Um bann við hjólreiðum í Vonarskarði

Þann 18. október birtist á mbl.is fréttin Svört náttúruvernd valdi sundrungu. Ætti sú frétt að vera til umhugsunar um starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ) og fá talsmenn miðhálendisþjóðgarðs til að huga að hvernig tryggt sé að stjórnsýsla verði faglegri en sú sem VJÞ hefur hingað til sýnt.

Hjólreiðar eru án efa sá faramáti sem er vistvænstur og eyðir minnstri orku. Á meðan gera má ráð fyrir að langflestir sem ganga um VJÞ koma þangað á bifreiðum, munu flestir sem hjóla í VJÞ koma þangað og fara á reiðhjóli. Áður var Vonarskarð öruggasta leið hjólreiðamanna af Norður- og Austurlandi austan Skjálfandafljóts suður yfir sanda, en nú er þeim att yfir fjölda óbrúaðra jökuláa, sem geta orðið með öllu ófærar gangandi og hjólandi fólki, þegar þannig viðrar.

Þann 12. júlí 2013 staðfesti þáverandi umhverfisáðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, stjórnunar- og verndaráætlun fyrir VJÞ, þar sem í grein 9.1.5. segir m.a.: Hestaferðir í gegnum Vonarskarð eru háðar leyfi þjóðgarðsvarðar á vestursvæði. Umferð reiðhjóla er ekki leyfð í Vonarskarði.

Ákvörðun þessi er ekki rökstudd í áætluninni, en þó má finna „rökstuðning“ í fylgiritum svo sem bréfi framkvæmdastjóra VJÞ, í nafni stjórnar „[t]il þeirra sem sendu ábendingar og athugasemdir til stjórnar Vatnajökuls- þjóðarðs ...“ En þar segir á bls. 3 í kafla: Stjórn þjóðgarðsins ákvað í kjölfarið að fela teymi sérfræðinga við Háskóla Íslands [að] gera faglega úttekt á náttúruverndar- og útivistargildi Vonarskarðs. ... Teymið komst einnig að þeirri niðurstöðu að náttúruverndargildi Vonarskarðs og viðkvæm náttúra þess kallaði á enn sterkari verndarstöðu en nú er fyrir hendi og að réttast væri [að] hækka hana úr IUCN flokki II í flokk Ib (óbyggð víðerni) og þar með loka skarðinu alveg fyrir vélvæddri umferð allt árið, sem og fyrir umferð reiðhjóla þar sem ógreinilega skil gætu verið á skilgreiningu vélhjóls og reiðhjóls. Teymið taldi hins vegar að leyfa ætti umferð hesta um Vonarskarð í samráði við og með leyfi þjóðgarðsvarða.

Meirihluti stjórnar ákvað að fara bil beggja, þ.e. halda núverandi heimild til aksturs vélknúinna ökutækja á frosinni snævi þakinni jörð, opna fyrir hestaumferð en banna umferð reiðhjóla. Meirihluti stjórnar ...vísar að öðru leyti til greinagerðar rannsóknarteymisins,...

Af þessum skrifum má ljóst vera stjórn VJÞ ber rökstuðning „teymisins“ fyrir sig þegar kemur að banni á hjólreiðum í Vonarskarði. Í greinagerð teymisins segir: Einnig er lagt til að umferð reiðhjóla verði óheimil í Vonarskarði. Nú eru komin á markað rafknúin reiðhjól og því gæti orðið erfitt að skilja milli reiðhjóla og vélhjóla. Varðandi umferð hrossa í Vonarskarði þá leggur teymið til að hestaferðir séu háðar leyfi. Svo mikið um reiðhjól í þeirri greinagerð.

En getur umferð reiðhjóla verið skaðlegri náttúru landsins en umferð hests og knapa, sem saman vega rúmt hálft tonn, sem leggst að jafnaði á einn hóf (1 dm2), knúnir áfram af einu hestafli og éta gróður landsins? En á þeim grundvelli er bann við umferð reiðhjóla, en ekki hesta, óskiljanlegt öðrum en þeim sem vita hversu hestafólk er fjölmennt í stjórnum og ráðum VJÞ, og augljóst brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

En bannið var ekki á grundvelli náttúruverndar heldur vegna þess að [n]ú eru komin á markað rafknúin reiðhjól og því gæti orðið erfitt að skilja milli reiðhjóla og vélhjóla. Reiðhjól og vélhjól eru skilgreind í umferðarlögum. Vélhjól er augljóslega með vél sem getur knúið það áfram en reiðhjól ekki.

Því er augljóslega afar íþyngjandi að útvíkka bann vélknúinnar umferðar til allra reiðhjóla á þeim grundvelli að einhver rafhjól kynnu ella að sleppa í gegn, og augljóst brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nóg er að banna umferð allra vélknúinna hjóla, óháð því hvort að þau séu knúin áfram af rafmagni eða öðrum orkugjafa.

En e.t.v. má túlka banntillögu teymisins á þann hátt að það myndi skerða upplifun ferðafólks að sjá reiðhjól og vita ekki hvort að reiðhjólið sé með rafmagnsvél eða ekki. En slíkri kremlarlógíu væri auðsvarað með banni á vélknúnum hjólum þannig að sá sem ekki kann að greina á milli rafhjóls og reiðhjóls þurfi ekki að truflast af áhyggjunum af því að hjólið sem sést í fjarska kunni að vera knúið rafmagni.

Þess má geta að Landssamtök hjólreiðamanna kærðu staðfestingu ráðherra til umboðsmanns Alþingis sem vildi gefa ráðherra færi á að endurskoða málið, sem vísaði eftir til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Í tölvupósti framkvæmdastjóra VJÞ (og fyrrverandi stjórnarmanni í hestamannafélagi) til mín frá 23. apríl 2014 segir: Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið að skoða frekar umferðarmál í gegnum Vonarskarð. Niðurstaða úr þeirri skoðun mun tæplega liggja fyrir fyrr en síðsumars. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur þegar verið látið vita um þá ákvörðun.

Síðan eru liðið hálft fjórða ár, ekkert hefur heyrst frá þjóðgarðinum þrátt fyrir ítrekuð erindi og stjórnartíð þriggja umhverfisráðherra og enn stefna þjóðgarðsverðir hjólreiðafólki í hættu með því að meina þeim leið um Vonarskarð, um sanda og ógróin lönd.

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl