Bílaflotinn og umhverfið

Morten Lange svarar leiðara Morgunblaðsins: "Með því að efla hjólreiðar og göngu sem samgöngumáta ásamt almenningssamgöngum má minnka mengun, minnka umferðarþunga, bæta heilsu, spara peninga og bæta ásýnd borgarinnar og þéttbýli."

Geinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar, 2005

Morgunblaðið   Þriðjudaginn 4. janúar, 2005 - Aðsendar greinar

Morten Lange svarar leiðara Morgunblaðsins.

 

Bílaflotinn og umhverfið

Morten Lange svarar leiðara Morgunblaðsins: "Með því að efla hjólreiðar og göngu sem samgöngumáta ásamt almenningssamgöngum má minnka mengun, minnka umferðarþunga, bæta heilsu, spara peninga og bæta ásýnd borgarinnar og þéttbýli." 

Í LEIÐARA Morgunblaðsins 1. desember, er vitnað í Tinnu Finnbogadóttur sem hefur tekið saman tölfræði um bílanotkun Íslendinga og kynnt sér skattareglur sem að þeim lúta. Leitt er líkum að skattareglur eigi sinn hlut í aukinni jeppaeign og mengun. Vinna Tinnu er hluti af loftslagsverkefni Landverndar.

Í leiðaranum er bent á dæmi erlendis frá um takmarkanir á akstri jeppa innanbæjar og möguleika á að umbuna svokölluðum umhverfisvænum bílum með lækkuðu stöðugjaldi eða ókeypis bílastæði. Þetta hlýtur líka að vera rétta leiðin hér á landi, segir í leiðaranum, auk þess sem efla þurfi almenningssamgöngur.

Maður getur ekki annað en verið sammála. Sérstaklega þarf að efla almenningssamgöngur, gefa strætisvögnum forgang í umferðinni og gera tilraunir með stórlækkað verð á fargjaldi.

Auk útblásturs gróðurhúsalofttegunda valda bílarnir heilsuskaðlegum og staðbundinni mengun í borginni og í bæjum landsins. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO, deyja jafnmargir af völdum beinnar mengunar bíla og af völdum umferðarslysa, á heimsvísu. Á umferðarþinginu 25.-26. nóvember kom fram að heildarkostnaður Íslendinga vegna umferðarslysa sé að minnsta kosti 15 milljarðar á ári. Þetta eitt og sér er af sömu stærðargráðu og sérstakar tekjur ríkisins af bifreiðanotkun landsmanna, samkvæmt tölum frá fjármálaráðuneytinu. Hægt væri svo að áætla hvað heilsumissir Íslendinga vegna offitu og hreyfingarleysis kosti samfélagið og hversu stóran hluti þess megi tengja við ofnotkun einkabifreiða.  

Sumir lesendur hafa kannski skilið í hvaða átt ég stefni. Jú, það er rétt, auk þess að yfirvöld umbuni þeim sem aka eyðslugrennri bílum ætti að umbuna þeim sem vilja sameina samgöngur og reglulega holla hreyfingu. Umbun ætti fyrst og fremst að felast í því að viðurkenna að óvélvædd umferð sé í mörgum tilvíkum fullgildur ferðamáti í þéttbýli.

Danir eru duglegir að hjóla, en samt hefur staðið yfir átak í Óðinsvéum um að auka hlut hjólreiða. Margt af því sem gert var í Óðinsvéum virðist hafa virkað, því á fjórum árum jukust hjólreiðar um 20%, og batnandi heilsa sparaði 35 milljónir danskar krónur bara í heilbrigðiskerfinu yfir 4 ár. Yfir lengri tíma með aukinni hreyfingu ætti heilsuávinningurinn að verða mun meiri, líka á ársgrundvelli. Til að byrja með fjölgaði hjólreiðaslysum nokkuð, en yfir tímabilið varð fækkun í hjólreiðaslysum um fimmtung.

Sumt af því sem gert var í Óðinsvéum er að vísu erfitt að yfirfæra beint til Íslands því þar var þegar til staðar öflugt net hjólreiðabrauta, víða í götustæði.

Hér eru nokkur dæmi um aðgerðir frá Óðinsvéum:

  • Stórt og vel auglýst átak um að hvetja borgarbúa til að hjóla til vinnu, með veglegum útdráttarverðlaunum.

  • Skýli fyrir reiðhjól í miðborginni, við vinnustaði og skiptistöðvar almenningssamgangna, sum með þrýstiloft til að setja í dekk.

  • Greiðari leiðir fyrir hjólreiðamenn í gegnum gatnamót, grænt ljós á undan bílum ofl.

  • Upplýsingar um grænar bylgjur á milli umferðarvita, með því að nota litil ljós við brautarkantinn sem eru í takti við grænu bylgjuna.

  • Kerrur til að auðvelda að hjóla með börn í leikskóla í láni frá sveitarfélaginu.

  • Ókeypis námskeið um viðhald á hjólum.

  • Margvíslegar auglýsingar kringum ýmis þemu og tilraunir.

Sumar af þessum hugmyndum mætti prófa líka hér á landi, en hér eru nokkrar hugmyndir frá eigin brjósti:

  • Drífa í því að tengja sveitarfélög saman með hjólreiðabrautum og göngustígum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

  • Fyrirtæki, skólar og stofnanir sæki um styrk til að útbúa reiðhjólastæði, helst með þökum og möguleikum til að læsa hjólum.

  • Vinnustaðir veiti íþróttastyrk til kaupa á íþróttafatnaði eða varahlutum á hjólum.

  • Skattafrádráttur gegn vottun vinnustaðar eða skóla um að starfsmaður eða nemi hafi komist til vinnu eða skóla öðruvísi en á einkabíl til dæmis í minnst 100 skipti.

Þessar fjárfestingar í óvarða vegfarendur munu að öllum líkindum borga sig margfalt fyrir samfélagið. Samkvæmt skýrslu frá Transportøkonomisk institutt í Noregi sparar hver sem fer að hreyfa sig daglega, samfélaginu um 100 þúsund íslenskar krónur á ári, að megninu til í heilsukerfinu og vegna minni fjarveru frá vinnu. Bresk skýrsla ( Lawlor et al) ályktar að bættar samgöngur óvarinnar umferðar sé besta leiðin til heilsueflingar almennings.  

En veðrið er svo afleitt á Íslandi, segja sumir. Haustið og veturinn hafa undanfarið ekki verið svo miklu verri hér en í Kaupmannahöfn, þar sem 30% ferða í vinnu eru farnar á reiðhjóli og um 70% af þeim halda áfram að hjóla yfir veturinn. Í skýrslu ESB, "Cycling: the way ahead for towns and cities", er fullyrt að veðrið eða brekkur séu aldrei stór vandamál. Þar er bent á að í Þrándheimi í Noregi, sem er álíka langt norður og Reykjavík, og hefur talsvert af brekkum, er um 8% ferða farin á reiðhjólum.

Með því að efla hjólreiðar og göngu sem samgöngumáta ásamt almenningssamgöngum, má minnka mengun, minnka umferðarþunga, bæta heilsu, spara peninga og bæta ásýnd borgarinnar og þéttbýli.

Morten Lange svarar leiðara Morgunblaðsins

Höfundur situr í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna

 

Slóð: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/leit.html  , slegið inn leitarorð "Bílaflotinn og umhverfið",  undir efnisleit.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.