Ferðir og fjör í Fjallahjólaklúbbnum

Hrönn

Það er gaman að hjóla, einn eða með öðrum, og gott að fá leiðbeiningar hjá þeim sem hafa reynslu, hvort sem er í tæknilegum málum eða einhverju öðru. Þá er kjörið að skella sér í heimsókn til Íslenska fjallahjólaklúbbsins en hann er fyrir alla sem nota reiðhjól sem samgöngutæki, en það er góður kostur í krepputíð þegar bensínlítrinn kostar svo mikið sem raun ber vitni.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn er hugsaður fyrir alla sem eiga reiðhjól, sama hvernig hjól það er og hvort sem fólk hjólar til og frá vinnu daglega eða skreppur stundum í hjólreiðatúr,« segir Hrönn Harðardóttir sem er í stjórn Íslenska fjallahjólaklúbbsins. »Við erum með klúbbhúsnæði á Brekkustíg 2 og þar er opið hús hjá okkur einu sinni í viku og þá getur fólk komið, hvort sem það vill spjalla á efri hæðinni eða láta líta á hjólið sitt í viðgerðaraðstöðunni sem við erum með á neðri hæðinni. Þar er hægt að fá aðstoð við minniháttar lagfæringar, stilla bremsur og gíra, skipta um dekk og bremsupúða, teina upp gjarðir eða skipta um olíu í dempara. Það eru alltaf einhverjir reynsluboltar á svæðinu sem eru tilbúnir til að aðstoða.« Klúbburinn stendur fyrir vikulegum hjólaferðum á þriðjudögum yfir sumartímann og Hrönn leiðir einmitt þær ferðir sem hefjast 10.maí. »Þetta eru tveggja til þriggja tíma ferðir og góðar fyrir þá sem eru byrjendur og langar að læra að rata um helsta nágrenni Reykjavíkur á hjóli, Heiðmörkina og önnur svæði. Þeir sem eru vanir vita hvar hjólreiðastígar eru. Við erum líka með skipulagðar lengri ferðir yfir sumarið og þær eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Þetta eru allt frá fjölskylduferðum yfir í harðjaxlaferðir. Fyrsta ferðin okkar verður í maí um Evróvisjónhelgina, en þá hjólum við til Nesjavalla. Þetta er árviss viðburður og gist verður á Hótel Hengli, við borðum saman og horfum saman á söngvakeppnina.«

Úr Nesjafallaferð

Árlegt Gaman er í árvissri hjólaferð til Nesjavalla um Evróvisjónhelgi.

Alltaf trússbíll með í för

Lengri ferðirnar eru af ýmsum toga og má þar nefna fjölskylduferð í Borgarfjörðinn í byrjun júní. »Þá þurfa ekki allir nauðsynlega að hjóla, sumir geta bara haft það huggulegt í tjaldútilegu á meðan hinir hjóla. En svo eru harðari ferðir líka, til dæmis verður þriggja daga hjólaferð um Snæfellsnesið og planið er að fara yfir allar heiðarnar þar. En í flestum ferðum er trússbíll sem fylgir og því er alltaf hægt að redda málunum ef eitthvað kemur upp á. Hjólandi fararstjóri er líka alltaf með í för.«

Hrönn segir fólk á öllum aldri mæta í ferðirnar og vissulega með mismunandi getu. »Sá sem hefur stundað hjólreiðar í mörg ár getur augljóslega hjólað meira en sá sem er byrjandi. Þess vegna bjóðum við upp á bæði léttar ferðir og erfiðar, svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Krakkar eru líka mjög misdugleg að hjóla, til dæmis hefur 10 ára strákur komið í lengri ferðir og farið létt með að hjóla á við okkur fullorðna fólkið.«

Hrönn segir ekki nauðsynlegt að ganga í klúbbinn til að fara í hjólaferðir á hans vegum, en þó getur það komið sér vel, því oft er afsláttur á gistingu fyrir félagsmenn. »Og það er líka afsláttur í hjólabúðum fyrir klúbbfélaga, svo það margborgar sig að vera meðlimur ef fólk þarf að kaupa hjól, dekk eða eitthvað annað.« Hrönn segir Fjallahjólaklúbbinn vera grasrótarsamtök sem m.a. berjist fyrir réttindum hjólreiðafólks. »Við berjumst líka fyrir bættri aðstöðu fyrir hjólreiðar, það finnst okkur helst vanta. Hjólamenningin hér á landi er frekar slök en fer þó batnandi.« Hjólið hennar Hrannar er hennar aðal-farartæki, hún fer allra sinna ferða á því. »Hjóladellan hefur komið og farið hjá mér, ég sinnti henni minna meðan börnin mín voru lítil en byrjaði svo aftur af krafti fyrir um tveimur árum og gekk þá í Fjallahjólaklúbbinn en það kom sér vel, því maður er svo grænn þegar maður er byrjandi og gott að fá leiðbeiningar. Ég var á lélegu hjóli og illa klædd til að byrja með en bætti fljótt úr því.«

Úr ferð með Fjallahjólaklúbbnum

Hressandi Þau voru heldur betur frískleg og kát sem hjóluðu með klúbbnum um Skorradalinn árið 2009.

Hjólaði 160 km einn daginn

Hrönn fór ásamt klúbbmeðlimum í þriggja daga ferð um Veiðivötn í fyrra og hún ætlar að vera með ferðakynningu í klúbbhúsinu 31. mars, sýna myndir og myndband og segja frá. »Við hjóluðum 60 kílómetra á tveimur dögum, en veður var vont og við fórum frekar hægt yfir. Venjulega er miðað við að fólk hjóli um 40 kílómetra á dag í lengri ferðunum. Mesta sem ég hef hjólað er 160 kílómetrar á einum degi, en það var þegar ég hjólaði ásamt tveimur vinkonum mínum hálfan Kjöl, frá Hveravöllum til Reykjavíkur á tveimur dögum. Það var mjög skemmtilegt en við þurftum að vera ansi lengi að seinni daginn þegar við skiluðum 160 kílómetrum.«

garpar

Garpar Vinkonurnar Hrönn (lengst t.v), Unnur Bragadóttir og Björg Árnadóttir hjóluðu frá Hveravöllum til Reykjavíkur á tveimur dögum og seinni daginn hjóluðu þær hvorki meira né minna en 160 kílómetra.


BÆÐI FJÖLSKYLDU- OG HARÐJAXLAFERÐIR

Ferðir í sumar

10. júní: Hjólað í nágrenni Skarðsheiðar og gist í Svínadal. Hjólað umhverfis Skorradalsvatn á 1. degi. Hjólað umhverfis Skarðsheiði á 2. degi og 3. d...

10. júní: Hjólað í nágrenni Skarðsheiðar og gist í Svínadal. Hjólað umhverfis Skorradalsvatn á 1. degi. Hjólað umhverfis Skarðsheiði á 2. degi og 3. daginn hjólað frá Svínadal niður í Hvalfjörð. Hreppslaug. Gisting: hús/tjöld/tjaldvagnar. Vegalengd 100 km.

16. júní: Jökulháls og Fróðárheiði á 1. degi. Kerlingaskarð og Heydalavegur á 2. degi og Haukadalsskarð á 3. degi. Gisting: tjöld í tvær nætur á Arnarstapa. Síðustu nóttina gist við Eldborg í bændag./tjöldum. Krefjandi ferð. Vegalengd 180 km.

3. júlí: Dagsferð: Þingvellir - Stíflisdalur. Grillað í bústað. Vegalengd: 30 km.

13. ágúst: Landmannalaugar - Hella. Ekið í Laugar á laugardagsmorgni og hjólað samdægurs í Dalakofann og gist. Á sunnud. hjólað á Hellu. Vegalengd: 120 km.

21. ágúst: Dagsferð: Skarðsheiði. Fjallahjólahringur í kringum Skarðsheiði. Krefjandi ferð. Vegalengd: 48 km.

9. sept: Sýsluferð: Hjólað um Árnessýslu eftir leyndum stígum, götum og troðningum. Gisting: Ferðaþjónustan í Hólaskógi. Vegalengd: 80 km.

www.fjallahjolaklubburinn.is


Greinin birtist í Morgunblaðinu 22 mars 2011

{jathumbnail off}

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.