Hræðileg leið fyrir hjólafólk
Hjólreiðaklúbburinn Hjólamenn hefur sent Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra bréf til að biðja hann að beita sér fyrir því að láta hjólreiðavegi fylgja með í kaupunum við mögulega breikkun vegarins milli Selfoss og Reykjavíkur. Guðni tjáði sig um vegamál í Sunnlenska fréttablaðinu í vikunni og sagði þar að fyrir lægi að ríkisstjórnin hefði tekið þá ákvörðun að ganga sem fyrst í "að ljúka stórvegagerð til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að leiðin úr Reykjavík til Selfoss verður tvöfölduð á næstu árum og vonandi á sem allra skemmstum tíma. Þetta mun auðvitað ný vegaáætlun staðfesta í vetur samkvæmt þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar", sagði Guðni í blaðinu.
Mörg hundruð manns á hjólum
Hjólamenn benda á að mikill fjöldi erlendra hjólreiðamanna heimsækir landið á hverju ári og starfandi eru tvö hjólreiðafélög sem stunda keppnishjólreiðar og með aðild að ÍSÍ. Eitt félag stundar þá þríþraut og einn klúbbur er utan um ferðalög. "Samtals eru þetta mörg hundruð manns og hafa hjólalestir undanfarinna ára sýnt fram á fjölda þeirra sem nota hjólið," segir í bréfinu. Hjólamenn óttast hins vegar þá miklu umferð sem er á vegum.
Í samtali við Morgunblaðið segir Elvar Örn Reynisson, formaður Hjólamanna, að leiðin til Hveragerðis sé hræðileg fyrir hjólreiðafólk vegna þess að þar eru þrjár akbrautir á vegi sem er hannaður fyrir tvær akbrautir.
"Í miðjunni er víragirðing sem minnkar möguleika bíla til að gefa hjólamönnum meira pláss," bendir Elvar á. "Það er enginn hjólreiðamaður sem hreinlega þorir að hjóla þarna." Á Keflavíkurveginum sé ekki betra ástand og miklar líkur séu á því að hjólreiðar verði bannaðar þar í framtíðinni.
"Að mínu mati þarf í upphafi að gera ráð fyrir hjólandi vegfarendum þegar vegir eru lagðir," segir Elvar. Hann bendir ennfremur á að gera þurfi hjólreiðaveg meðfram Vesturlandsvegi upp í Hvalfjörð enda sé fjörðurinn mikil perla fyrir hjólreiðafólk. "Og það er líka mikill straumur íslenskra sem erlendra hjólreiðamanna upp að Gullfossi og Geysi og þaðan yfir Kjöl. En hringvegurinn er þannig að það er nánast ekki þorandi að hjóla á honum."