Sáttmálar og stofnanir Sameinuðu þjóðanna hvetja til hjólreiða

Síðastliðinn október hittust ráðherrar samgöngumála Evrópusambandsríkja í Lúxemborg og sömdu yfirlýsingu um hjólreiðar sem loftslagsvænan samgöngumáta, „Cycling as a climate friendly Transport Mode“. Efni þessarar greinar byggist á því sem þar kom fram auk efnis frá heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umferðaröryggi og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál.  Við vitum að samfélagið græðir á hjólreiðum. Börn sem hjóla í skóla einbeita sér betur en þau sem er skutlað. Starfsmenn sem hjóla í vinnuna eru sjaldnar veikir. Því fleiri hjólreiðamenn þeim mun öruggari verða hjólreiðar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO myndi ótímabærum dauðsföllum fækka um meira en 100.000 á ári í Evrópusambandinu ef allir myndu hjóla eða ganga í 15 mínútur aukalega á dag. Þeir sem ekki hjóla sjálfir græða á hjólreiðum með færri  umferðarhnútum, minni mengun og hávaða og sparnaði í umferðarmannvirkjum og heilbrigðiskerfinu.

 

Samgönguráðherrar ESB vilja efla hjólreiðar

Ráðherrarnir sem hittust í Lúxemborg eru ekki í nokkrum vafa um mikilvægi hjólreiða. Ráðherrar samgöngumála sjá einnig að frumkvöðlastarf tengt hjólreiðum og hjólreiðaþjónustu muni fjölga störfum og efla rétta tegund af vexti í álfunni. Þeir telja hjólið nauðsynlegt til að létta á umferðarhnútum á mörgum þéttbýlissvæðum. Hjólið sem samgöngumáti sparar samfélaginu og einstaklingunum sjálfum aur. Ráðherrarnir settu saman aðgerðaáætlun í sjö liðum sem allar miða að því að efla hjólreiðar sem loftslagsvænan og skilvirkan samgöngumáta. Hjólreiðar þurfa að vera hluti af samgöngustefnu yfirvalda, efla þarf innviði og hvetja almenning til breyttrar hegðunar. Evrópusambandið skyldi þróa heildarstefnumótun á þessu sviði til að auka hlut hjólreiða. Stefnumótun í hjólreiðum ætti að tengja inn í verkefni svo sem CIVITAS og  „Smart Cities and Communities“ .  Samgönguráðherra ESB, Violetta Vulc sagðist reiðubúin til að aðstoða löndin með að koma upp góðu samskiptaneti og leiðum til að skiptast á reynslu í því að efla hjólreiðar.

 

Umferðaröryggisyfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hvetur til eflingar hjólreiða

Jákvæð áhrif hjólreiða komu víðar við sögu á alþjóðafundum haustið 2015. Borgin Brasilía var gestgjafi fyrir alheimsfund SÞ í nóvember um umferðaröryggi. Í yfirlýsingunni „Brasilia Declaration on Road Safety“ voru settar fram leiðir til að stemma stigu við vaxandi fjölda látinna í umferðinni í heiminum. Brýnt er að bregðast við, meðal annars vegna þess að aukin bílaeign í löndum með vaxandi efnahag þýðir að óbreyttu fjölgun dauðsfalla í umferðinni. Með yfirlýsingunni er stefnt að aukningu í virkum samgöngumátum, þ.e.a.s. í hjólreiðum, göngu og sambærilegu. Aðgengi skal bæta og öryggi auka meðal annars með byggingu og viðhaldi gangstétta og hjólreiðabrauta og með því að fjölga hraðamyndavélum til að lækka umferðarhraða.  Þá eru hin sterku jákvæðu áhrif virkra samgöngumáta á heilsu, umhverfisismál og sjálfbæra þróun nefnt í sömu andrá. 

 

Loftslagssamningurinn samþykktur í París 12. desember

Laugardaginn 12. desember var samþykktur tímamótasamningur nær 200 ríkja um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ljóst er að til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða.  Hjólreiðar og nokkrar aðrar lausnir í loftslagsmálum hafa þá sérstöðu að vera hluti af lausninni við margskonar vanda sem alþjóðsamfélagið vill bregðast við, eins og þegar hefur komið fram. Í Brynhildarskýrslunni, sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið árið 2009, er niðurstaðan sú að aðgerðir til að auka hlutdeild hjólreiða í samgöngum í þéttbýli skili hreinum hagnaði í stað þess að auka útgjöld. Þetta er í samræmi við fjölda rannsókna sem reiknivél WHO, HEAT for cycling byggir á.  Hjólreiðar sem lausn munu án vafa skipa verðskuldaðan sess á heimsráðstefnunni HABITAT um betri borgir næstkomandi haust, en senn mun mikill meirihluti manna búa í borgum.

Hjólreiðar hefðu mátt vera enn sýnilegri á sviði heimsmála, en síðustu misserin hafa Evrópusamtök hjólreiðamanna, European Cyclists‘ Federation (ECF) fengið byr í seglin og að undirlagi SÞ höfðu þau frumkvæði að stofnun Heimssamtaka um hjólreiðar til samgangna og ferðalaga, World Cycling Alliance, til að  eiga lögformlega rödd á vettvangi þeirra.

 

Koma svo, Ísland

Eftir lagabreytingu 2007, varð loks heimilt að íslenska ríkið taki þátt í að fjármagna lagningu stíga, næstum til jafns við reiðstíga. Stígar hafa svo verið lagðir, en uppfæra þarf lagaumhverfið til að hamla ekki aukningu hjólreiða.  Heildstæða áætlun um eflingu hjólreiða vantar.

Fyrir Alþingi liggur þingsályktun um að til verði Hjólreiðaáætlun Íslands. Innanríkisráðuneytið og Samgönguráð geta líka átt frumkvæði að málinu.

Vonandi ber íslenskum stjórnvöldum gæfa til að efla hjólreiðar ekki siður en samgönguráðherrar á meginlandi Evrópu hafa nú heitið og öll rök um heimsins gagn og nauðsynjar hníga að.

 

Reykjavík, mars 2016
Ásbjörn Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM)
Morten Lange fyrrverandi formaður Landssamtaka hjólreiðamanna

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl