Innflutningur reiðhjóla

Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um innflutning reiðhjóla. Líka verður fjallað um innflutning fólksbíla og innflutning á rafskutlum og öðrum rafmagnshjólum. Að síðustu verður rætt um verðmæti innflutningsins og meðalverð hjólanna.

Fjöldi reiðhjóla og bíla

Á 1. mynd má sjá innflutning reiðhjóla og fólksbíla frá árinu 1999 til 2013. Á þessu árabili voru flutt inn 283.067 reiðhjól og 172.306 fólksbílar þar af voru á síðustu 10 árum flutt inn 203.218 reiðhjól og 114.074 fólksbílar.

Áhrif hrunsins á innflutning sést greinilega því árið eftir hrun árið 2009 hrynur innflutningur fólksbíla niður í um 2.500 bíla á ári en innflutningur reiðhjóla tæplega helmingast í um 15.000 á ári. Innflutningur reiðhjóla hefur síðan verið nokkuð stöðugur um 15.000 reiðhjól á ári og innflutningur fólksbíla hefur vaxið nokkuð og er nú um 7.500 stk. á ári. Íbúafjöldi Íslands 1. desember 2013 var um 325.000 manns og hafa því á s.l. 10 árum verið flutt inn reiðhjól fyrir um 62% af íbúum landsins árið 2013.



1. mynd. Innflutningur reiðhjóla og fólksbíla frá 1999 til 2013.

Vitað er að hjólreiðar hafa aukist mikið frá um 2008 til dagsins í dag þótt nýjustu tölur hafi ekki verið birtar. Hlutfall þeirra sem hjóla daglega úr og í vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðinu fór úr um 2% árið 2008 í um 5% árið 2011 (sjá t.d. Greinargerð LHM um hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu). Þrátt fyrir þetta jókst sala reiðhjóla ekki. Sennilega má skýra það með því að flestir sem tóku upp reglubundnar hjólreiðar í vinnu og skóla áttu hjól fyrir og hjóluðu endrum og sinnum. Í ferðavenjukönnun 2011 sögðust enda um 61% íbúa höfuðborgarsvæðisins hjóla einhvern tímann yfir árið og hafa því haft aðgang að eða átt reiðhjól. Samkvæmt því sem starfsmenn hjólreiðaverslana segja er nú líka mun meira að gera í viðgerðum á hjólum og mun meira selst af varahlutum sem skipta þarf um við slit og notkun en áður.

Fjöldi rafreiðhjóla og rafskutlna?

Á 2. mynd er til viðbótar við fjölda reiðhjóla og bíla sýndar tölur yfir innflutning rafknúinna hjólabretta og rafskutlna. Tölurnar yfir þessi rafknúnu tæki eru þó í raun óljósar vegna ónákvæmni í tollskrárnúmerum, sem rakið er hér að neðan. Sama mun vera upp á teningnum í öðrum löndum, að upplýsingar um fjölda innfluttra rafknúinna hjóla af mismunandi tagi fæst ekki úr tollskrá vegna þessara annmarka.



2. mynd. Innflutningur frá 1999 til 2013 á reiðhjólum og fólksbílum auk rafknúinna hjóla af ýmsu tagi eins og hjólabretta/hlaupahjóla, rafreiðhjóla og rafskutlna og vélhjóla.

Síðustu ár hefur nokkuð verið flutt inn af rafreiðhjólum en það eru reiðhjól með fótstigum og rafhjálparmótor. Þau eru undanþegin gerðarviðurkenningu samkvæmt tilskipum EB nr. 2002/24/EC, og flokkast áfram sem reiðhjól þótt þau séu með hjálparvél ef þau uppfylla eftirfarandi skilyrði: að hjálparvélin sé minni en 250W, að stíga þarf fótstig til að fá afl og að vélin dragi úr afli eftir því sem hraði eykst og hættir að gefa afl þegar 25 km/klst hraða er náð. Rafreiðhjól hafa ekki sér tollnúmer í tollskrá og því hefur innflutningur þeirra verið skráður undir önnur tollnúmer. Síðustu ár sennilega 8711.9021 en kannski líka undir tollnúmer fyrir reiðhjól 8712.0000. Rafreiðhjól á að skrá á tollskrárnúmerið 8711.9010, samkvæmt samræmdri tollskrá EB (sjá bls. 596). Sjá einnig fréttatilkynningu hér á heimasíðu Coliped i Evrópu.

Það er því ekki hægt að segja til um hversu mörg rafreiðhjól hafa verið flutt inn síðustu ár. Í þessum pistli lenda þau með því sem sennilega eru rafskutlur og venjuleg reiðhjól (2. mynd). Innflutningur á tilbúnum rafreiðhjólum, sem uppfylla tilskipun EB, hefur þó líklega ekki verið mjög umfangsmikill. Það er sennnilega mun algengara að venjulegum reiðhjólum sé breytt í rafreiðhjól af þeim fyrirtækjum innanlands, sem gera slíkar breytingar á hjólunum. Hluti þeirra eru ekki reiðhjól samkvæmt áðurnefndri tilskipun EB, vegna þess að stýring hefur verið aftengd eða hana vantar jafnvel alveg. Slík breytt reiðhjól eru í raun vélhjól og ættu samkvæmt því að þurfa gerðarviðurkenningu samkvæmt tilskipun EB. Engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda reiðhjóla sem hefur verið breytt í rafhjól hér innanlands.

Allskyns rafknúin hjól eins og skutlur (rafmagnsvespur), vélhjól, hlaupahjól, hjólabretti og þríhjól eru sett undir nokkur tollskrárnúmer, sjá lista yfir tollskránúmer og skilgreiningu á þessum tækjum að neðan. Óljóst er um hverskonar tæki er um að ræða í tollskránni en leiða má líkum að því hvaða tæki hafa verið ríkjandi í innflutningnum ákveðin ár útfrá meðalverði tækjanna.

Á fyrsta áratug aldarinnar fyrir hrun var innflutningur þessara tækja nokkur en líklega var nær eingöngu um rafknúin hjólabretti og hlaupahjól að ræða. Það má ráða af því að meðalverð þessara tækja var lágt árin 2004-2006, um 3.000 kr. á hafnarbakkanum (Cif. meðalverð á tæki, 4. mynd). Árið 2007 hækkar meðal Cif verð upp í 9.200 kr. en árin 2010 er meðal Cif. verð 84.300 kr. en næstu þrjú ár er það um 67.000 kr. Þetta styður það að um ólíka samsetningu tækja sé að ræða á þessum tímabilum. Á 2. og 3. mynd er því gert ráð fyrir að árin 2004 til 2007 séu öll influtt rafknúin hjól hjólabretti eða hlaupahjól en árin 2010 til 2013 er gert ráð fyrir að öll þessi tæki séu rafskutlur en þetta er auðvitað einföldun.

Ef þessi forsenda stenst hafa verið flutt inn um 3.000 rafskutlur siðast liðin fjögur ár. Á fjórum árum frá 2004 til 2007 voru líklega flutt inn um 10.000 rafknúin hlaupahjóla/hjólabretti. Lítið sést af þeim í umferð í dag. Árin 2008 og 2009 er undarleg lægð í innflutningi rafknúina hjóla, sem e.t.v. er vegna rangrar skráningar á tollskrárnúmer en það gæti líka verið raunveruleg afleiðing af hruninu.

Verðmæti og meðalverð á hafnarbakka.

Á 3. mynd er sýnt verðmæti innfluttra tækja á hafnarbakkanum (Cif. verð) og á 4. mynd er sýnt meðalverð á hafnarbakka (Cif. verð). Verðmæti innfluttra reiðhjóla árið 2013 var tæplega 500 milljónir króna. Innflutningur rafskutla miðað við gefnar forsendur að ofan var þá um 80 milljónir kr.

3. mynd. Verðmæti innflutnings árin 1999 til 2013 (Cif. verð á hafnarbakka komið til landsins kr.) á reiðhjólum og rafknúnum hjólabrettum/hlaupahjólum og rafskutlum/vélhjólum.

Fjöldi innfluttra reiðhjóla hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár (1. mynd) þannig að meðalverð hefur hækkað (4. mynd). Hluti af skýringunni er verðbólga og gengi krónunnar, sem er ekki reiknað inn í þetta. Þá er líklegt að samsetning innflutnings hafi breyst nokkuð og að flutt séu inn dýrari og vandaðri hjól í takt við aukin áhuga á hjólaíþróttinni og að hjólreiðar hafa aukist mikið á þessu tímabili. Þeir sem hjóla mikið og þeir sem eru í keppnum kaupa sér dýrari hjól. Algengt verð á reiðhjólum í verslun var 50-100.000 kr. fyrir nokkrum árum en nú nær verðskalinn upp fyrir 1 milljón og algengt er að sjá hjól á bilinu 100-500.000 kr. og talsvert selst af þessum dýrari hjólum.

Meðalverð rafskutla hefur haldist stöðugur undanfarin fjögur (4. mynd) ár en markaðurin vaxið með meiri fjölda (2. mynd og 3. mynd).

4. mynd. Meðalverð árin 1999 til 2013 (Cif. meðalverð á tæki á hafnarbakka komið til landsins kr.) á reiðhjólum og rafknúnum hjólabrettum/hlaupahjólum og rafskutlum/vélhjólum.


Mat á stærð reiðhjólagreinarinnar.

Það má með lauslegum útreikningi áætla stærð reiðhjólagreinarinnar útfrá innflutningstölum á reiðhjólum og ef maður gefur sér forsendur um aðra þætti. Það er ekki ólíklegt útfrá útreikningi í Töflu 1. hér að neðan að reiðhjólagreinin hafi velt yfir 2 milljörðum króna árið 2013 og skilað tæpum 450 milljónum í vsk. í ríkiskassann. Einhverjir tollar og vörugjöld koma til viðbótar af fatnaði og varahlutum en tollar af reiðhjólum voru felldir niður 1. mars 2013. Í þessum útreikningi er ekki tekin með hluti vélhjólanna eins og rafskutlanna sem hafa verið vinsælastar undanfarin ár.

Tafla 1. Áætluð velta reiðhjólagreinarinnar árið 2013 í þús. kr.

Reiðhjól Fatnaður og varahlutir Viðgerðir Samtals  Vsk. Samtals með Vsk.
1.000.000 500.000 200.000 1.700.000 435.000  2.150.000


 
Tillaga að endurskoðun tollskrárnúmera.

Í framhaldi af þessari grein sendi LHM tillögu á Fjármála- og efnahagsráðuneytið um endurskoðun tollskrárnúmera fyrir reiðhjól og rafknúin hjól sjá hér að neðan.
 


English

The article gives an overview of the import of bicycles, passenger cars and electric powered mobility devices like pedelecs (eBikes), mopeds, scooters and skateboards, over the period 1999 to 2013. Over the 10 year period ending 2013, 203.218 bicycles and 114.074 passenger cars where imported (Figure 1). In the Icelandic economic crash of 2008 the import of cars plummeted and the import of bicycles was halved to ca. 15.000 units.

Although bicycling has increased 2-3 fold from 2008 to 2012 (from 2%-5% in the capital area of Reykjavik) bicycle sales have not increased. A probable reason is that bicycle ownership was quite high so people did not have to buy a bicycle to start riding one. In a travel survey 2011 61% of the population of the capital area cycled at some time during the year and therefore owned or had access to a bicycle. The value and price of the sold bicycles have increased (Figure 4.) and the staff of bike shops acknowledge a big increase in the sale of spare parts and bicycle repairs.

The Custom Tariff numbers for the electric devices does not permit a detailed count of the different types. In the article it is estimated from the mean price of each unit in these years (Figure 4.) that most of these devices in the period 2004-2007 where scooters and skateboards and during the period 2010-20113 where mopeds (Figure 2.).

A rough estimate of the size of the bicycle "industry" in Iceland is about 2 billion IKR.

reiðhjól = bicycle;

fólksbíll = passenger car;

rafreiðhjól = pedelec;

rafskutlur = electric moped with að speed limit of 25 km/hour;

rafvélhjól = electric moped without speed limit;

hlaupahjol = scooter;

hjólabretti = skateboard

raf- = electric



Flokkun reiðhjóla og rafknúinna reiðhjóla og vélhjóla

  1. Rafreiðhjól, sem eru undanþegin gerðarviðurkenningu samkvæmt tilskipum EB nr. 2002/24/EC, en það eru reiðhjól með hjálparmótor sem uppfylla eftirtalin skilyrði: að hjálparvélin sé minni en 250W, að stíga þarf fótstig til að fá afl og að vélin dragi úr afli eftir því sem hraði eykst og hættir að gefa afl þegar 25 km/klst hraða er náð. (h. cycles with pedal assistance which are equipped with an auxiliary electric motor having a maximum continuous rated power of 0,25 kW, of which the output is progressively reduced and finally cut off as the vehicle reaches a speed of 25 km/h, or sooner, if the cyclist stops pedalling,)
  2. Rafskutlur, sem eru rafvélhjól sem hætta að gefa afl við 25 km/klst og eru með takmarkaða vélarstærð.
  3. Rafvélhjól, sem hafa ekki hraðatakmörkun við 25 km/klst og geta haft mismunandi vélarstærð og hraða.
  4. Önnur raffarartæki, mest rafhjólabretti og rafhlaupahjól, gjarnan með 6-15 km/klst hraða.

 

Upplýsingar í þessum pistli eru byggðar á gögnum Hagstofu Íslands .
Leitað var eftir eftirfarandi tollskrárnúmerum:
87119021 - Rafknúin hlaupahjól og vélhjól með hjálparvél gerð fyrir aksturshraða => 8 km en < 15 km á klst.
87119029 - Önnur rafknúin vélhjól með hjálparvél
87119031 - Vélknúin hlaupahjól og bifhjól með hjálparvél gerð fyrir aksturshraða => 8 km en < 15 km á klst., ót.a.
87119039 - Önnur vélknúin bifhjól með hjálparvél, ót.a.
87120000 - Reiðhjól og önnur hjól án vélar

Tillaga að nýjum tollskrárnúmerum:
8711 90 10 - Rafreiðhjól undanþegin gerðarviðurkenningu samkvæmt tilskipum EB nr. EB 2002/24/EC, það er reiðhjól með minni en 250W rafvél, þar sem knýja þarf fótstig til að fá afl og vélin dregur úr afla eftir því sem hraði eykst og hættir að gefa afl þegar hraðanum 25 km/klst er náð.
8711 90 90 10 - Rafknúin vélhjól með hámarkshraða 25 km/klst. (rafskutlur)
8711 90 90 20 - Rafknúin hlaupahjól og hjólabretti með hjálparvél gerð fyrir aksturshraða => 8 km en < 15 km á klst.
8711 90 90 30 - Rafknúin vélhjól önnur, vélarstærð ??
Hér væri hægt að bæta við númerum fyrir mismunandi vélarstærð í kW ... 8711909040, -50, -60, 70, o.s.frv.
87120000 - Reiðhjól og önnur hjól án vélar
 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl