Rétt er að LHM sendu Vegamálastjóra bréf árið 2010 m.a. vegna þess að aðstæður til hjólreiða á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi (1. mynd) og á Suðurlandsvegi í Svínahrauni (2. mynd) höfðu versnað til muna þegar Vegagerðin lét fræsa í vegaxlirnar. Vegaxlirnar voru ekki nógu breiðar utan við hið fræsta svæði og væri ekki annað hægt að segja en að þessi fræsing hafi skapað hættu fyrir hjólreiðafólk. Aðstæður í Svínahrauni eru að því leyti verri að þar var líka sett vegrið milli akreina og hindrar það ökumenn í að taka fram úr hjólandi með nægilegu hliðarbili eins og skylt er samkvæmt umferðarlögum. Sléttar, breiðar og góðar vegaxlir eru mikilvægar fyrir öryggi allra vegfarenda á þjóðvegum. Fullnægjandi vegöxl með rifflum má sjá á 3. mynd.
Með þessum framkvæmdum freistaði Vegagerðin þess að auka öryggi akandi vegfarenda en það var því miður gert á kostnað öryggis hjólandi á þessum þjóðvegum. Fræsingin var gerð án þess að lagfæra vegaxlirnar og þrátt fyrir að veghönnunarreglur Vegagerðarinnar gera ráð fyrir breiðum og góðum vegöxlum. Landssamtökin óskuðu eftir því að þessir vegir yrðu lagfærðir sem fyrst og vegaxlir endurbyggðar í samræmi við veghönnunarreglurnar.
Endurgerð og breikkun vegaxla er eitt af þeim atriðum sem Landssamtök hjólreiðmanna hafa lagt áherslu á í sínum stefnumálum. Ljóst er að sérstakir stígar verða seint lagðir meðfram öllum þjóðvegum og því munu hjólandi hér eftir sem hingað til nota þjóðvegi landsins til ferðalaga. Þá er mikilvægt að þjóðvegirnir verði endurbyggðir sem nútíma vegir með fullnægjandi vegöxlum enda gagnast sú framkvæmd öllum vegfarendum.
Það má benda á að sú framkvæmd sem G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðinnar, bendir á í fréttinni mun ekki hjálpa til á Kjalarnesi né í Svínahrauni. Engar rifflur eru á kaflanum frá Þingvallaafleggjara að Mógilsá og vegaxlir með skárra móti á þeim hluta vegarins. Vegurinn í Svínahrauni er nýr en ekki byggður í samræmi við veghönnunarreglur og virðist ekki vera í framkvæmdaröðinni hjá Vegagerðinni í núverandi samgönguáætlun. Vegurinn um sjálfa Hellisheiðina er með skárra móti enda vegaxlir sæmilega breiðar þar.
Landssamtökin telja að öðru leyti eðlilegt að sérstakir stígar verði lagðir meðfram helstu stofnbrautum útfrá höfuðborgarsvæðinu enda er um umferðarmikla vegi með hraðri umferð og finnst flestum óþægilegt að hjóla á slíkum vegum. Slíkir stígar ættu í fyrstu að ná upp í Hvalfjörð, austur fyrir fjall og til Keflavíkur. Í umhverfismati fyrir Reykjanesbraut og Suðurlandsveg hefur enda verið gert ráð fyrir stígum meðfram þessum vegum en ekkert orðið úr framkvæmdum. Þá má geta þess að mörg sveitarfélög eru nú að teikna upp sérstaka stíga fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur í aðalskipulagi og er það vel.
1. mynd. Rifflurnar og vegöxlin á Kjalarnesi.
2. mynd. Rifflurnar, vegrið milli akreina og vegöxl í Svínahrauni.
3. mynd. Fullnægjandi vegöxl og rifflur á erlendum þjóðvegi.