er vakin athygli á leiðbeiningum LHM um umferð hjólandi á stígum og götum sem finna má á slóðinni http://lhm.is/lhm/frettir/884-leidbeiningar-lhm-2-utgafa

Fyrir hönd Landssamtaka hjólreiðamanna,
Haukur Eggertsson, formaður laganefndar.