Sérfræðinganefnd umhverfisráðherra sér mikla möguleika í hjólreiðum

Í júní 2009 skilaði sérfræðinganefnd sem umhverfisráðherra skipaði 2007 af sér skýrslu sem fjallar um möguleika íslendinga á að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í sex mismunandi geirum samfélagsins. Samgöngur voru þar á meðal og vert er að halda til haga textanum úr skýrslunni sem fjallar um göngu og hjólreiðar.

Segja má að skýrsluhöfundar horfi of stíft á lengd hjólreiðastíga, því það er ekki það eina sem þarf til að auka hjólreiðar. Megnið af gatnakerfinu hentar ágætlega til hjólreiða þó víða megi bæta aðstæður með breiðari akreinum, einfaldari gatnamótum, hægari umferð og opna leiðir fyrir hjólandi sem ástæða hefur þótt til að loka fyrir bílaumferð.

 


Ganga og hjólreiðar

Hjólreiðar og ganga eru án efa einhverjir umhverfisvænstu ferðamátar sem völ er á. Auk þess að spara eldsneyti og annan rekstrarkostnað við gatnakerfi, eru jákvæð heilsufarsáhrif gönguferða og hjólreiða óumdeild. Margir sérfræðingar halda því fram að virkar samgöngur (þ.e. ganga og hjólreiðar) séu gagnlegasta aðferðin til að stuðla að bættri heilsu almennings og sú árangursríkasta (Litman, 2007).

Því miður hefur ekki verið metið hversu mikið sparast, t.d. í heilbrigðiskerfinu, við auknar göngur og hjólreiðar hérlendis og því var sá ávinningur ekki tekinn inn í kostnaðar- og ábatagreiningu. Erlendar rannsóknir gefa engu að síður vísbendingar um sparnaðinn. Í Kaupmannahöfn er áætlað að fyrir hverja milljón kílómetra á ári sem hjólaðir eru náist eftirfarandi sparnaður (Københavns kommune, 2007):
• 25 milljón kr. sparnaður í heilbrigðiskerfi á ári
• 67 milljón kr. sparnaður vegna minnkaðs vinnutaps á ári
• Fjarvistardögum frá vinnu fækkar, ævi íbúa lengist og tíðni langvarandi sjúkdóma innkar

Í átakinu Hjólað í vinnuna vorið 2008 voru alls hjólaðir og gengnir um 410 þúsund kílómetrar á 12 virkum dögum. Miðað við þær forsendur má gera ráð fyrir að ef Íslendingar nýttu eigin orku í ferðir til og frá vinnu allt árið myndi heildarsparnaður í heilbrigðiskerfinu og vegna minnkaðs vinnutaps nema um 800 milljónum króna á ári (Mannvit, 2009).

Til að meta aðstæður fyrir hjólreiðar má bera saman lengd hjólreiðastíga í nokkrum borgum Evrópu með tilliti til fjölda íbúa og stærðar borganna. Þótt ekki sé víst að flatarmálstölur byggi á samræmdum skilgreiningum gefur samanburðurinn ákveðnar vísbendingar.

Eins og sjá má af töflu 4-2 er þéttleiki byggðar höfuðborgarsvæðisins mun minni en þeirra borga sem eru til viðmiðunar. Hjólreiðastígar eru því strjálli hér, en höfuðborgarsvæðið kemur hins vegar betur út í samanburðinum þegar horft er til lengdar hjólreiðastíga á hvern íbúa.

Til að stuðla að auknum hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu mætti gera átak í uppbyggingu hjólreiðastíga og -akreina, þ.e. aðskildum hjólreiðastígum og sérstökum hjólreiðaakreinum á götum þar sem hraði bílaumferðar er 50 km/klst eða lægri.

Við mat á kostnaði við uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðar eru notuð einingaverð úr nýlegum kostnaðaráætlunum í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að heildarlengd hjólreiðakerfis höfuðborgarsvæðisins verði 900 km árið 2050 (það er 130 km í dag).

Áætlunin gerir ráð fyrir jafnri skiptingu milli nýrra stíga og sérstakra akreina fyrir reiðhjól á götum og að lokið verði við gerð 40% af nýjum stígum og akreinum árið 2020.

Frumáætlun bendir til að stofnkostnaður til 2020 verði um 5 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að stofnkostnaðurinn verði um 380 milljónir á ári frá 2009 til 2020.

Við mat á skilvirkni er gert ráð fyrir að með þessari uppbyggingu auk markvissra stuðningsaðgerða og áherslna í skipulagi byggðar aukist hlutdeild ferða sem farnar eru gangandi og hjólandi innan höfuðborgarsvæðisins úr 19% í 27% árið 2020 og 31% árið 2050.

Niðurstöður benda til að heildarávinningur verði af uppbyggingu og rekstri bættra innviða fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu nemi 37.800 kr./tonn CO2-ígilda til ársins 2020. Áætlaður ávinningur er því meiri en kostnaður (sjá töflu 4-3), en slíkar niðurstöður koma fram sem neikvæður kostnaður í töflunni.

Ávinningur byggir á minni eldsneytiskostnaði og minni kostnaði við rekstur samgöngumannvirkja. Þess ber að geta að við mat á kostnaði er einungis reiknað með kostnaði við uppbyggingu innviða, þ.e. kostnaður við stuðningsaðgerðir er ekki áætlaður. Jafnframt er sparnaður í heilbrigðiskerfi og þjóðhagslegur sparnaður vegna minnkaðs vinnutaps vegna jákvæðra áhrifa göngu og hjólreiða á heilsufar ekki tekinn með.

Miðað við gefnar forsendur má búast við að með aukinni hlutdeild göngu og hjólreiða verði hlutfallslegur samdráttur miðað við afskiptalausa þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá fólksbílum um 8% árið 2020 og um 10% árið 2050.



Skýrsluna má lesa í heild sinni hér og kaflinn um hjólreiðar er á bls. 67.

Frétt um skýrsluna er hér á vef umhverfisráðuneytisins.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl