Klúðrið við Hvalfjarðargöng
Í MORGUNBLAÐINU 16. júní sl. birtist viðtal við Stefán Reyni Kristinsson, framkvæmdastjóra Spalar, þar sem fram kom að hjólreiðar muni verða bannaðar í Hvalfjarðargöngunum. Sagði hann að talsmenn hjólreiðaklúbba sýndu því fullan skilning. Sannleikurinn er hins vegar sá, að ekki var haft samband við neinn hjólreiðaklúbb um þetta mál.Þann dag sem Spalarmenn fengu ríkisábyrgð á lánum til framkvæmda, lofaði fulltrúi Spalar í símaviðtali á Rás 2 að hjólreiðar yrðu leyfðar um göngin. Það var svo ekki fyrr en í vetur sem hjólreiðafólki varð sú staðreynd ljós að ekki mætti hjóla göngin. Það sem verra er, að lítið sem ekkert hefur verið hugsað um að koma til móts við hjólreiðafólk með viðunandi hætti. Þetta er líklega alveg einstakt í vestrænu samfélagi þar sem sambærilegar framkvæmdir eiga sér stað.
Undirritaður gerir sér fulla grein fyrir því að göngin eru komin til að vera. En eftir stendur sá vandi hjólareiðafólks, að ferðir Akraborgar verða lagðar niður. Þar er hjólreiðafólk á Reykjavíkursvæðinu að missa eina af sínum bestu samgönguæðum út á landsbyggðina. Akraborgin hefur flutt hjólreiðafólk beint úr miðborg Reykjavíkur upp í sveit þar sem umferð hefur hvorki verið mikil né ógnandi. Með því að ferðir hennar verða lagðar niður er reiðhjólafólki nauðugur einn kostur að hjóla fyrir Hvalfjörðinn, þar sem umferðin er oft hröð og áhættusöm. Akranes, sem áður var í notalegri klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík, er nú orðin dagleið í burtu, í hættulegri bílaumferð.
Fjöldi fólks er farinn að nota reiðhjólið sem farartæki. Það situr ekki reiðhjól sér til afþreyingar heldur til að koma sér á skömmum tíma með þægilegum hætti á milli staða án þess að skaða náttúru og samfélag með hávaða, loftmengun og fyrirferð. Samnýting með almenningsfarartækjum ýtir enn frekar undir þá góðu þróun. Þar má segja að Akraborgin hafi svo sannarlega þjónað sínu hlutverki.
Það sem hjólreiðafólki gremst mest er, að ekkert skuli koma í stað Akraborgarinnar þegar hún hættir siglingum. Hópferðabifreiðar eru ekki sambærilegar ferjum, eins og málum er háttað nú. Þó að freistandi sé að láta sérleyfishafann Sæmund Sigmundsson sjá um þetta "vandamál" er afskaplega takmarkað sem hann getur flutt með þeim bílum sem hann ætlar að nota um göngin. Ekki dugar að troða reiðhjólum í farangursrými, eða hengja á króka utan á rútu, því það vill oft stórskemma reiðhjólin, auk þess sem rífa þarf allan farangur af hjólinu. Rúturnar þurfa því fremur að vera eins og strætisvagnar þar sem hægt verður að renna hjólum, fulllestuðum með töskum, inn í vagninn. Tilkostnaðurinn ætti að vera sáralítill miðað við heildarkostnað ganganna. Fyrr en þetta vandamál reiðhjólamanna er leyst, geta göngin vart talist fullkláruð.
Sú fullyrðing Stefáns að hjólreiðafélög lýsi ánægju sinni yfir hugsanlega minni bílaumferð um Hvalfjörðinn er alveg úr lausu lofti gripin. Stefán getur alveg sagt sér það sjálfur að þá daga sem hjólreiðafólk er helst á ferð um Hvalfjörðinn skín sól í heiði og veðrið lokkar bæjarbúa upp í sveitir. Þá má búast við því að margir bílstjórar spari sér gangagjaldið og aki frekar Hvalfjörðinn. Umferðin verður þá vart minni en hún er í dag.
Sökina er ekki beinlínis að finna hjá Spalarmönnum. Hana er allt eins að finna hjá þingmönnum þessarar þjóðar sem hafa meiri áhuga á að ræða um einkanúmeraplötur og aukinn hámarkshraða á Alþingi en að koma hjólreiðastígum í vegalög. Því er það freistandi fyrir hönnuði umferðarmannvirkja að gera ekki meira en lög mæla fyrir um, hvort sem það er gáfulegt eða ekki. Í tugi ára voru hús ekki hönnuð með aðgengi fatlaðra í huga en í dag þykir það sjálfsagt mál. Hið sama ætti að gilda um hjólreiðastíga. Íslenskir þingmenn ættu fyrir löngu að vera búnir að átta sig á því að umferð er ekki aðeins bundin við bíla og hesta. Ég vil því nota tækifærið og hvetja þingmenn til að líta til nágrannaþjóða okkar, sem eru framarlega á þessu sviði og koma hjólreiðastígum í vegalög. Það er orðið löngu tímabært að reiðhjólið sé raunverulegur valkostur til samgangna. Það yrði náttúru, samfélagi og heilsufari manna til mikilla bóta.
Að lokum vil ég, fyrir hönd hjólreiðamanna, kveðja ýmsa þjónustuaðila í Akranesbæ þar sem bærinn verður ekki framar í alfaraleið. Ég vil líka þakka áhöfn Akraborgar fyrir samfylgdina á liðnum árum og vona að allt það góða fólk verði komið í nýja vinnu eftir 15. júlí. nk. Hjólreiðafólk mun sakna gömlu góðu daganna eftir að ferðir Akraborgarinnar leggjast niður.
MAGNÚS BERGSSON, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.