Verið er að fella niður tolla á margskonar vörum um þessi áramót og á næstu misserum. Tollar á varahlutum í reiðhjól hefðu þó ekki verið felldir niður núna um áramótin nema vegna þess að fulltrúi í nafni LHM, Arnaldur Gylfason félagi í Fjallahjólaklúbbnum fór á fund í fjármálaráðuneytinu haustið 2014 og óskaði eftir niðurfellingu tolla á varahlutum. Hann fékk góðar viðtökur í ráðuneytinu.
Hann rökstuddi að það væri eðlilegt að fella niður tolla á varahlutum og aukahlutum í reiðhjól fyrst búið væri að fella niður tolla á reiðhjólum. Þeir sem nota reiðhjól mikið þurfa að sjálfsögðu að halda þeim við og væri þá eðlilegt að styðja við notkun hjóla með að afnema einnig toll af varahlutum. Þá er líka nokkuð ósamræmi í núverandi tollalögum þar eð stór hluti af verði hjóls eru þeir íhlutir sem þarf að bæta við á hjólið. Þeir hlutir væru þá ekki með toll ef þeir væru keyptir á hjóli en hafa toll ef þeir væru keyptir sér. Sum okkar vilja setja saman hjólin sjálf og kaupa þá hluti sem þau hafa valið sér fyrir hjólið. Í slíkum tilvikum þyrfti að greiða toll af öllum hlutum. Þannig væri mismunað eftir því hvort hjólið væri keypt heilt með öllum fylgihlutum eða keypt í hlutum og sett saman.
Í greinargerð með frumvarpinu (bls. 14) kemur fram að tillit var tekið til þessarar málaleitan:
"Þrjú frávik er þó að finna í frumvarpinu varðandi áfangaskiptinguna en þau eiga rót sína að rekja til sérstakra erinda sem bárust til ráðuneytisins. Það fyrsta varðar vara- og aukahluti fyrir reiðhjól sem bera almennt 10% toll en reiðhjólin sjálf eru tollfrjáls. Í erindinu kom fram að þeir sem nota reiðhjól í miklum mæli þurfi iðulega að kaupa vara- og aukahluti hérlendis eða flytja þá inn og meiri hluti rekstrarkostnaðar reiðhjóla félli til vegna kaupa á slíkum hlutum. Þá var bent á að það hafi færst í vöxt að hjólreiðamenn panti sjálfir hjól í pörtum erlendis frá og setji saman það reiðhjól sem þeim hentar og greiði þá fulla tolla af öllum hlutum reiðhjólsins."
Lagabreytingin, sem um ræðir er hér á vef Alþingis. Það er 14. greinin sem á við varahluti fyrir reiðhjól og fatnað. Tollar á hjólastellum, varahlutum og íhlutum í reiðhjól, ásamt fatnaði, þar með talið endurskinsfatnaði og hjálmum og skóm hafa því verið felldir niður.
Smá babb virðist þó hafa komið í bátinn í lagasetningunni varðandi reiðhjólabjöllur því rangt tollnúmer er í samþykktum lögum (nr. 8306.1010 en átti að vera 8306.1011). Fjarmálaráðuneytið er að skoða hvort þurfi að koma til lagabreytingar á Alþingi eða hvort reiðhjólabjöllur rúmist innan lagasetningarinnar með tiliti til orðalags í greinargerð með þessari grein í frumvarpinu (bls. 32). Þar kemur greinilega fram að ætlan þingins var að láta þetta ákvæði ná yfir reiðhjólabjöllur. Í versta falli gæti tollurinn áfram rukkað um toll fyrir reiðhjólabjöllur út þetta ár en 15. gr. fellir niður tolla á þessu öllu frá 1. janúar 2017.
Áður var búið að fella niður tolla á reiðhjólum frá 1. mars 2013 eins og fram kemur í þessari frétt á vef LHM. Rafmagnsreiðhjól undanþegin gerðarviðurkenningu fyrir ökutæki eru einnig tollfrjáls. Það eru rafmagnshjól með fótstigum sem þarf að stíga til að fá afl úr rafmótor og sem hætta að gefa afl við 25 km hraða.
Ljós fyrir reiðhjól hafa verið tollfrí í nokkurn tíma.
Það er ljóst að niðurfelling tolla skiptir talsverðu máli fyrir þá sem setja saman sín hjól sjálfir og fyrir þá sem nota reiðhjól mikið. Þrátt fyrir meiri hjólreiðar og aukin fjölda sem nota reiðhjólið til samgangna og æfinga hefur fjöldi reiðhjóla sem selst ekki aukist undanfarin ár eins og sjá má hér í pistli á vef LHM. Sala á varahlutum og íhlutum og fatnaði alskonar hefur stóraukist á sama tíma. Ljóst er að margir þeirra sem hjóla búa sig betur á allan hátt og halda hjólum sínum vel við. Þetta getur verið umtalsverðar kostnaður hjá sumum.
Tollnúmer
Á vef tollsins má leita að heitum og tollnúmerum.
Reiðhjól eru í tollflokkinum 8712.0000 - Reiðhjól og önnur hjól (þar með talin þríhjól til vöruflutninga), án vélar.
Ljós fyrir reiðhjól eru í tollflokkinum 8512.1000 - Ljósabúnaður eða búnaður fyrir sýnilega merkjagjöf af þeirri gerð sem notaður er á reiðhjól.
14. gr. laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016 öðlast gildi 1. janúar 2016.
Tollur á vörum í tollskrárnúmerum sem heyra undir eftirfarandi vöruliði eða eru í eftirfarandi tollskrárnúmerum í tollskrá í viðauka I við lögin verður 0% og 0 kr./kg:
4011.5000, hjólbarðar fyrir reiðhjól
4013.2000, slöngur fyrir reiðhjól
6506, Annar höfuðfatnaður, einnig fóðraður eða bryddaður: þ.á.m. 6506.1000 Hlífðarhjálmar Öryggishöfuðhlífar
8306.1010, Hér hefur sennilega átt að vera bara 8306 eða 8306.1011. Flokkurinn 8306.1010 er Bjöllur, bomöld og þess háttar en 8306.1011 eru Bjöllur fyrir reiðhjól
8714.9100–8714.9900,:
8714.9100— — Grindur og gafflar, og hlutar til þeirra
8714.9200— — Gjarðir og teinar
8714.9300— — Hjólnafir, þó ekki fóthemlanafir og hjólnafahemlar, fríhjólandi keðjuhjól
8714.9400— — Hemlar, þar með talið fóthemlanafir og hjólnafarhemlar, og hlutar til þeirra
8714.9500— — Hnakkar
8714.9600— — Fetlar og sveifargírar, og hlutar til þeirra
Einnig er í 14. gr. fleiri tollnúmer yfir fatnað, hanska, húfur og skó.
English
Import duties on bicycle spare parts, clothing and shoes in Iceland where dropped as of 1 January 2016. Previously they had been dropped on bicycles, bicycle lights and helmets. The import duty was 10% but is now 0%.