Öryggisskoðun hjólastíga

Haustið 2014 voru gerðar öryggisskoðanir á nokkrum völdum hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu. Þær voru hluti af verkefni sem var styrkt af Rannsóknarsjóði vegagerðarinnar til að gera skýrslu um öryggiskoðun hjólastíga.

Undirritaður vann þetta verkefni í samvinnu við Hörð Bjarnason á verkfræðistofunni Mannvit. Hörður hafði veg og vanda að ritun skýrslunnar en ég gerði öryggisúttektirnar. Skýrslan um öryggisskoðun hjólastíga kom út í febrúar 2015 og er aðgengileg hér á heimasíðu Vegagerðarinnar en skýrslurnar um öryggisúttektir á nokkrum völdum hjólastígum eru aðgengilegar á heimasíðu LHM (sjá lista hér neðst).

Samtals voru skoðaðir 28,5 km af hjólastígum í fjórtán úttektum. Atriði sem gerð var athugasemd við voru skráð ásamt staðsetningu og tekin mynd ef þurfti. Atriðin sem skráð voru í úttektunum eru á 1. mynd hér að ofan. Hver punktur táknar eitt atriði. Skráð var athugasemd við atriðið, athugasemdirnar voru flokkaðar í flokka (beygjuradíus rangur, breidd stígs, áhætta á stíg, yfirborð óslétt, áhætta við stíg, lega stígs, lengdarhalli stígs, lýsing, sjónlengdir, blindhorn, umferðarmerking, vegvísun, uppbygging/lagning, viðhald/rekstur, þverhalli stígs, þverun akbrautar), mat var lagt á áhættu í þremur flokkum (mikil hætta, lítil hætta, þægindi) og tegund úrbóta í þremur flokkum (viðhald, minniháttar framkvæmd, meiriháttar framkvæmd) og tillaga gerð að úrbótum.

Á 2. mynd eru sýndir þeir staðir sem fengu matið "Mikil hætta" en samtals fengu 48 atriði þetta mat eða um 16% af skráðum atriðum. Á 3. mynd er sýnt dæmi um stað sem fékk matið "Mikil hætta" og var flokkaður sem "Áhætta við stíg" en á 4. mynd er sýnt dæmi um stað með matið "Mikil hætta" sem var flokkaður sem "Áhætta á stíg".

Fyrirhugað er að kynna niðurstöðurnar viðkomandi sveitarfélögum ásamt skýrslu um öryggisúttekt hjólastíga. Óskað er eftir því að þau taki niðurstöður úttektanna til skoðunar og láti lagfæra þau atriði sem bent er á. Jafnframt verða þau hvött til að láta fara fram öryggisúttektir á öðrum hjólastígum hjá sér.

 


2. Mynd. Staðir sem voru metnir hættulegir, fengu matið "Mikil hætta".

 



3. Mynd. Hætta við stíg, grindverk án merkingar alveg við stíg.

 

4. Mynd. Hætta á stíg, vatn frá uppsprettu rennur yfir stíg og frýs að vetrarlagi.

 

Listi yfir stíga sem voru skoðaðir.

Stígur Vegalengd (km)
Ægissíða 1,0
Einarsnes 1,0
Skerjafjörður 2,8
Fossvogsstígur 2,8
Elliðaárdalur 1,7
Elliðaárdalur-Mjódd 0,9
Mjódd-Lindir 2,1
Hafnarfjarðarstígur frá Sæbraut 1,8
Hafnarfjarðarstígur frá Miklubraut 1,9
Hafnarfjarðarstígur yfir Digranesháls 1,7
Hafnarfjarðarstígur yfir Arnarnes 1,7
Hafnarfjarðarstígur í gegnum Garðabæ 2,2
Hafnarfjarðarstígur í Hafnarfirði 1,9
Mosfellsbæjarstígur 4,9
Samtals 28,5 km

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.