Fyrsta ferðin verður farinn laugardaginn 29. september 2012. Síðan verður farið hvern laugardag fram til 24. nóvember. Engar ferðir verða í desember en fyrsta ferð eftir áramót verður 5. janúar og síðan vikulega til 27. apríl.
Vikulegar upplýsingar birtast á Facebook síðu LHM: Landssamtök hjólreiðamanna. Mæting er á Hlemmi milli 10:00 og 10:15 og er hjólað af stað kl. 10:15. Hjólaðar eru mismunandi leiðir um borgina og höfuðborgarsvæðið eftir rólegum götum og stígum í 1-2 tíma. Markmiðið er að hittast og sjá og læra af öðrum hjólreiðamönnum hversu auðvelt er að hjóla í borginni. Þessar ferðir eru ekki ósvipaðar þriðjudagskvöldferðum Fjallahjólaklúbbsins á sumrin en áherslan er hér á samgönguhjólreiðar í borginni og mikið lagt upp úr spjalli og rólegri ferð.
Ferðin er ókeypis og allir velkomnir. Allir sem kunna að hjóla eiga að geta tekið þátt. Meðalhraði fer eftir hægasta manni en ætti oftast að vera á bilinu 10-20 km/klst. Þegar vetrar og dimmir þarf að gera ráð fyrir hlýjum og skjólgóðum fatnaði og að hafa ljós að framan og aftan. Í hálku er öryggi í nagladekkjum á hjólinu. Auðvelt er að taka strætó á Hlemm með hjólið á laugardögum, áætlun strætó er á www.straeto.is .
Fyrirvari er um að menn hjóla á eigin ábyrgð að öllu leyti.
Ef menn vilja bæta öryggi sitt á hjólinu og fá kennslu í samgönguhjólreiðum er hægt að óska eftir kennslu á öðrum tímum. Hjólaafærni veitir margháttaða þjónustu sem hægt er að kynna sér á vefnum www.hjólafærni.is eða í símum 862 9247 og 864 2776.
Frekari upplýsingar má fá í síma eða í tölvupósti og sömuleiðis má láta vita af þátttöku í laugardagsferð.
Árni Davíðsson
s. 862 9247
Sesselja Traustadóttir
s: 864 2776