Það þarf ekki að taka fram hvað þetta getur verið hættulegt. Ef hjólið fer undan getur reiðhjólið kollsteypst og sá sem er á hjólinu getur slasast illa og jafnvel hlotist af stórslys. Það er talið að þetta hafi verið viljaverk og ef svo er fordæma Landssamtökin slíka framkomu.
Það kemur upp við og við í fréttum að talið er að hjól hafi verið losuð undan og víst er að það er auðvelt að losa þau hjól sem eru fest með "snarleysi" eða "sveifróm", það sem á ensku er kallað "quick release". Þegar venjulegar rær eru notaðar til að festa hjólin á reiðhjólið þarf lykil til að losa hjólin og þau eru því öruggari. Þannig frágangur er algengari á hjólum yngri barna. Mikilvægt er að líta yfir að hjólin séu föst og að kenna börnum að sjá hvenær þau eru laus og hvetja þau til að láta foreldra vita ef eitthvað er að.
Snarleysar geta losnað fyrir slysni, t.d. ef þeir krækjast í þegar verið er að færa hjólið úr stæði. Það er ágætis regla að læsa hjólinu við bogastæði með hægri hliðina upp að, en snarleysar eiga að vera vinstra megin á hjólinu og því er kannski minni hætta að krækja í ef hægri hliðin liggur að stæðinu. Ef mörg hjól eru saman í kös er hættari við að snarleysar losni fyrir slysni og því er gott að leggja hjólum í stæði.
Steinar Kjartansson vélfræðingur[4] hefur bent á að það er hægt að minnka líkur á að hjól losni og tefja fyrir skemmdarvörgum með því að festa arminn á snarleysinum með plastbensli eða dragbandi um gaffalinn. Ekki eru þó allir armar með hentugu gati en hægt er að skipta um pinna og fá arm með gati ef menn vilja. Hér er mynd af slíku dragbandi sem festir arminn við gaffalinn[4]:
Hér er mynd af lausum armi á snarleysi. Þá liggur hjólið laust í gafflinum. Það getur þá dottið undan sérstaklega ef farið er fram af kanti eða tekið stökk. Ef snarleysirinn er ekki losaður alveg tekur það jafnan smá tíma fyrir hjólið að losna alveg undan ef þetta er framhjól en fyrr ef það er afturhjól. Í framgafflinum eru brúnir sem halda hjólinu en engar slikar brúnir eru i afturgaflinum. Það þarf að festa lausan snarleysi strax.
Hér er mynd af föstum armi. Þá er hjólið fast í gafflinum ef rétt er hert.
Hér er myndband á Youtube sem lýsir því hvernig snarleysir er notaður.
Hér er fjallað um snarleysa á heimasíðu Sheldon Brown.
Fréttirnar sem vísað er til eru hér:
[1] Táningur tvíbrotinn eftir að dekk var losað af hjólinu
[3] Kristofer Óskar með skurð og brotna tönn eftir að dekkin á hjóli hans voru losuð
[4] Plastbensli trufla óbermi sem vilja losa dekk á hjólum