LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar

IMG_1888Landssamtök hjólreiðamanna hlutu í dag samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi. Sjá nánar í frétt Reykjavíkurborgar.

Samgönguviðurkenning fyrir góðan árangur og gott fordæmi

Mannvit, Alta og Landssamtök hjólreiðamanna hlutu í dag samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar sem var veitt í fyrsta sinn í dag við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Viðurkenningin er veitt í tengslum við evrópsku samgönguvikuna sem haldin er 16. – 22. september ár hvert.

Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda fólki að nýta sér virka ferðamáta m.a. hjóla og ganga. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali sínu á Mannviti segir að það sé frumkvöðull, en fyrirtækið markaði sér samgöngustefnu árið 2008 og hefur fylgt þeirri stefnu eftir með góðum árangri. Alta fær viðurkenningu fyrir áherslu sína á minni mengun og hefur fyrirtækið lokið mörgum verkefnum í samgönguviðmiðum Grænna skrefa, en þau voru lögð til grundvallar í vinnu dómnefndar. Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) er heiðruð fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi. Samtökin hafa með ákaflega uppbyggilegum hætti unnið með Reykjavíkurborg.   

Alls bárust 24 tilnefningar og því augljóst að fyrirtæki og félagasamtök eru að vinna gott starf við að innleiða samgöngustefnu og hvetja til virkra ferðamáta. Eftirtekt vekur að fjórir einstaklingar sem unnið hafa ötullega að framgangi hjólreiða voru  tilnefndir, en þeir komu þó ekki til álita því viðurkenningarnar voru veittar í þremur flokkum: stórra og lítilla fyrirtækja og félagasamtaka.

Í dómnefndinni sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, varformaður umhverfis- og samgönguráðs, Héðinn Svarfdal Björnsson, Embætti landlæknis, Jóna Hildur Bjarnadóttir, ÍSÍ og Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar. Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi afhenti viðurkenninguna í dag.




ÍTAREFNI - Nánar um val dómnefndar:

 

Mannvit er frumkvöðull og hefur sýnt gott úthald

Mannvit er frumkvöðull og markaði sér samgöngustefnu árið 2008. Upphaflega stefnan hefur tekið litlum breytingum í þau tæpu 5 ár sem stefnan hefur verið við lýði. Ávinningur af samgöngustefnunni hefur verið sá að fjöldi starfsmanna sem hefur nýtt sér samgöngustyrk hefur vaxið úr 20% í 39% á milli fyrstu tveggja ársfjórðunga árið 2012. Árið 2008 óku 58% starfsmanna einir í bíl til vinnu en 2011 var það hlutfall komið niður í 49%. Um 40% starfsmanna á aldrinum 25-34 ára komu gangandi, hjólandi eða í strætó til vinnu í nóvember 2011. Mannvit hefur því náð að fylgja stefnunni eftir frá þeim tíma sem hún var sett í upphafi. Auk þess er Mannvit kominn langt á leið með að hafa lokið öllum verkefnum í samgönguviðmiðum Grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar.

Minni mengun hjá Alta

Alta eru langt komin með verkefni í samgönguviðmiðum Grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar. Í samgöngustefnu sinni leggur Alta áherslu á minni mengun, minni losun gróðurhúsalofttegunda, bættu borgarumhverfi og heilsu starfsmanna. Hjá Alta er fylgst með losun gróðurhúsalofttegunda og vistvænum og óvistvænum kílómetrum. Dregið er úr þörf fyrir samgöngur með fjarfundum og úr umhverfisáhrifum samgangna með því að sleppa nagladekkjum, nýta almenningssamgöngur og hjóla á milli staða.

Virk þátttaka og áhrif Landssamtaka hjólreiðamanna

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa aðstoðað og unnið með Reykjavíkurborg í hjólreiðamálum í nokkrum verkefnum í um áratug m.a. við gerð Hjólreiðaáætlunar og hönnun hjólaleiða. Í gegnum tíðina hefur LHM og aðildarfélög þess lagt fram mikla vinnu vegna samgönguviku. LHM hafa fengið erlenda sérfræðinga til að miðla sýn og breiða út þekkingu frá löndum sem eru lengra komin en Íslendingar á einhverju sviði hjólreiða. Samtökin halda úti góðri vefsíðu og hafa tekið virkan þátt í opinberri umræðu um samgöngumál.


Tilnefningar sem bárust:

1. Advania
2. Alta
3. Árni Davíðsson
4. Bíllaus lífsstíll
5. Efla
6. Fjölbrautaskólinn í Ármúla
7. Göngum í skólann
8. Hjólað í vinnuna
9. Hjolreidar.is
10. Hjólafærni á Íslandi
11. Hjólað í vinnuna
12. Íslenski fjallahjólaklúbburinn
13. Kría cycles
14. Landsbankinn
15. Landssamtök hjólreiðamanna
16. Mannvit
17. Matís
18. Morten Lange
19. Páll Guðjónsson
20. Sesselja Traustadóttir
21. Strætó
22. Tindur hjólreiðafélag
23. Umhverfisstofnun
24. Vínbúðin

 


 

Uppruni: reykjavik.is

Myndir - LHM

IMG_1875pan

IMG_1885

IMG_1889

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl