Breytti lífinu með ánægjuna að vopni

mbl-120117Ómar Smári Kristinsson, eða Smári, hreyfði sig ekki að ráði og fékk reglulega slæman höfuðverk. Í dag hefur hann klifið flest fjöll á Vestfjörðum, þar sem hann býr, og tekist á köflum á við hetjulegar torfæruleiðir á hjóli. Í Hjólabókinni, dagleiðum í hring á hjóli, segir Smári frá skemmtilegum hjólaleiðum á Vestfjörðum og segist vonast til að bókin verði fleirum hvatning

Þegar Ómar Smári Kristinsson fékk áminningu frá lækni um að nú þyrfti hann að fara að hreyfa sig reglulega tók hann að klífa á fjöll og hjóla vítt og breitt um Vestfirði. En Smári, líkt og hann er betur þekktur, býr á Ísafirði og hefur nú gefið út Hjólabókina, bók með hjólaleiðum þar um slóðir.

Dró úr hausverknum

„Við hjónin vorum veðurathugunarfólk í Æðey í sjö vetur og ég hélt að ég hreyfði mig nóg við að sinna þar búpeningnum, moka snjóinn út að veðurathugunarhúsinu og svo framvegis. En svo reyndist ekki vera. Eftir að við fluttum á meginlandið fjölgaði síðan verkefnum þannig að enn minni tími gafst til hreyfingar og vanlíðan mín ágerðist. Höfuðverkurinn var ansi tíður gestur tvisvar í mánuði að meðaltali og varði þá í tvo, þrjá daga í senn. Auðvitað vissi ég það innra með mér að maður þarf að hreyfa sig. Það var samt ekki fyrr en eftir læknisviðtal sem ég tók rögg á mig og fór að stunda meiri fjallgöngur og göngutúra en ég hafði gert. Nú eru tvö ár síðan ég fór að hreyfa mig upp á hvern dag og hausverkjatilfellum hefur fækkað stórlega og heyra þau nánast sögunni til,“ segir Smári.

Ánægður með dóminn

Smám saman fór Smári að hreyfa sig meira og meira og byggði þannig upp betri heilsu.

„Ég gerði þetta með ánægjunni og var frekar kátur að fá þennan dóm enda hef ég mikið yndi af útivist. Ég er svo vel í sveit settur hér á Vestfjörðum að hér er nóg af dásamlegum fjöllum til að príla í. Síðar var hér líka stofnað ferðafélag sem er gaman að vera meðlimur í. Ætli megi þó ekki segja að ég hafi fyrst séð ljósið þegar ég fékk lánað reiðhjól hjá honum frænda mínum. Þá rifjaðist upp fyrir mér hvað það er meiriháttar samgöngutæki og yndisleg hreyfing sem reynir jafnt á alla liði og er mátulegt átak. Við eigum nú bíl en það kemur fyrir að hann standi vikum eða mánuðum saman óhreyfður. Enda ekki mikið við hann að gera hérna í innanbæjarsnatti á Ísafirði þó að það sé ótrúlegt hvað fólk notar bílana í slíkt,“ segir Smári sem nú hefur gengið á flest fjöll á stór Skutulsfjarðarsvæðinu en á mörg eftir á Vestfjörðum.

Hetjulegar hjólaleiðir

Í dag fer Smári flestra sinna ferða hjólandi og hefur nagla undir hjólinu yfir veturinn. Þannig segir hann að honum séu flestar leiðir færar. Hann hefur hjólað allar þær leiðir sem finna má í bókinni og sumar oftar en einu sinni.

„Það eru margar býsna góðar leiðir hér í kring. Þetta eru ekki endalausar torfærur en þær eru algengar því Vestfirðir eru þannig hannaðir. Setji maður sér það markmið að hjóla í hring lendir maður í torfærum á flestum leiðunum. Hjá því verður ekki komist þar sem hringleiðir á Vestfjörðum eru þannig að annars vegar er þetta flatlendi með sjó fram og hins vegar heiðar sem maður paufast yfir til að komast í næsta fjörð. Það er því nokkuð um hetjulegar leiðir í þessari bók. Það fer eftir því í hvaða stemningu ég er hvaða leið er í uppáhaldi hjá mér. Myndin af mér í brattanum er t.d. tekin í Árneshreppi og er næsterfiðasta leiðin því hún er bæði löng og ströng. En þetta er um leið ofboðslega fallegt svæði og fjölbreytilegt. Akkúrat á hinum endanum er svo auðveldasta leiðin, í Önundarfirði, og þangað kemst ég daglega ef ég vil. Það tekur rétt rúman klukkutíma að hjóla þann hring um fallegt svæði. Svo verður maður að minnast á svokallaðan Svalvogahring sem er vettvangur Vesturgötunnar. Það er vinsælt víðavangshlaup sem haldið er á sumrin og um leið er haldin þar hjólreiðakeppni. Þetta er leið sem hægt er að mæla með fyrir alla,“ segir Smári.

 

Smakkar á lækjunum

Hjólabókin um Vestfirði er aðeins sú fyrsta í röð fleiri bóka og ætlar Smári sér að fara um landið og gefa út fleiri bækur með dagleiðum í hring á hjóli. Hann segist því ekki sjá fram á að njóta náttúruparadísar Vestfjarða að neinu ráði næstu sjö til átta árin enda er heilmikið verkefni framundan.

„Þessar bækur eiga að vera sería leiðarvísa með dagleiðum á hjóli um landið allt. Ísland er fullt af möguleikum fyrir hjólreiðafólk. En til að setja mér viðráðanlegt markmið lýsi ég þeim leiðum sem hægt er að fara á einum degi og þá hringleiðum. Hringleiðin hefur það fram yfir leiðina fram og til baka að að jafnaði sér maður helmingi meira á þannig leið. Þá eru meiri líkur á einhverju réttlæti hvað veðrið varðar og ekki sífelldur mótvindur,“ segir Smári. Í hjólaferðum segir Smári mikilvægt að hafa með sér viðgerðarsett og jafnvel aukaslöngu. Nesti tekur hann líka með allt eftir því hvað leiðirnar eru langar og skjólfatnað enda allra veðra von.

„Vatnsflösku hef ég alltaf en á ferðum mínum hef ég undantekningarlítið getað fyllt á hana með fárra tuga metra millibili. Maður kemst ekki yfir að smakka á öllum þessum lækjum með góðu vatni,“ segir Smári.


 

HJÓLABÓKIN

Saga svæðis og leiðir


Í Hjólabókinni er að finna 14 hjólaleiðir á Vestfjörðum. En auk þeirra skrifar Smári aukakafla með ýmiss konar útúrdúrum, möguleikum til gönguferða, öðr- um hjólaleiðum og náttúru- laugum. Þá er kafli í bókinni þar sem Smári skrifar einhvern fróð- leik um viðkomandi svæði, sem samgöngusögu hvers svæðis eða um einhverja markverða atburði sem þara hafa átt sér stað. Fékk hann þar í lið með sér einvala lið yfirlesara til að tryggja að öll örnefni og staðreyndir væru réttar. Bókin er gefin út af Vestfirska forlaginu og fékk Smári styrk hjá menningarráði Vestfjarða sem varð honum mikil hvatning og er hann nú byrjaður að þýða bókina á ensku.

Flestar myndirnar í bókinni eru eftir Smára en eiginkona hans, Nína Ivanova, sá um umbrot.


Myndatextar:

Bratti Leiðin í Árneshreppi er falleg en um leið löng og ströng.

GPS Smári tekur stöðuna til að vita nákvæmlega hvert skal haldið næst.

Náttúran Fallegt er á Vestfjörðum og tilvalið að hjóla þar um ýmsar leiðir, sérstaklega á sumrin.

Uppruni: Morgunblaðið 17. janúar 2012 - María Ólafsdóttir

mbl-120117b

mbl-120117c

 

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.