Dæmt var samkvæmt umferðarlögunum sænsku en skv. þeim er hjólreiðamönnum skylt að nota hjólastíg ef hann er fyrir hendi en þeim er þó heimilt að nota götuna ef sérstakrar aðgæslu er gætt, ef það er hentugra út frá áætlunarstað hjólreiðamannsins. Andreas viðurkenndi að hafa hjólað eftir götunni. Hinsvegar hélt hann því fram að það hafi verið hentugra að nota götuna því hann sé keppnishjólreiðamaður og hjóli hratt og það fari illa saman við gangandi umferð á hjólastígnum, sem er með blandaðri umferð gangandi og hjólandi. Auk þess sé gróður alveg upp að stígnum og blindhorn sem fólk geti komið út um. Ferð hans á götunni hafi auk þess verið hentugri út frá áætlunarleið því hann ætlaði nokkru síðar að taka vinstri beygju inn á stíg í annari götu. Staðsetningar eru sýndar á loftmynd í málsskjölum (2. mynd). Á 3. mynd er mynd tekinn úr Goggle streetview sem sýnir nokkurnveginn staðinn sem áreksturinn varð á. Spurning er hvort hann hafi orðið á kaflanum með miðeyjunni eða þar sem henni sleppir. Það kemur ekki fram í málsgögnum.
Dómarinn dæmdi hann sekan um að hafa hjólað á götunni og að mótbárur hans um að gatan hafi verið hentugri út frá áætlunarleið hans ætti ekki við, því stígur hafi verið beggja vegna vegarins og að þetta ætti fyrst og fremst við ef stígur væri aðeins vinstra megin og hann hafi ætlað til hægri. Ekki kom fram hvaðan þessi þrönga túlkun dómarans á undanþágu ákvæðinu væri kominn. Hugsanlega eru þetta lagaskýringar við sænsku umferðarlögin.
Ökumaðurinn var sýknaður af þvi að hafa ekki haldið nægilegu hliðarbili í framúrakstri því það var ekki hafið yfir vafa. Það voru því ekki færðar sönnur á sekt hans. Að mínum dómi var málið ekki rannsakað nægjanlega af lögreglu ef miðað er við þau málsgögn sem voru lögð fyrir dóminn. Til dæmis vantaði upplýsingar um nákvæma staðsetningu áreksturs á götunni, ummerki á hjóli eða bíl eftir árekstur, hraða ökutækjanna, breidd akbrautar og breidd bílsins.
Nýjustu fréttir eru nú um það að dómnum hefur verið áfrýjað á næsta dómsstig.
Hvaða þýðingu hefur svo þessi niðurstaða ef einhverja fyrir íslenskar aðstæður? Í núverandi umferðarlögum eru ekki ákvæði sem skylda hjólreiðamenn til að nota hjólastíga eða annan aðbúnað fyrir hjól. Reiðhjólið er ökutæki og ber að hjóla á akbraut en þó er heimilt að hjóla á gangstéttum eða göngustígum „enda enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum“, eins og segir í 39. grein.
Í frumvarpi til umferðarlaga, sem var lagt var fram á síðasta þingi eru þó ákvæði sem skylda hjólreiðamenn til að nota sérstakan aðbúnað og varða brot sektum.
Í 41. gr. frumvarpsins segir:
2. mgr. „Hjólreiðamaður skal hjóla á hjólastíg eða hægra megin á akrein þeirri sem lengst er til hægri og ætluð er almennri umferð. ....“
4. mgr. „... Þegar gangstétt eða göngustíg hefur verið skipt upp með miðlínu í rein fyrir gangandi vegfarendur annars vegar og hjólreiðamenn hins vegar skal hjólað á viðeigandi rein. Ef hjólastígur er samhliða göngustíg er einungis heimilt að hjóla á hjólastígnum. ....“
Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. er eftirfarandi skýringartexti við 41. gr.
„ Ákvæði 1., 2. og 5. mgr. eru samhljóða samsvarandi málsgreinum 39. gr. gildandi laga. Þó er bætt við 2. mgr. ákvæði um að hjólreiðamaður skuli hjóla á hjólastíg, þ.e. ef hann er til staðar.“
„Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði það nýmæli í 2. málsl. 4. mgr. að einungis sé heimilt að hjóla á viðeigandi rein þegar gangstétt eða göngustíg hefur verið skipt upp með miðlínu í reinar fyrir gangandi vegfarendur annars vegar og hjólreiðamenn hins vegar. Er nauðsynlegt að setja slíka reglu þar sem í vöxt færist að beinlínis sé gert ráð fyrir hjólandi vegfarendum á gangstéttum og göngustígum. Enn fremur er gert ráð fyrir því að þar sem sérstakur hjólastígur er lagður nálægt göngustíg skuli hjólreiðamaður nota hjólastíginn.“
Um refsingar fyrir brot er varða sektum er fjallað í 94. gr. og þar er meðal annara greina, 41. greinin talinn upp
Það er ljóst að með núverandi frumvarpi til umferðalaga opnast fyrir möguleikann að hjólreiðamenn verði dæmdir til sektar fyrir að hjóla ekki á sérstökum mannvirkjum fyrir reiðhjól. Það er alveg ljóst af orðalagi að það yrði brot á umferðarlögum, að hjóla á rein fyrir gangandi, þegar gangstétt eða göngustíg hefur verið skipt upp með miðlínu í rein fyrir gangandi og hjólandi. Sömuleiðis yrði það ótvírætt brot á umferðarlögum að hjóla á göngustíg ef hjólastígur er samhliða göngustíg. Orðalagið er ekki eins skýrt við 2. mgr. frumvarpsins þar sem segir „... skal hjóla á hjólastíg eða hægra megin á akrein ....“. Þegar skýringar við ákvæðið er skoðað er þó ljóst við hvað er átt hjá löggjafarvaldinu en þar er notað orðalagið „... hjólreiðamaður skuli hjóla á hjólastíg, ...“. Sennilega mundi dómstól dæma hjólreiðamann sekan ef þetta kæmi til skoðunar miðað við þennan texta.
Í umsögn við frumvarp til umferðarlaga mælti LHM gegn því að sett yrðu ákvæði sem skylda hjólreiðamenn til að nota sérstakan aðbúnað. Ástæðan er einföld. Hjólreiðamenn á Íslandi eins og í flestum öðrum löndum hafa ekki nógu góða reynslu af gerð sérstakra hjólamannvirkja, sem eru oft á tíðum alls ekki örugg né hentug til hjólreiða. Önnur sjónarmið eru oft látin ráða við hönnun þeirra en þau að mannvirkið henti til umferðar hjólreiðamanna og sé öruggt til síns brúks. Aðbúnaður sem ætlast er til að hjólreiðamenn nota er líka oft hannaður fyrir gangandi vegfarendur og hentar ekki hjólreiðamönnum sem eru að hjóla til samgangna, þótt þeir geti vel hentað börnum og fólki sem hjólar á gönguhraða. Það eru meira að segja til heimasíður þar sem gert er gys að fáránlegri hönnun fyrir reiðhjóla umferð. Það er líka vel þekkt að þjónusta við stíga er langtum lakari en við vegi t.d. hvað varðar snjóruðning. Á 4. mynd eru sýndar dæmigerðar aðstæður við einn af örfáum hjólastígum landsins. Samkvæmt frumvarpinu mætti hjólreiðamaður ekki hjóla á vel ruddri og greiðfærri götunni. Hann væri brotlegur og hægt að sekta hann. Hann ætti að plægja sig áfram í snjónum.
Af þessum ástæðum og fleiri telur LHM nauðsynlegt að hjólreiðamenn hafi svigrúm til að nota þau umferðarmannvirki sem hentugust og öruggust eru hverju sinni. Hjólreiðamenn sem hjóla greitt til samgangna eða æfinga velja þá leið sem þeim hentar og þeir sem hjóla hægt til útivistar eða í fylgd með börnum sínum velja þá leið sem þeim hentar best. Að skylda alla hjólreiðamenn til að nota sérstakan aðbúnað mun ekki henta því það er ekki hægt að steypa þá alla í sama mót. Það gleymist oft að umferðarlögin þurfa að gilda fyrir alla og vegakerfið í heild sinni. Menn hafa í þessu tilviki of mikla trú á lagasetningu til að leysa vandamál sem fyrst og fremst snúast um fræðslu, tillitsemi og kurteisi. Eins og sjá má af málflutningi LHM eru samtökin ekki feiminn við að brýna fyrir hjólreiðamönnum að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda og bílaumferðar þar sem það á við.
Þessar tillögur í 41. gr. frumvarps til umferðarlaga eru því að dómi LHM óþarfar og skaðlegar og byggðar á misskilningi á því hvað er best fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur og bílstjóra. Þær munu ekki auka öryggi né koma ekki í veg fyrir slys. Þær vinna auk þess gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar og stærsta sveitarfélags landsins um að auka hlut mengunarlausra samgangna svo sem göngu og hjólreiða.
Auðvitað er ekki við því að búast að þessum ákvæðum yrði framfylgt í nýjum lögum frekar en mörgum öðrum ákvæðum umferðarlaga. Það breytir því þó ekki að dæmt yrði eftir þeim, t.d. í tilviki eins og í Lundi í Svíþjóð, þar sem bílstjóri klessti á hjólreiðamann og stakk af. Það er spurning hvort það sé réttarfar sem er líklegt til að bæta samfélag og umferðaröryggi.
Árni Davíðsson
formaður LHM