Þeir sem áður hafa hlotið Hjólaskálina, eru:
- 2011 - ÍSÍ
- 2012 - Fossvogsskóli
- 2013 - Fjölbraut í Ármúla
- 2014 – Landsspítalinn
- 2015 – Vínbúðin
- 2016 – Albert Jakobsson
Í ár litum við um víðan völl og buðum félögum í Samgönguhjólreiðahópnum á Facebook að koma með tillögur. Þar komu margar góðar tilnefningar. Flest atkvæði fengu Hjólakraftur og María Ögn fyrir sitt frábæra reiðhjólastarf. Einnig fékk Gísli Marteinn mikinn stuðning í þessari könnun. Aðrir sem voru nefndir líka, voru Alexander Schepsky fyrir Tweed Ride viðburðina, Böðvar og Lubbi, Hinn tillitssami bílstjóri, HæHó! samstarfsverkefni Hjólafærni og Rauða krossins, Skúli Mogensen fyrir WOW hjólin og Hjólasöfnun Barnaheilla.
Allar þessar tilnefningar endurspegla þá miklu grósku sem fer fram í hjólheimum.
Það var alveg sérstakt ánægjuefni þegar ISAVIA tók sig til 2014 og opnaði glæsilegan hjólaskála á bílastæði komufarþega. Þar er skjólgóð aðstaða með tveimur veglegum viðgerðarstöndum sem gera alla samsetningu hjólanna einkar aðgengilega og auðvelda eftir flugið til landsins. Þessi góða aðstaða er til fyrirmyndar á heimsvísu. Enn höfum við ekki heyrt af annarri flugstöð í heiminum sem býður svona góðar aðstæður fyrir hjólandi ferðamenn.
Í dag er aðstaðan nefnd BikePit en nú gerum við hvað við getum til að fá íslenskt nafn á þetta rými – og spyrjum; er nokkuð betra við hæfi en að skýra það Hjólaskálann – í höfuðið á Hjólaskálinni?
Auk þessa hefur Isavia unnið að lagningu hjólastígs sem tengist við Reykjanesbæ, þeir hafa boðið starfsmönnum ástandsskoðun Dr. Bæk á vorin og bjóða starfsmönnum sínum samgöngusamninga.
Það var Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem færði nafna sínum, Guðna Sigurðssyni upplýsingafulltrúa Isavia Hjólaskálina á ráðstefnunni Hjólum til framtíðar í Bæjarbíói undir lok Evrópsku samgönguvikunnar í ár.
Forseti lýðveldisins kom á eigin reiðhjóli í Bæjarbíó frá Bessastöðum og fór mörgum orðum um það hversu gott það væri að geta farið um á hjólinu – eins og hann gerði daglega í gamla lífinu sínu, áður en hann tók við embætti Forseta Íslands.
Ljósmyndir frá afhendingunni eftir Andra Ómarsson.
Hjólaskálinn var skreyttur af Hvíta húsinu með ýmsu sem þau sem hjóla hringinn gætu hugsað um: Kríur, kindur, vindhviður, snjókoma og einbreiðir vegir. Tillitslausir bílstjórar, síbreytilegt veður og miklir fjallvegir. Nánari uppslýsingar um það verkefni: Bike Pit