Reykjavík fyrir fólk eða bíla?

Í Velvakanda Morguinblaðsins birtist {japopup type="iframe" content=http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=134068 width="1000" height="600" }grein sem spurði: Reykjavík fyrir fólk eða bíla?{/japopup}

Reykjavík fyrir fólk eða bíla?

Að undanförnu hafa fjölmiðlar keppst um að kynna kostnaðarsamar framkvæmdir varðandi stofnbrautir í borginni. Þar er um að ræða breikkun Vesturlandsvegar og Miklubrautar, einnig mislæg gatnamót við Höfðabakka og Kringlumýri.

Sífellt er verið að gera umhverfi okkar ónáttúrulegra með meira malbiki og steinsteypu. Þessar framkvæmdir eru einungis til þess fallnar að auka hraða, slysahættu, hávaða og þar með firringu. Þessi umfjöllun í fjölmiðlum hefur verið afskaplega einhliða og virðist sem svo að ekki sé það spurning hvort af þessum mannvirkjahryllingi verður, heldur hvenær af honum verður.

Það er löngu komið að því að borgaryfirvöld komist niður úr fílabeinsturninum og átti sig á því að Reykjavík þarf ekki að líta út eins og milljónaborg. Vissulega er umferð í borginni mikil miðað við stærð hennar því sagt er að umferð þar sé svipuð og í 300 þúsund manna borg. En spurningin er sú hvort það sé ekki einmitt vandamálið. Það er nefnilega fjöldi fólks sem gjarnan vildi komast ferða sinna á öruggan hátt, hjólandi eða gangandi, en þorir það einfaldlega ekki vegna þess að þeim er ekki búin jafn góð aðstaða og þeim sem nota einkabílinn.

Þessar kostnaðarsömu stórframkvæmdir varðandi akvegi virðast best þjóna pizza-sendlum því ekki drollar um þessar götur og gatnamót neinn fjöldi farartækja sem gæti skipt sköpum er varðar þjóðarhag. Vissulega er ekki hægt að halda fullum hraða í borginni á álagstímum á morgnana og seinni part dags þegar göturnar fyllast af bílum. Hve stór hluti þeirra eru nemendur á leið í og úr skóla sem auðveldlega gætu notað almenningssamgöngurnar? Einn strætisvagn getur rúmað 60 manns, sem þýðir að einn strætisvagn gæti komið í stað u.þ.b. 50 einkabíla.

Nú er svo komið að mengun í Reykjavík er mikil og sá gráguli sjóndeildarhringur sem þótti fréttnæmur fyrir fáeinum árum er orðinn hluti af fjallasýn Reykjavíkur. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld átti sig á því að beina þurfi fólki frá notkun einkabílsins með því að bjóða upp á raunhæfa valkosti, þ.e. nothæfa hjólreiða- og göngustíga. Seinustu misseri virðist sem borgaryfirvöld séu farin að sýna þessum málum áhuga ef litið er á skipun nefndar sem gera átti tillögur til úrbóta fyrir hjólareiðamenn í Reykjavík. Hún hefur þegar fengið í hendur þær tillögur sem Íslenski fjallahjólaklúbburinn hafði upp á að bjóða svo og tillögur frá samstarfshópi sem kallast: "Hjólreiðar í öndvegi". Nú er aðeins að vona að eitthvað verði úr verki svo að sú vinna sýni einhvern árangur. Ef einhvers staðar væri hægt að bjóða upp á atvinnuskapandi verkefni þá væri það í lagningu stofnbrautakerfis fyrir hjólandi umferð um höfuðborgarsvæðið sem um leið gæti nýst fólki í hjólastólum. Brautirnar verða að vera lagðar í því sjónarmiði að þær nýtist til samgangna, en ekki sem föndurverkefni arkitekta.

Þetta kallar á breytingu umferðarljósa við fjölmörg gatnamót, enda ekki vanþörf á. Núverandi ljósakerfi býður hreinlega upp á hærri slysatíðni og lögbrot um leið og troðið er á rétti annarra sem ekki eru úti að aka, t.d. þegar bílstjórar virða ekki stöðvunarlínur. Með því að breyta ljósunum og gera þau skilvirkari væri hægt að fækka umferðarslysum og spara byggingu mislægra gatnamóta.

Ekki má gleyma því að gatnamót eins og við Miklubraut og Kringlumýrarbraut eru í íbúðarhverfi og þar er mikil umferð gangandi fólks, m.a. vegna Kringlunnar. Aukinn hraði bílaumferðar á svona stöðum gerir lítið annað en að auka slysahættu.

Hjólreiða- og göngubrautir eiga ekki að vera með óþarfa kanta og beygjur, t.d. við gatnamót, en undantekningarlaust er þar fyrst og fremst hugsað um hag bílsins, fyrir aðra eru gatnamót best til þess fallin að hossa hjólareiðamönnum yfir sem flesta gangstéttarkanta og útiloka umferð fatlaðra í hjólastólum. Um leið eykur þessi frágangur slysahættu. Ómögulegt er að ryðja snjó af þessum gangstéttum vegna kantanna og vínekrutraktorar borgarinnar ráða einfaldlega ekki við þessar ófærur. Því þarf að hanna brautirnar með það í huga að venjulegir traktorar geti rutt sem flestar brautir án þess að sleppa ruðningi við gatnamót. Samhliða þessu ætti að gera stórátak í því að gróðursetja tré til að bæta veðurfar í borginni, um leið mundi sú aðgerð dempa umferðarhávaða og fegra borgina.

Strætisvagnakerfið þarf að bæta til muna og kynna miklu betur. Ef kostir strætisvagna væru jafn vel auglýstir og dömubindi og einkabílar, þá væri eflaust hægt að stórbæta ásýnd Reykjavíkur! Einnig væri hægt að nýta græna kortið sem happdrættismiða til að hvetja almenning til að nota vagnana meira en nú er. Strætisvagnar gætu boðið upp á fjölbryttari þjónustu, t.d. haft hjólagrindur á þeim vögnum sem fara út í ystu hverfi borgarinnar.

Samfara minnkandi einkabílanotkun myndi draga úr álagi á gatnakerfið, milljarðar sparast sem annars færu í viðhald og útþenslu þess. Það væri auðvelt og skynsamlegt að nota eitthvað af þeim peningum í útbætur á almenningssamgöngukerfinu og lagningu hjólareiða- og göngustíga. Mér eru minnisstæð orð fyrrverandi borgarstjóra, Markúsar Arnars Antonssonar, að Reykjavík ætti að verða útivistarborg. Ef af því ætti að verða þá ættu borgaryfirvöld að snúa sér umsvifalaust að fyrrnefndum útbótum því af nógu er að taka.

MAGNÚS BERGSSON,

form. Íslenska fjallahjólaklúbbsins.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl