Vetrarhjólreiðar eru ekkert mál

Það er algjör óþarfi að setja reiðhjólið inn í geymslu þó svo að veturinn sé genginn í garð. Hins vegar er kjörið að útbúa hjólið þannig að hjólreiðaferðin gangi sem best.

Góð ljós að framan og aftan
Góð ljós að framan og aftan eru nauðsynleg í vetrarskammdeginu. Ný kynslóð LED ljósa er mun öflugri en það sem var í boði fyrir bara 2-3 árum og rafhlöðurnar endast betur en í hefðbundnum ljósum svo það getur verið full ástæða til að kíkja í næstu hjólabúð og endurnýja ljósin. Rafhlöður hafa styttri líftíma í kulda, og því þarf að muna að endurnýja þær reglulega, eða endurhlaða séu notaðar hleðslurafhlöður. Sum hjól eru útbúin með rafal og þá er aldrei hætta á rafmagnsleysi.

Bretti og aurhlífar
Góð bretti hlífa fötunum og hjólinu sjálfu fyrir slabbi, bleytu og salti. Bretti sem eru skrúfuð á stell reiðhjólsins og ná vel niður virka best. Góð aurhlíf neðst á frambretti hjálpar til við að halda skóm þurrum og hlýjum. Einföld bretti sem smellt eru á hjól gagnast minna.

Nagladekk
Þeir sem prófað hafa mæla eindregið með nagladekkjum undir reiðhjólið, sér í lagi ef maður ætlar sér að nota reiðhjólið reglulega í vetur. Hálkan á höfuðborgarsvæðinu er lúmsk, gerir ekki alltaf boð á undan sér og getur verið mjög staðbundin. Til eru ýmsar gerðir nagladekkja með mismörgum nöglum. Mestu skiptir þó með vetrar- eða nagladekkinn að gúmmíblandan í vetrardekkjunum harðnar ekki eins í kulda líkt og ódýru sumardekkin gera. Allt þýðir þetta aukið grip og gera hjólreiðarnar yfir veturinn auðveldari.

Fatnaður
Það þarf alls ekki sérstakan hjóla sportfatnað til að hjóla milli staða á veturna. Vel flestar vetrarflíkur henta vel og nú eru sumar hjólreiðaverslanir jafnvel farnar að bjóða fatnað sem lítur út eins og tískufatnaður en eru sniðin með hjólreiðar í huga.

Gefðu þér góðan tíma til að komast á milli staða og hjólaðu bara rólega, þá ertu ekkert að svitna. Þó er vert að huga að nokkrum atriðum. Til að verjast kuldanum og bleytunni gera margir þau mistök að klæða sig of mikið. Við hjólreiðarnar hitnar líkaminn, og sá hiti og raki sem myndast þarf að komast út úr skjólflíkunum, án þess að hleypa of miklu af köldu vetrarlofti að líkamanum. Þess vegna er ekki gott að vera kappklæddur þegar lagt er af stað á reiðhjólinu á köldum vetrarmorgni. Betra er að hafa aukafatnað með í vatnsþéttri tösku eða í plastpoka í hjólatöskunni. Ekki þarf að fara mikið fyrir slíkum aukafatnaði en aldrei er meiri fjölbreytni í íslensku veðurfari en einmitt á veturnar og þá getur regnjakki og buxur, aukavettlingar, þykkari eða þynnri peysa í hjólatöskunni komið sér vel.

Fatnaður úr svokölluðum öndunarefnum er hentugur sem ysta skjólflík en ekki alltaf nauðsynlegur ef hann er vel hannaður. Gott getur verið að hafa nokkur op t.d. undir höndum sem hægt er að nota til að stýra loftflæði með rennilásum.  Margir klæðast skjólflíkum sem eru aðeins vatns- eða vindheld að framanverðu, en úr fleece eða öðrum gerviefnum á baki. Þannig klæðnaður dugar líka ágætlega að vetrarlagi. Kostir hans eru til dæmis þeir, að umframhiti og raki leita út um bakhluta klæðnaðarins. Þannig verður þeim sem hjólar, aldrei of heitt og rakamyndun vegna svita er lítil.

Innst fata er dugar vel að vera í þunnum bol úr efni sem hleypir vel í gegnum sig raka. Bómullarbolir henta síður, þar sem bómullarefni safnar í sig rakanum og eru lengi að þorna. Sumum finnst best að vera bara í peysu úr góðu fleece- eða gerviefni, og engu þar innanundir.

Yst fata er gott að vera í síðum buxum úr efni sem heldur vel hita og er ekki mjög rakadrægt. Ýmsar íþróttabuxur eða útivistarfatnaður kemur til greina.

Skóhlífar og hjólavettlingar
Til fóta getum við verið í sömu skóm og þegar við hjóluðum í sumar. Notast má við venjulega íþróttaskó, góða gönguskó eða kuldaskó í svipuðum stíl. Ef skórnir eru viðkvæmir er hægt að kaupa sérstakar skóhlífar sem verja okkur fyrir bleytu og slabbi.

Ekki má gleyma höndunum en í hjólaverslunum er mikið úrval af hjólavettlingum fyrir veturinn.

Bremsur og gírar
Bremsur þarf að stilla vel og athuga oft, bremsugetan minnkar að vetrarlagi, einkum vegna bleytu sem sest á gjarðirnar á dekkjum reiðhjólsins. Skálabremsur eru orðnar algengar á nýjum hjólum enda halda þær eiginleikum sínum betur við t.d. vetraraðstæður.

Keðjuna þarf einnig að smyrja reglulega á veturna svo hún endist betur.

Svo er bara að leggja varlega af stað. Það er gaman að hjóla á veturna.



Heimild: Íslenski fjallahjólaklúbburinn.
Ljósmynd: hjólreiðar.is
Birtist í aðeins breyttri útgáfu í fríritinu Heilsan, nóvember 2012.

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.