Skylda eða skynsemi?

Birgir Birgisson , stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðarmanna, fjallar um af hverju það er slæm hugmynd að leiða í lög hjálmskyldu fyrir allt hjólreiðafólk að 18 ára aldri.

Eftir tæpa 4 áratugi með nánast óbreytt umferðarlög er útlit fyrir að loksins takist að ljúka heildarendurskoðun þessa mikilvæga lagabálks. Margt gott er að finna í frumvarpinu sem um þessar mundir er til umræðu á Alþingi en eitt atriði sérstaklega er þó allrar gagnrýni vert.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur í meðhöndlun sinni á frumvarpinu komist að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að skylda hjólreiðafólk með lögum til að nota hjálma við hjólreiðar, allt fram til 18 ára aldurs, sjá nefndarálit hér. Í fyrri umræðu var markið þó sett við 15 ára aldur og helstu rök nefndarinnar fyrir breytingu á aldurstakmarkinu eru þau að það sé ekki fyrr en við 18 ára aldur að fólk er orðið fyllilega ábyrgt fyrir sjálfu sér og hegðun sinni í umferðinni. Þetta hlýtur að teljast frekar hæpin útskýring þar sem sami lagabálkur gerir ráð fyrir að treysta megi 17 ára unglingum til að aka rúmlega 3ja tonna bifreiðum með fleiri hundruð hestöflum á 90 km/klst um þjóðvegi landsins, en þeim virðist ekki treystandi til að stíga upp á reiðhjól á leið í skólann í hverfinu heima án þess að setja upp hjálm. Það er því engu líkara en verið sé að reyna að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist reiðhjólum áður en bílprófsaldrinum er náð.

 

Til að koma í veg fyrir að umræðan um hjálmaskyldu lendi á villigötum er mjög mikilvægt að greina á milli tveggja náskyldra hugtaka, nefnilega hjálmaskyldu annars vegar og hjálmanotkunar hins vegar. Landssamtök Hjólreiðamanna (LHM) og aðrir hagsmunaaðilar tengdir hjólreiðum styðja að sjálfsögðu almenna hjálmanotkun þeirra sem það velja, enda geta flestir reiðhjólahjálmar komið að ágætu gagni við minni óhöpp. Hjálmnotkun er almenn skynsamleg, sérstaklega hjá þeim sem eru byrjendur eða óvanir að hjóla í umferð osfrv. Vilji fólk kynna sér hvaða hlutverk reiðhjólahjálmum er ætlað og hvernig þeir eru álagsprófaðir má benda á evrópskan staðal EN1078 sem fjallar um þær kröfur sem hjólreiðahjálmar þurfa að uppfylla.

 

Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar er vísað í upplýsingar frá sveitarstjórna- og samgönguráðuneyti um að engar rannsóknir séu til sem sýni að lögbundin hjálmaskylda dragi úr hjólreiðum almennt. Þetta er stórfurðuleg fullyrðing og beinlínis röng. Reyndar er orðalaginu nokkuð lævíslega hagað þannig að til að teljast marktækar verði slíkar rannsóknir að taka af „allan vafa”. Hvenær í mannkynssögunni var síðast gerð tölfræðileg rannsókn sem tók af “allan vafa”? Á síðastliðnum 10 árum hafa nokkur ríki og sumar borgir fallið frá eða rýmkað lögbundna hjálmaskyldu, t.d. Malta, Bosnía, Ísrael og Dallas í Texas ásamt Mexíkóborg í Mexíkó. Þetta er beinlínis gert vegna þess að hjólreiðafólki á þessum stöðum fækkaði stórlega við hjálmaskylduna. Þetta hlýtur embættisfólk sveitarstjórna- og samgönguráðuneytis að geta aflað sér nánari upplýsinga um ef viljinn er fyrir hendi, t.d. hér og hér.

 

Í nýlegu útvarpsviðtali sagði Jón Gunnarsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar að hjálmaskylda væri nauðsynleg af því að í íslenskri umferðarmenningu væri „ekki eins rík hefð fyrir því að taka tillit til hjólreiðamanna eins og í öðrum löndum”. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að það standi ekki til að reyna að hafa nein áhrif á þessa óþroskuðu umferðarmenningu og því verði hjólreiðafólk bara að verjast og vígbúast. Kannski væri frekar ráð að auka fjárframlög til Samgöngustofu svo hægt verði að útbúa fleiri kynningarherferðir um hvernig við sköpum betri umferðarmenningu?

 

Í þessu samhengi er líka vert að nefna að þrátt fyrir mikinn vöxt í fjölda þeirra sem nota reiðhjól reglulega hefur ekki þótt nein ástæða til að uppfæra námsskrá til ökuréttinda eða það kennsluefni sem notað er til að fræða ökumenn um rétta hegðun í nágrenni við hjólandi umferð. Öryggi hjólreiðafólks í umferðinni er þar með algerlega á þeirra eigin ábyrgð óháð færni ökumanna í nágrenninu því í kennslugögnum til ökuréttinda er lítið minnst á hjólreiðafólk nema þá helst sem einhvers konar kjána sem kunna engar umferðarreglur, hvað þá að hjólreiðafólk fari eftir þeim.

 

Þó ekki sé til nein áreiðanleg rannsókn um hjálmnotkun á Íslandi bendir ýmislegt til að hlutfallið sé nokkuð hátt, jafnvel mun hærra en í mörgum löndum sem við berum okkur saman við og auðvitað er engin ástæða til að draga þar úr. Til að sannfærast þarf ekki annað en stilla sér upp í 5 mínútur á hvaða götuhorni sem er í Danmörku eða Hollandi. Þó hefur almennt gengið ágætlega að fá hjólreiðafólk á Íslandi til að nota hjálma. Til dæmis gera allir þeir staðir sem bjóða almenningi eða skráðum félagsmönnum upp á að æfa hjólreiðar sem íþrótt kröfu um að fólk noti hjálma á æfingum og í keppni. Innan hjólreiðasamfélagsins er þannig jákvæður jafningjaþrýstingur á að sem flestir noti hjálma. Sérstök átök hafa líka verið gerð í því að skapa sömu viðhorf og sams konar jákvæðan þrýsting meðal barna, t.d. með herferðum þar sem fyrirtæki eða félagasamtök hafa gefið ákveðnum árgöngum í skólum hjálma til notkunar. Þessi átök hafa kostað töluverða vinnu en að sama skapi skilað góðum árangri.

 

Það verður því ekki séð eða skilið út frá neinum handbærum rökum hvernig umhverfis- og samgöngunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu sinni að það sé nauðsynlegt að skylda ungt fólk með lögum til að nota hjálma við hjólreiðar. Brot á slíkri skyldu hafa heldur engin viðurlög í för með sér og því hlýtur að teljast einkennilegt að halda að lagaskyldan hafi einhverja raunverulega þýðingu. Niðurstaða nefndarinnar er sérstaklega undarleg í ljósi þess að reynsla annarra þjóða af sambærilegri lagasetningu er almennt mjög neikvæð þegar heildarmyndin er skoðuð nánar.

 

Reynsla Ástrala

Á árunum 1982 til 1989, áður en hjálmaskylda var sett á víðast hvar í Ástralíu, tvöfaldaðist fjöldi þeirra Ástrala sem reglulega nota reiðhjól sem ferðamáta. Það er því vel hægt að líkja þeirri fjölgun við þá aukningu sem nýlega hefur orðið í fjölda hjólreiðamanna og kvenna hér á landi á undanförnum áratug. Á sama tímabili fækkaði banaslysum hjólreiðafólks um nær helming (48%) og alvarlega slösuðum fækkaði um þriðjung (33%) áður en lögbundin hjálmaskylda var sett á. Að því er virðist til að bregðast við þessari miklu fækkun alvarlegra meiðsla settu Ástralar almenna hjálmaskyldu í lög árið 1992. Nær samstundis fækkaði um þriðjung (30%) því fólki sem notaði reiðhjól sem daglegan ferðamáta, t.d. til og frá vinnu (úr 2,1% í 1,4%). Það tók 10 ár fyrir þennan hóp að ná aftur sama fjölda, en þá hafði innlögnum hjólreiðafólks vegna slysa fjölgað um rúm 20%. Það er staðreynd að eftir að lögin tóku gildi fækkaði höfuðmeiðslum hjólreiðafólks lítillega (-1,6%), en þar með er ekki öll sagan sögð. Á sama tíma varð mun meiri fækkun í alvarlegum höfuðmeiðslum gangandi vegfarenda (-2,5%), sem höfðu þó ekki verið skyldaðir til að nota hjálma. Skýringin liggur í umfangsmikilli auglýsingaherferð sem var sett í gang samtímis og dró úr bæði hraða- og ölvunarakstri ökumanna. Árangurinn hafði því ekkert með hjálmaskylduna að gera heldur mikið frekar það að ökumenn óku síður ölvaðir eða of hratt.

 

Annar merkilegur hlutur gerðist um leið og Ástralar settu lög um hjálmaskyldu. Hlutfall kvenna af heildarfjölda hjólandi vegfarenda lækkaði um þriðjung (30%). Skýringin liggur í þeirri viðhorfsbreytingu sem varð með lagasetningunni því nú þótti kvenfólki hjólreiðar of hættulegar og þær hættu því að nota þennan heilsusamlega, umhverfisvæna og hagkvæma ferðamáta. Það er engin ástæða til annars en áætla að það sama gerist hér á landi verði lögbundin hjálmaskylda innleidd.

 

Reynsla Svía

Svíar breyttu sinni löggjöf árið 2005. Hjálmaskylda þar nær til barna undir 15 ára aldri. Þar sem sakhæfisaldur í Svíþjóð er einmitt 15 ár hefur það samt engar formlegar refsingar eða ávítur í för með sér fyrir barn undir þeim aldri sem virðir ekki hjálmaskylduna og því má alveg velta fyrir sér hver tilgangurinn er. Töluverð fækkun reiðhjólafólks eftir gildistöku laganna er staðreynd. Rannsókn var gerð í kjölfar lagasetningarinnar, með það að markmiði að staðfesta virkni hjálmaskyldunnar við að draga úr höfuðmeiðslum. Niðurstaðan kom rannsakendum hins vegar mjög á óvart. Meðal stúlkna varð engin breyting í fjölda eða alvarleika höfuðáverka. Meðal drengja varð hlutfallsleg breyting, þ.e. hjólreiðaslys þar sem hlutust höfuðmeiðsl sem hlutfall af heildarfjölda slysa lækkaði lítillega, um tæplega 10%. Hins vegar kom í ljós við nánari skoðun að það var ekki vegna þess að höfuðmeiðslum fækkaði heldur frekar vegna þess að öðrum meiðslum fjölgaði. Þessi rannsókn staðfestir að þegar hjálmaskylda er komin á virðast drengir ekki fara eins varlega og hljóta því oftar alls kyns minni háttar meiðsl. Reynsla Ný-Sjálendinga Á Nýja-Sjálandi var hjálmaskylda innleidd í byrjun ársins 1994. Tölfræðin þaðan sýnir að áhrifin urðu helst þau að mikill fjöldi fólks (50%) hætti að nota reiðhjól sem daglegt farartæki. Ungt fólk hætti að hjóla til skóla og fullorðnir hjóluðu ekki lengur til vinnu. Hins vegar varð engin breyting í hlutfallslegum fjölda látinna eða alvarlega slasaðra hjólandi vegfarenda í umferðarslysum. Hjólreiðafólk var þá og er enn nærri 3% allra þeirra sem látast í umferðarslysum þar í landi og sú tala hélst óbreytt frá 1990 fram til 2010. Sömuleiðis er hlutfall hjólreiðafólks um 6% allra þeirra sem slasast alvarlega í umferðinni þrátt fyrir helmingsfækkun hjólandi vegfarenda.

 

Sérstaka athygli vekur að á Nýja-Sjálandi varð langmest fækkun hjólreiðafólks meðal aldurshópsins 15-19 ára. Áður en hjálmaskyldan var sett á hjóluðu 18% ungra pilta til skóla og vinnu, eftir lagasetningu féll hlutfallið niður í 6%. Meðal stúlkna voru hlutföllin 11% fyrir lagasetningu en eftir gildistöku var talan komin í 2%. Það er því augljóst að sá árangur sem hægt er að tala um af lagasetningunni í Nýja-Sjálandi er fyrst og fremst vegna þess að lagasetningin fækkaði hjólreiðafólki verulega en hafði lítil sem engin áhrif á tíðni slysa meðal þeirra sem hjóluðu.

 

Skilyrt skynsemi

Það hlýtur að teljast eðlilegt að gera þá kröfu að lagasetning af þessu tagi sé byggð á haldbærum rökum og gögnum sem styðja líklega gagnsemi laganna. En þá þarf líka að vera vilji til að skoða slík gögn hvoru megin sem þau eru í umræðunni. Fullyrðingin um að engar rannsóknir sýni að hjólreiðafólki fækki við sambærilegar lagasetningar er einfaldleg röng og því ber að endurskoða bæði nefndarálitið og frumvarpið út frá þeirri staðreynd.

 

Takmark nýrra íslenskra umferðarlaga, sem fólk í nefndinni hefur sagst vera stolt af, er að vernda líf og heilsu vegfarenda. Þá hlýtur að þurfa að skoða heildarsamhengið, líf allra og heilsu allra til lengri tíma litið, en ekki bara sumra hér og nú.

 

Höfundur situr í stjórn Landssamtaka Hjólreiðamanna, LHM.

 

Greinin birtist einnig í Kjarnanum 3. júní 2019.