Vegna fyrsta banaslyssins í 18 ár

Stjórn LHM harmar þann atburð sem varð í Ártúnsbrekkuna í gær þegar bifreið var ekið á hjólreiðamann með þeim afleiðingum að hann lést. Hugur okkar hvílir hjá fjölskyldu þess látna og ökumanninum.

LHM hefur nú í 20 ár barist fyrir samfelldu neti hjólaleiða um allt höfuðborgarsvæðið og lagt mikla áherslu á að lagðar séu hjólabrautir meðfram þeim umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins þar sem umferðarþungi / hraði er yfir viðmiðunarmörkum. Þó svo að mikið hafi áunnist í gerð slíkra stíga undanfarin ár er þeirri vinnu þó engan veginn lokið og samfellu vantar t.a.m. í stígakerfið á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ og Hafnarfirði, á Reykjanesbraut í Kópavogi og Garðabæ og á Vesturlandsvegi í gegnum Ártúnsbrekku.

Það verður að gera þeim sem ferðast á hjóli, ganga og/eða nota almenningssamgöngur jafn hátt undir höfði og þeim sem velja að nota einkabílinn. Mikilvægt er að viðhald og þjónusta stíga sé með þeim hætti að hún styðji við fjölbreytta ferðamáta allt árið. Í ljósi tíðra frétta af beinbrotum og tognunum vegna hálkaslysa er ljóst að það eru tækifæri til umbóta.

Síðasta banaslys hjólreiðamanns varð fyrir 18 árum, árið 1997. Hjólreiðar eru öruggur fararmáti. Allar rannsóknir sýna að fólk sem hjólar reglulega lifur lengur en þeir sem hjóla ekki og þjást síður af heilsuleysi. Kostir hjólreiða eru tuttugu faldir á við áhættuna.

Virðingarfyllst, Stjórn LHM

Helstu baráttumál LHM